Byrjað er að leggja flísar frá miðjum fletinum, eða þeim stað sem er mest áberandi. Afgangsflísar eiga heima úti í hornum, eða við gólfbrún, þar sem minna ber á þeim. Ef flísar eru lagðar á gólf skal draga hornrétta beina línu eftir miðju gólfinu, leggja fyrstu flísaraðirnar sína hvoru megin við línuna og vinna út frá þeim. Milli keramiksflísa er haft bil, sem síðan er fyllt upp í með þar til gerðu sementsefni, eða fúgu. Vínil- og korkflísar eru hinsvegar lagðar þétt saman, á svipaðan hátt og gólfdúkur.
Hvernig sníðir maður flís með óreglulegri lögun?
Þegar sníða þarf flís með óreglulegri lögun, t.d. fyrir niðurfallspípu, er pappaspjald á stærð við flísina skorið til og klippt upp í það með 5-6 millimetra löngu millibili. Pappinn er lagður þar sem flísin á að vera og ræmunum þrýst að pípunni. Brotið í ræmunum sýnir svo lögun flísarinnar og sniðið er fært inn á hana með tússpenna.
Hvernig leggur maður keramikflísar?
Flísalím er borið á flötinn sem á að flísaleggja með riffluðum spaða og flísarnar síðan lagðar á. Til að fá jafnt bil á milli flísanna er þar til gerðum plastkrossum stungið á milli þeirra. Þegar maður leggur keramikflísar er nauðsynlegt að nota hallamál, réttskeið og vinkil eða tommustokk til að fá þær beinar og sléttar. Þegar límið er orðið þurrt (um sólarhring síðar) eru fúgur lagðar á milli flísanna.
Hvernig setur maður fúgu?
Fúgusement er selt í ýmsum litum.
Gott er að kaupa fúgu í algengum lit svo auðvelt sé að gera við ef það brotnar upp úr þeim síðar meir.
Fúgusementið er hrært út í vatn og borið yfir flísarnar með sérstökum fúguspaða. Áður en fúgurnar harðna er þvegið yfir gólfið með rökum svampi. Þetta er gert u.þ.b. þrisvar sinnum, eða þar til fúgan er orðið jöfn og þétt í rifunum milli flísanna og flöturinn sléttur og flísarnar hreinar. Hæfilegt er að bera fúgur á u.þ.b. þrjá fermetra í einu.
Ef fúguefnið harðnar á flísunum er beðið í tvo daga og þvegið yfir gólfið með saltsýrublöndu; 1 hluti af saltsýru á móti 4 hlutum af vatni.
Hvernig sker maður til keramikflísar?
Yfirleitt þarf að skera einhverjar af flísunum til. Hægt er að leigja sérstaka flísaskera en einnig má notast við góðar glerskera. Mælt er út hvar á að skera, réttskeið eða planki lagður við skurðlínuna sem er látinn stýra skurðinum. Skorið er í þá hlið flísarinnar sem er með glerungi. Henni er síðan komið fyrir þannig að endinn, sem brjóta á af, standi fram af skarpri brún, til dæmis á borði. Flísin er svo brotin með handafli. Brún hennar má svo slétta með þjöl.
Hvernig gerir maður gat á keramikflísar?
Þegar flísalagt er í kringum rofa, vatnsrör eða annað þarf að gera gat á eina eða fleiri flísar. Fyrst er mælt fyrir gatinu, teiknað fyrir því á glerung flísarinnar (þ.e. tekið snið líkt og lýst er hér að ofan) og síðan boraðar samliggjandi holur með sex millimetra steinbor við innri brún teiknuðu línunnar. Koma má í veg fyrir að borinn skriki til með því að líma sterkt límband á glerunginn. Loks er slegið úr gatinu, en kantinn má slétta með þjöl.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?