Flestir hafa gaman af því að lesa góða bók. Ef þú hefur aldrei upplifað slíkt eru meiri líkur en minni að þú hafir aldrei fundið nákvæmlega það sem heillar þig. Margir hafa glímt við þetta vandamál en með ákveðnum aðferðum er mögulegt fyrir þig byrja njóta lesturs eins og svo margir aðrir gera.

Lestu það sem þér finnst skemmtilegt

Þetta er eitt af því mikilvægasta. Bækur eru mjög fjölbreytt afþreying og ólíkt til dæmis kvikmyndum þá hefur fólk oft mjög sérstakan smekk þegar þær eru annars vegar. Algengt er að fólk reyni að lesa klassísk verk eða eitthvað sem aðrir mæla með en finni sig ekki í textanum. Vissulega er gott að hlusta á ráðleggingar annarra en þær þurfa ekki endilega að henta þér. Reyndu að muna hvaða bækur þér fannst skemmtilegar. Voru það einhverjar ákveðnar tegundir af sögum eða innhélt textinn kannski mikið af samtölum?

Reyndu að lesa á öðrum tungumálum en íslensku

Ísland er lítið land og er því úrvalið af bókum á íslensku skiljanlega ekki jafn mikið og til dæmis í enskumælandi löndum. Því getur oft hentað vel að lesa á öðrum tungumálum. Oft er gott að prófa sig áfram með barna-, unglinga- eða myndasögubækur en með tímanum ættirðu að vera fullfær um að lesa hvað sem er á viðkomandi tungumáli.

Prófaðu að lesa eitthvað styttra

Bækur geta verið mjög langar og sumir lesa ekki mjög hratt. Ef maður er marga mánuði að lesa eina bók ertu líklega ekki að fá mikið út úr sögunni. Í þessum aðstæðum getur verið meira gaman að prófa sig áfram með smásögur eða nóvellur (sögur sem eru styttri en bók en lengri en smásögur). Oft mögulegt að klára stutta sögu á hálftíma eða kvöldstund. Þetta hentar sumum betur en 500 blaðsíðna bók.

Lestu kannski of hægt?

Sumir hafa mikla einbeitingu og eiga auðvelt með að renna hægt yfir texta og leggja hvert einasta smáatriði á minnið. Aðrir hafa hreinlega ekki þolinmæðina til að lesa hægt og innan tíðar er hugurinn farinn að reika og hugsa um eitthvað allt annað en söguna. Í þessum tilvikum getur hraðlestur komið sér vel. Til eru myndbönd á netinu og námskeið sem hægt er að sækja ef þú vilt skoða hraðlestraraðferðir.

Hljóðbækur geta verið ótrúlega skemmtilegar

Sumir hafa algerlega enga þolinmæði til þess að lesa yfir höfuð. Ef þú ert þannig skaltu endilega skoða hljóðbækur. Mögulegt er að hlusta á hljóðbækur í ræktinni, í bílnum, á ferðalögum, við heimilisþrif, á hjóli, í göngutúr o. fl. Við eyðum oft ógrynni af tíma í að gera ekki neitt og má þá oft hlusta á eitthvað skemmtilegt á meðan. Einnig er hægt að nýta sér síður eins og Librivox sem bjóða upp á efni sem ekki er höfundavarið og er því ókeypis. Þeir sem eru lesblindir eða eiga í erfiðleikum með sjón geta líka nýtt sér blindrabókasafnið. Þar eru næstum allar bækur sem gefnar hafa verið út á íslensku til á hljóðbókaformi.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar