Íslensk erfðagreining telur að um 1% Íslendinga séu rangfeðraðir. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að börn eru skráð með rangan föður (eða jafnvel móður) við fæðingu. Í sumum tilfellum veit móðirin einfaldlega ekki betur, margir koma til greina eða einhverjar ástæður liggja fyrir því að móðirin velur að feðra barnið öðrum en líffræðilegum föður sínum. Barn á rétt á því að þekkja foreldra sína og því ber móðurinni að feðra barnið réttum föður. Svo eru til aðstæður þar sem barn er ófeðrað, því móðirin man ekki hver faðirinn er eða þekkir hann ekki.
Að auki eru önnur tilvik, svo sem í ættleiðingu eða tæknisæðingu með sæðisgjöf þar sem líffræðilegur faðir er ekki skráður sem faðir barnsins, en við ætlum ekki að fjalla um það sérstaklega hér heldur aðeins tilvik sem koma til vegna mistaka eða miska.
Þjóðin öll í orðum fám
yfir sannleik breiðir,
Ekki sjást í ættarskrám
allar krókaleiðir.
-Úr vísnasafni Hafliða Kristbjörnssonar Birnustöðum á Skeiðum
Hvernig veit ég hvort ég er rangfeðraður?
Margir fara í gegnum lífið án þess að gruna nokkuð. Uppeldi er oft talið jafnmikilvægt og erfðir og börn geta verið mjög lík kjörforeldrum sínum þó að þau séu ekki blóðskyld; einfaldlega af því að þau pikka upp sömu takta, hreyfingar, orðalag og hætti. Þó er ekki loku fyrir það skotið að barnið (hvort sem það er ungt eða fullorðið) geti farið að gruna eitthvað af ýmsum ástæðum og stundum uppgötvast rangt faðerni í læknisrannsóknum. Dæmi um atvik sem geta vakið upp efasemdir um faðerni barns:
- Eindreginn óútskýranlegur mismunur á útliti barns og föður.
- Genafræðilegt ósamræmi, svo sem í augnlit eða blóðflokkum.
- Læknisrannsóknir, svo sem við leit að beinmergsgjafa.
- Orðrómur.
Eina aðferðin til að vera viss um hvort einstaklingur sé faðir barns eða ekki er með erfðaprófi, sem oft er kallað faðernispróf í daglegu tali. Áttavitinn hefur áður fjallað um faðernispróf, en það er gert með blóðprufu eða munnvatnsstroku og kostar mismikið eftir því hvort það er gert innanlands eða utan. Þú getur lesið þér betur til um erfðapróf í greininni “faðernispróf”.
Get ég séð hvort pabbi minn sé pabbi minn eftir því hvernig augun okkar eru á litinn?
Nei og já. Það getur verið vísbending, en ýmsir aðrir þættir geta haft áhrif á það. Til dæmis eru augu mjög misdökk og það getur verið erfitt að sjá nákvæmlega hvaða lit þau hafa. Móleit augu eru til dæmis skyldari brúnum en geta litið út eins og þau séu græn. Þú skalt því ekki taka þessu sem heilögum sannleik, heldur fara fram á faðernispróf (sért þú í vafa), en þessi tafla getur samt veitt þér einhverjar hugmyndir um líkindi á arfgengi augnlita.
Ég er ekki í sama blóðflokk og foreldrar mínir. Þýðir það að ég sé rangfeðruð?
Nei alls ekki, en blóðflokkar geta samt sem áður gefið vísbendingar um hvort að þú sért rétt feðraður. Þú getur verið O, en foreldrar þínir báðir A, því að einstaklingurinn er með tvö gen sem ákvarða flokkinn. Þess vegna skaltu ekki alveg fara á límingunum þó að þú sért ekki í sama blóðflokki og foreldrar þínir og skoða þessar töflur:
Fólk getur verið í blóðflokkum A, B, AB eða O. Til þess að vera í blóðflokki O þurfa bæði genin að vera O. Til þess að vera í blóðflokki A, hins vegar, getur annað genið verið O, því það er víkjandi. Hér er tafla yfir blóðflokkana:
Arfgerð (DNA) | Blóðflokkur |
AO eða AA | Blóðflokkur A |
AB | Blóðflokkur AB |
BO eða BB | Blóðflokkur B |
OO | Blóðflokkur O |
Ef að foreldrar þínir eru t.d. báðir AO og þar með í blóðflokki A, eru 25% líkur á að þú fáir O genin frá þeim báðum og sért því í blóðflokki O.
Ef að blóðflokkur þinn passar ekki við möguleikana sem eru gefnir upp í þessari töflu getur verið hugsanlegt að um rangt faðerni sé að ræða. Hafðu þó í huga að fólki getur misminnt í hvaða blóðflokki það er, mælingar geta verið rangar og að þetta er ekki algerlega skothelt. Þess vegna skaltu fara fram á faðernispróf ef þú hefur grun um að þú sért rangt feðraður.
Hvað geri ég ef ég er rangt feðraður?
Ef að þú ert þegar feðraður sambýlismanni eða eiginmanni móður þinnar en kemst að því að hann er ekki líffræðilegur faðir þinn verður móðir þín að höfða faðernismál, nema að þú sért orðinn sjálfráða. Ef þú ert ófeðraður getur þú reynt að fá hugsanlega feður í faðernispróf. Það getur reynst dýrt, bæði fyrir þig og einstaklinginn. Sá sem er faðirinn þarf að borga faðernisprófið, en þeir sem ekki reynast líffræðilegir feður þínir þurfa ekki að borga faðernisprófið heldur gerir ríkið það. Þú gætir hins vegar þurft að borga málskostnað þeirra. Til eru ódýrari próf sem framkvæmd eru í útlöndum, þannig að þú sendir munnvatnssýni. Þau eru alveg jafn örugg, en standast þó ekki fyrir rétti á Íslandi og ekki er hægt að neyða mann til að fara í þannig (en það er hægt að krefjast þess löglega að hann mæti í hið íslenska).
Mundu samt:
Að einstaklingur sem elur þig upp getur átt mikið í þér, þó hann eigi ekki genin í þér. Sá einstaklingur getur hafa alið þig upp í góðri trú um að þú sért lífræðilegt barn hans eða í þeirri trú að það hafi verið þér fyrir bestu að halda að þú sért líffræðilegt barn hans. Væntumþykja og kærleikur stjórnast ekki af blóði.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?