Hvernig er pillan notuð?

Pillan, eða samsetta pillan eins og hún er stundum kölluð, er tekin inn einu sinni á sólarhring í 21 dag. Síðan er gert vikuhlé á inntöku pillunnar og þá eiga blæðingar sér stað. Að því loknu er byrjað að taka pilluna að nýju.

Hversu örugg getnaðarvörn er samsetta pillan?

Sé hún tekin inn rétt er öryggi hennar í kringum 99%. Ef ekki aukast líkur á að konan verði ófrísk.

Hvernig virkar samsetta pillan?

Samsetta pillan inniheldur tvö hormón, östrógen og prógesterón. Ef hún er ávallt tekin inn á sama tíma sólarhrings kemur hún í veg fyrir egglos, þ.e. að einu sinni í mánuði losni egg úr eggjastokkum konunnar. Slím í leghálsi verður þykkara og legslímhúðin breytist og það minnkar einnig líkur á frjóvgun og þungun.

Hverjir eru helstu kostir samsettu pillunnar?

  • Hún er örugg getnaðarvörn.
  • Blæðingar minnka og verða reglulegar.
  • Minni túrverkir verða.
  • Fyrirtíðaspenna og spenna í líkamanum fyrir blæðingar getur minnkað.
  • Veitir vörn gegn krabbameini í eggjastokkum og legbol, og sýkingum í grindarholi.
  • Sumar tegundir pillunnar hafa jákvæð áhrif á húðina og draga úr bólum.

Hverjir eru helstu ókostir samsettu pillunnar?

  • Fyrstu mánuðina getur komið fram ógleði, spenna í brjóstum og milliblæðingar, sem hverfa síðan.
  • Aðrar aukaverkanir svo sem þyngdaraukning, skapsveiflur og hækkaður blóðþrýstingur geta komið fram.
  • Alvarlegar aukaverkanir á hjarta- og æðakerfi eða brjóstin geta komið fram en eru mjög sjaldgæfar.
  • Ákveðin hætta er á að getnaðarvörnin gleymist.

Nánari upplýsingar um samsettu pilluna:

  • Öryggið minnkar ef það gleymist að taka pilluna í meira en 12 klukkustundir frá þeim tíma sem átti að taka hana inn.
  • Öryggið minnkar ef kona fær uppköst eða niðurgang eða ef hún notar ákveðin lyf. Þá ætti ávallt að nota aðrar getnaðarvarnir samhliða, í a.m.k. 7 daga á eftir.
  • Konum sem reykja og eru komnar yfir 35 ára aldur er ráðlagt að nota ekki pilluna þar sem það stóreykur hættu á krabbameini.

Misjafnt er hvaða tegund pillunnar hentar hverri konu. Ef aukaverkanir eru miklar getur verið ráðlegt að prófa nýja tegund.

Hvar má nálgast frekari upplýsingar um getnaðarvarnir og þungun?

  • Á heilsugæslustöðvum.
  • Hjá heimilis- og heilsugæslulæknum.
  • Hjá kvensjúkdómalæknum.
  • Hjá heilsugæsluhjúkrunarfræðingum.
  • Hjá ljósmæðrum.
  • Í apótekum og lyfjavöruverslunum.
  • Hjá ráðgjafaþjónustu um getnaðarvarnir sem reknar eru í sumum heilsugæslustöðvum.
  • Í Hinu Húsinu.
  • Á kvennadeild Landspítalans.

 

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar