Hvernig er mini pillan notuð?

Mini pillan er tekin inn einu sinni á dag, án þess að taka hlé eins og gert er á samsettu pillunni. Í hverjum pakka er 28 daga skammtur. Hún er hentug fyrir konur sem eru með börn á brjósti og konur yfir 35 ára.

Hversu örugg getnaðarvörn er mini pillan?

Mesta öryggi mini pillunnar er 99% ef hún er tekin rétt, ef ekki aukast líkur á þungun.

Hvernig virkar mini pillan?

Mini pillan inniheldur hormónaefnið prógesterón. Sé hún tekin reglulega og ávallt á sama tíma dags verður slím í leghálsi þykkara þannig að sáðfrumur komast síður upp í legið og einnig kemur hún í veg fyrir egglos. Legslímhúðin breytist líka þannig að egg festist síður ef það frjóvgast.

Hverjir eru helstu kostir mini pillunnar?

  • Hún er örugg getnaðarvörn.
  • Hún inniheldur aðeins eitt hormón.
  • Blæðingar geta minnkað og jafnvel hætt.
  • Túrverkir geta minnkað.
  • Mini pllan getur virkað sem vörn gegn krabbameini í legi og eggjastokkum.

Hverjir eru helstu ókostir mini pillunnar?

  • Blæðingar geta orðið óreglulegar og smáblæðingar geta orðið á milli hinna eiginlegu blæðinga.
  • Blæðingar geta hætt.
  • Vægar aukaverkanir eins og þyngdaraukning, brjóstaspenna, bólur og höfuðverkir geta gert vart við sig.
  • Gæta þarf mikillar nákvæmni við inntöku pillunnar.
  • Ákveðin hætta er á að getnaðarvörnin gleymist.

Nánari upplýsingar um mini pilluna

  • Mini pilluna þarf að taka inn ávallt á sama tíma dags. Ekki mega líða meira en 3 klukkustundir frá þeim tíma sem átti að taka hana inn til þess að öryggi hennar minnki.
  • Uppköst, niðurgangur og sum lyf geta dregið úr öryggi hennar og þá þarf að nota aðrar getnaðarvarnir samhliða í a.m.k. 7 daga á eftir.

Mini pillan er hentug getnaðarvörn þegar kona er með barn á brjósti og fyrir þær konur sem komnar eru yfir 35 ára aldur.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar