Hvað er forræði?

Sá sem fer með forræði barns ræður persónulegum högum þess og ber skyldur til að annast það. Það er meginregla í lögum að foreldrar fari með sameiginlega forsjá barna sinna, hvort sem þeir eru í sambúð eða ekki. Við skilnað foreldra verður annað þeirra forsjármaður barnsins – það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá. Ekki er hægt að eiga lögheimili á tveimur stöðum því er það foreldranna að ákveða hvar lögheimili barnsins skuli vera. Forsjármaður skal annast barnið, sjá því fyrir mat, klæðum og húsnæði, vernda það gegn öllu ofbeldi og sinna þörfum þess.

Hvað er sameiginleg forsjá?

Sameiginleg forsjá þýðir að báðir foreldrar hafa samráð um allar meiriháttar ákvarðanir sem varða hag barnsins. Ef foreldrar eru ekki í sambúð er málum háttað á eftirfarandi hátt:

  • Barnið dvelur að staðaldri hjá öðru foreldrinu, en hjá hinu á tilteknum tímum eða tímabilum eftir samkomulagi. Þarna er talað um umgengnisrétt.
  • Það foreldri sem barnið hefur lögheimili hjá ræður hversdagslegum athöfnum þess.
  • Allar meiriháttar ákvarðanir sem varða hagi barnsins, svo sem búsetu-, skóla- og fjármál þarfnast samþykki beggja foreldra.

Sameiginleg forsjá felur ekki í sér að foreldrar deili kostnaði jafnt

Það foreldri sem greiðir meðlag er ekki skylt að greiða neitt umfram það. Þó er eðlilegt að foreldrar deili kostnaði á sem sanngjarnastan hátt. Til að mynda, ef barn býr hjá báðum foreldrum, er eðlilegast að meðlag og bætur skiptist jafnt á milli þeirra. Hvernig sem forsjá er háttað eiga bæði foreldrar og barn rétt á umgengni við hvort annað með reglubundnum hætti.

Hvað er umgengnisréttur?

Umgengnisréttur á að tryggja barni og foreldri (því sem barnið á ekki lögheimili hjá) ákveðinn tíma til að vera saman. Hversu langur þessi tími er og hvernig honum er háttað fer eftir samkomulagi foreldra. Hægt er að gera munnlega og skriflega umgengnissamninga.

Ef deilur um forsjá eða umgengni eiga sér stað vandast málið

Foreldrar eiga kost á sérfræðiráðgjöf og fundum hjá sýslumanni til að leysa málið.
Hægt er að fá sýslumann til að úrskurða umgengnisrétt foreldra sé þess óskað. Úrskurð hans má kæra til innanríkisráðherra. Ef foreldrum tekst ekki að finna lausn á deilu sinni hjá sýslumanni er hægt að höfða forsjármál fyrir dómi. Það getur verið flókið og tímafrekt ferli.

Geta börn óskað eftir nýjum forsjáraðilum?

Nei, börn geta ekki sjálf óskað eftir nýjum forsjáraðilum. Barn getur hinsvegar farið þess á leit við hitt foreldrið, sem fer ekki með forræði, að það hefji forræðismál og reyni að fá lögheimilið fært yfir til sín. Slíkt er hægt að sækja um hjá sýslumanni. Barn getur ekki sjálft flutt lögheimili sitt.

Telji barn að heilsu sinni eða öryggi sé ógnað getur það leitað til Barnaverndarnefndar og óskað eftir aðstoð. Gott er að barn fái einhvern traustan fullorðinn einstakling til liðs við sig í slíkum málum. Barnið má þó líka óska sjálft eftir aðstoð hjá Barnaverndarnefnd.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar