Hvernig er koparlykkjan notuð?

Læknir kemur koparlykkjunni fyrir í legi konunnar. Lykkjan er úr plasti og kopar.

Hversu örugg getnaðarvörn er koparlykkjan?

Mesta öryggi koparlykkjunnar er yfir 99% þegar hún er rétt staðsett.

Hvernig virkar koparlykkjan?

Koparlykkjan kemur að miklu leyti í veg fyrir að sáðfrumur nái að frjóvga eggið, en hún breytir líka legslímhúðinni þannig að ef egg frjóvgast festist það ekki í leginu.

Hverjir eru helstu kostir koparlykkjunnar?

  • Hún er örugg getnaðarvörn um leið og henni hefur verið komið fyrir í legi konunnar.
  • Getnaðarvörnin gleymist ekki.
  • Engin hormónaáhrif, svo verkunin er aðeins í leginu.
  • Hún er langtíma getnaðarvörn sem hægt er að hafa í 3-7 ár, eftir því hvaða tegund er valin.
  • Hægt er að láta fjarlægja koparlykkjuna hvenær sem er.
  • Áhrif koparlykkjunnar hverfa um leið og hún er fjarlægð.

Hverjir eru helstu ókostir koparlykkjunnar?

  • Tíðablæðingar verða oft meiri en áður, sérstaklega á fyrstu mánuðunum eftir að koparlykkjunni hefur verið komið fyrir.
  • Koparlykkjan getur færst úr stað, t.d. við blæðingar og veitir þá ekki lengur eins örugga vörn gegn getnaði.
  • Konur geta verið næmari fyrir sýkingu í legi eða eggjaleiðara. Sýking er algengari hjá þeim konum sem eiga fleiri bólfélaga.
  • Verði kona ófrísk á meðan hún er með koparlykkjuna er meiri hætta á utanlegsfóstri.
  • Koparlykkjan getur mögulega valdið óþægindum.

Nánari upplýsingar um koparlykkjuna

  • Koparlykkjan er hentugust fyrir konur sem hafa átt börn.
  • Mikilvægt er að konan athugi sjálf hvort lykkjan sé rétt staðsett í leginu í lok blæðinga, með því að þreifa fyrir þráðum hennar.
  • Þræðirnir liggja frá lykkjunni niður í gegnum leghálsinn.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar