Hvað er bóknám?
Bóknám er skipulagt sem undirbúningur fyrir nám á háskólastigi. Í flestum skólum eru bóknámsbrautirnar þrjár: félagsfræðabraut, náttúrufræðabraut og málabraut. Fjöldi skóla býður upp á fleiri námsleiðir í bóknámi, til dæmis viðskipta- og hagfræðibraut og upplýsinga- og tæknibraut.
Af hverju að velja bóknám?
Til að fá inngöngu í háskóla þarf að ljúka stúdentsprófi. Þar sem bóknámsbrautirnar undirbúa fólk á ólíkan máta er mikilvægt að velja sér námsleið eftir áhuga og hæfileikum. Náttúrufræðabraut er því besti undirbúningurinn fyrir háskólanám í raunvísindagreinum og greinum sem krefjast mikillar stærðfræðikunnáttu, svo sem náttúru- og læknavísindum og verk- og viðskiptafræði. Málabraut undirbýr fólk sem vill mennta sig í hugvísindum eins og tungumálum og bókmenntum. Félagsfræðabraut er kjörin fyrir fólk sem ætlar sér að leggja stund á greinar eins og sálfræði, mannfræði og stjórnmálafræði.
Hvað er bóknám langt?
Bóklegt menntaskólanám er að jafnaði fjögur ár og lýkur með stúdentsprófi. Ákveðnir skólar bjóða þó upp á hraðbrautir og geta nemendur lokið náminu á minnst tveimur árum.
Hver eru inntökuskilyrðin í bóknám?
Til að komast inn í framhaldsskóla þarf nemandi að hafa lokið grunnskólaprófi með lágmarkseinkunn. Ef nemandi hefur útskrifast með falleinkunn þarf hann fyrst að ljúka námi á almennri braut. Eftir það getur hann hafið nám á menntaskólastigi. Skólar eru að sjálfsögðu misvinsælir og há einkunn á grunnskólaprófi eykur líkurnar á að komast inn í skóla þar sem aðsóknin er mikil.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?