Hvað er eðlilegt að hafa sofið hjá mörgum?

Við þessari spurningu er ekkert eitt rétt svar. Viðhorf gagnvart fjölda rekkjunauta er afar misjafnt á milli fólks. Það sem einum finnst gríðarlega há tala finnst öðrum ekkert tiltökumál. Sumir hafa enga tölu á því hversu mörgum þeir hafa sofið hjá og öðrum finnst þeir hafa sofið hjá allt of fáum. Sumir eru alveg miður sín yfir fjöldanum en öðrum gæti ekki staðið meira á sama.

Viðhorf til kynlífs

Viðhorf um fjölda rekkjunauta haldast gjarnan í hendur við önnur viðhorf um kynlíf. Nauðsynlegt er að ígrunda vel skoðanir sínar á þessum málum; endurskoða þau reglulega og gera sér grein fyrir tilfinningum sínum, viðmiðum og gildismati. Oft tekur allt þetta snörum breytingum þegar fólk upplifir nýja hluti, þroskast og breytist. Ungu fólki þykir það oft hálfgert kappsmál að fjölga rekkjunautum, en síðan getur fjöldinn valdið hugarangri þegar það verður í alvörunni ástfangið, barnshafandi eða þegar það kemst í einhverja ákveðna stöðu. Því er best að gæta orðspors síns alla tíð, bæði á kynlífssviðinu sem og annarsstaðar í lífinu. Fyrst og fremst skal fólk passa að gera aldrei neitt sem það gæti orðið ósátt við eða séð eftir.

Greinist maður með kynsjúkdóm þarf að hafa samband við alla rekkjunautana og þeir þurfa að fara í skoðun. Það er ágætt að hafa þá staðreynd á bak við eyrað…

Eru stelpur sem sofa hjá mörgum druslur – en strákar sem sofa hjá mörgum hetjur?

Lengi hefur ríkt mikill kynjamunur í þessum efnum í samfélaginu. Það var álitið karlmönnum til framdráttar að hafa táldregið margar konur, en á sama tíma voru konur úthrópaðar sem „druslur“ ef þær sváfu hjá „of mörgum“ mönnum. Ástæður þessara viðhorfa liggja djúpt í menningunni. Samfélagið ætti að vera komið langt frá slíkum hugmyndum nú þar sem jafnrétti kynjanna er haft að leiðarljósi. Lauslátur karlmaður er ekkert minni eða meiri „drusla“ en lauslát kona – né er hann minni eða meiri hetja en hún! Líklegast er að hvorugt þeirra sé nokkur drusla né hetja, enda eru þessi mál einkamál hvers og eins og ekki annarra að dæma um það.

Nokkrir rekkjunautar í takinu?

Þegar maður á í jafn innilegum samskiptum við fólk, eins og kynlíf er, er mikilvægt að koma heiðarlega fram og gera grein fyrir því ef maður á fleiri rekkjunauta á sama tíma og hvernig þeim málum er háttað. Leyndarmál og lygar í þessum efnum geta valdið gríðarlegum sálrænum sársauka, sem enginn á skilið að þurfa að upplifa. Ef báðir aðilar eru sammála um að vera í „opnu sambandi“ eða sofa hjá öðrum er það í góðu lagi. En þá verður fólk líka að vera meðvitað um fyrirkomulagið og haga sér eftir því. Opin sambönd geta t.a.m. falið í sér aukna hættu á kynsjúkdómasmiti og fólk verður að gera það upp við sig hvort það vill taka slíka áhættu.

Fólk hefur sjálft val

Margir færa ákveðin rök fyrir viðmiðum sínum um fjölda rekkjunauta. Sumar konur vilja til að mynda ekki vera með fleiri en einum aðila á hverjum tíðarhring, svo þær lendi áreiðanlega ekki í vafa með faðernið verði þær ófrískar. Sumir vilja svo helst af öllu aðeins eiga einn kynlífsfélaga – helst ævina á enda. Flestir eru þó á þeirri skoðun að best sé að eiga aðeins einn rekkjunaut í einu, enda kemur það í veg fyrir margar meiriháttar flækjur, afbrýðisemi, sársauka, leiðindi og vesen. Fólk verður að gera þetta upp við sig sjálft – velja sinn lífsstíl og þá standa og falla með honum. Mikilvægt er að láta ekki móta skoðanir sínar í öndverða átt við manns eigin sönnu tilfinningar.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar