Að hugsa um kynlíf sem einhvers konar gjörning þar sem áhorfendur eru að fylgjast með, meta og gefa þér einkunn fyrir er mjög slæmt fyrir sálina.

Kynlíf er svo miklu meira en bara einhver viðbrögð líkamans við snertingum. Tilfinningar spila einnig stórt hlutverk svo stress getur haft neikvæð áhrif á upplifunina.

Þetta tiltekna hugarfar getur leitt til þess að fólk verði of meðvitað, sjálfsgagnrýnið, áhyggjufullt og kvíðið meðan á samförum stendur og í kjölfarið upplifað ristruflanir, þurrk, ótímabært sáðlát eða erfiðleika við að fá fullnægingu. Þetta köllum við frammistöðukvíða.

Orsakir frammistöðukvíða

Frammistöðukvíði orsakast fyrst og fremst af neikvæðum hugsunum. Kvíðinn getur bæði tengst kynlífinu sjálfu; óttinn við að standa sig ekki, ná ekki að viðhalda standpínu, blotna ekki, eiga erfitt með að fá það, ná ekki að fullnægja makanum o.s.frv. Svo getur kvíðinn verið af allt öðrum ástæðum sem hafa ekkert með kynlíf að gera.

Aðrar orsakir geta t.d. verið vinnan, fjárhagur heimilisins, börnin, sambönd/samskipti o.s.frv.

Fyrsta skref er að reyna að koma röð og reglu á hugsanir okkar til að geta fundið hvar vandamálið í rauninni liggur.

Typpi vs. píkur

Frammistöðukvíði er töluvert algengari meðal karlmanna en fólk heldur og er stinningarvandi eitt helsta kynlífsvandamál í heiminum.

Frammistöðukvíði greinist ekki jafn oft hjá konum en hann getur samt haft mikil áhrif á kynferðislega löngun þeirra. Kvíðinn getur komið í veg fyrir að konur blotni nægilega til að geta stundað kynlíf og getur það eitt og sér minnkað löngunina í kynlíf til muna.

Afhverju er ég að upplifa frammistöðukvíða?

Ýmsir þættir geta komið til greina:

  • Ótti við að standa sig ekki nógu vel og ná ekki að fullnægja makanum.
  • Lágt sjálfsmat.
  • Erfiðleikar í sambandinu.
  • Typpaáhyggjur. Er félaginn nóg?
  • Ótti við brátt sáðlát.
  • Ótti við seinkað sáðlát.
  • Áhyggjur að ná ekki fullnægingu eða yfirhöfuð að njóta ekki reynslunnar.

Núvitund í kynlífi skiptir miklu máli. Það þýðir einfaldlega að við fókuserum á eina eða allar þær unaðslegu tilfinningar sem við erum að upplifa hverju sinni; snertingar, hljóð, lykt, bragð o.s.frv.

Með því að einblína svona á mómentið getum við upplifað meiri spennu, ástríðu og vellíðan.

Hvernig er hægt að vinna á frammistöðukvíða?

Til eru ýmsar leiðir til að takast á við frammistöðukvíða. Ef kvíðinn er að valda stinningarvanda geta neðangreind atriði mögulega hjálpað.

  • Hugleiðsla.
  • Talmeðferð til að stjórna streitu, þunglyndi og öðrum áhyggjum lífsins.
  • Fræðsla um kynlíf og kynhegðun.
  • Sambandsráðgjöf.
  • Kynlífsráðgjöf.
  • Breyttur lífsstíll – s.s. að hreyfa sig meira og borða hollari fæðu.
  • Að vera opinn um áhyggjur þínar og kvíða við maka þinn.
  • Að hreinsa höfuðið af neikvæðum hugsunum.
  • Forðast/fjarlægja streituvaldandi þætti úr lífi þínu.
  • Taka sér tíma í rúminu – þetta er ekki kapphlaup.
  • Fókusera á það sem þú getur gert, ekki það sem þú heldur að þú ættir að gera.

… og við höldum áfram:

  • Ekki skilgreina þig út frá fullnægingunni einni og sér. Það þarf nefnilega ekki alltaf að vera lokamarkmiðið. Það er hægt að njóta kynlífs þrátt fyrir að „klára ekki.“
  • Berðu virðingu fyrir þér og auðvitað bólfélaganum.
  • Einblíndu frekar á það sem þú getur stjórnað á hverjum tímapunkti – s.s. hugsanir þínar, fantasíur og tilfinningar.
  • Vertu þakklát/ur fyrir þann unað sem þú nærð að finna fyrir þrátt fyrir að ná ekki að klára. Vertu í mómentinu.

Frammistöðukvíðanum fer versnandi

Leitaðu læknisaðstoðar ef frammistöðukvíðinn versnar eða kemur fyrir oftar. Því fyrr sem þú gerir það því fyrr geturðu tileinkað þér tækni sem vinnur á neikvæðum hugsunum, ótta og kvíða. Með því að kíkja til heimilislæknis geturðu einnig útilokað að ástæðan sé vegna einhverra líkamlegra kvilla.

Heimildir:
WebMD
Medical News Today
healthline
healthline
Psychology Today
National Social Anxiety Center

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar