Varstu að gúggla klám en lentir óvart á þessari síðu? Svekkjandi, því hér finnurðu ekkert rúnkefni. Dokaðu samt við og þá gætir þú fræðst eilítið um klám og kynlíf. Ef þú ert ungur karlmaður er nokkuð öruggt að þú horfir á klám. Ef þú ert ung kona er það ekki eins líklegt, en samt nokkuð líklegt. Af hverju þorum við að fullyrða það og af hverju skiptir það máli? Vegna þess að samkvæmt rannsókn sem var gerð á kynheilbrigði ungs fólks er klámnotkun íslenskra ungmenna umtalsverð, og íslenskir piltar eiga norðurlandametið í klámáhorfi. Auk þess bendir flest til þess að klámnotkun hafi mikil áhrif á kynhegðun.

En hvað er það sem klámið kennir og hvernig er það frábrugðið raunverulegu kynlífi? Kíkjum á nokkrar klámmýtur.

Mýta 1:  Bólfélaginn bíður í næsta bílastæði og næsti iðnaðarmaður sem kemur á heimilið mun ríða þér á staðnum

Í klámheimum er lítið sem kallast mætti tilhugalíf og flest kynmök eiga sér stað eftir að einstaklingar hafa átt kynni í um 5 mínútur (ef það). „Wanna fuck?“ er nóg til að bleyta og æsa. Enginn forleikur, ekkert daður, engin persónuleg tengsl og fólk gerir ekkert annað en að riðlast hvort á öðru. Oft dugar eitthvað jafn einfalt og að pípari komi í heimsókn og segi „Hey, ég þarf að kíkja á pípurnar þínar, beibí“ og – bow-chigga-bow – áður en þú veist af eru fötin flogin af og bæði tvö (eða fimm) eru komin með öskrandi fullnægingu. Þetta er fjarri raunveruleikanum.

Raunveruleikinn er sá að flest kynmök gerast eftir langt gangkvæmt daður þar sem einstaklingar sýna hvort öðru áhuga og dragast hægt að hvort öðru. Þetta getur tekið mislangan tíma, en að jafnaði krefst þetta þess að einstaklingarnir kynnist vel og byggi upp traust. Kynlíf felur í sér gagnkvæma virðingu og náin persónuleg tengsl og forleikur er órjúfanlegur þáttur í kynlífi. Meira að segja einnar nætur gaman eiga sér persónulegri og flóknari aðdraganda en klámsenur.

Mýta 2: Konur eru með risabrjóst og engin líkamshár. Karlar eru með typpi á stærð við handlegg.

Í klámi líta fáir eðlilega út. Það heyrir til undantekninga að kona sjáist með eitt stakt hár á píkunni eða annars staðar á líkamanum. Reyndar á það oft við um karlana líka. Allir skulu vera vaxaðir og rakaðir eins og átta ára börn. Sannleikurinn er sá að fólk er loðið; við erum bara apar. Það er reyndar ekkert að því að raka kynfærahárin ef þú kýst, en það er mikilvægt að þú gerir það á eigin forsendum og bara ef þér finnst það gott og líður vel með það. Láttu ekki þrýsting um rakstur frá klámvæddu samfélaginu buga þig. Líkamshár eru eðlileg, og alls ekki óheillandi.

Brjóst í dónómyndum eru oftar en ekki gígantísk, sílíkonfyllt og fullkomin í laginu. Það sést ekki ein einasta hrukka, felling eða slit, og orðið „appelsínuhúð“ er ekki til. Flestar konur líta ekki út eins og í klámi. Konur hafa misstór brjóst, sem breytast alla ævi, hanga mismikið og eru misjöfn í laginu, en öll eru þau eðlileg og falleg. Konur hafa stórkostlega misjafnt vaxtalag, fellingar, hrukkur, appelsínuhúð og slit, en það er eðlilegt og alls ekki ljótt. Píkur eru líka jafn ólíkar og þær eru margar. Sumar hafa lafandi skapabarma, sumar eru pínulitlar, aðrar stórar, þær eru mismunandi á litinn o.s.fr. Fáar uppfylla klámnormið, enda er fegurðin alls konar. Brengluð líkamsmynd klámheimsins getur haft mjög slæm áhrif á sjálfsmynd stúlkna og brenglað væntingar drengja.

Þetta gildir líka í hina áttina. Í klámi eru karlarnir vöðvastæltir og eru með risastóra, æðabera belli sem eru sverari en upphandleggurinn á höfundi þessarar greinar. Meðaltyppastærð í klámi er miklu meiri en í raunveruleikanum. Typpi eru líka jafn ólík og þau eru mörg, sveigjan er mismikill, og þau eru misjöfn að stærð, lögun, lit, lengd o.s.fr. Ekki búast við því að geta fylgt í fótspor klámleikara. Það er óraunhæft, óþarft og slæmt fyrir sjálfsmyndina.

Líkamar eru alls konar og alls konar er fallegt!

Mýta 3: Það er ekkert mál að hafa tveggja tíma úthald og báðir aðilar fá alltaf fullnægingu

Klámsenur dragast oft í allt að klukkutíma eða lengur. Karlarnir geta verið eins og slaghamrar klukkustundum saman og konurnar haldast blautar og organdi líkt og í stöðugri fullnægingu í gegnum heila klámmynd. Sannleikurinn er sá að það hafa fáir svo mikið úthald. Kynlíf er frábær líkamsrækt, af því að það krefst mikillar orku og fyrirhafnar. Það er jafn þreytandi og það er skemmtilegt. Ekki skammast þín þó þú þreytist og gefist upp eða „klárir“ snemma. Það er eðlilegt. Sýndu líka maka þínum eða bólfélaga þá virðingu að taka tillit til þreytu þeirra.

Klámheimar útiloka þá staðreynd að margar konur geta EINGÖNGU fengið fullnægingu með því að örva snípinn og einungis 25% kvenna segjast geta fengið leggangafullnægingu án þess að erta snípinn. Af einhverjum undraverðum ástæðum virðast allar konur sem leika í klámi falla í þennan litla hóp, og til fjandans með forleik og sleipiefni; því í klámi dugar bara að hamra nógu mikið og fast á píkunni. Sumar konur hafa áhyggjur af því að geta ekki notið kynlífs í leggöng eins og leikarinn á skjánum. Snípurinn var ekki bara settur á konur til skrauts. Hann þarf að örva svo flestar konur njóti kynlífs og eigi séns á fullnægingu. Það má t.d. gera með putta, tungu, víbrador og typpi.

Mýta 4: Humm? Hvað á ég að gera við þetta typpi? Ahh! Ég veit! Upp í rassgatið með það!

Það verður síalgengara í klámmyndum að troða typpinu lauflétt upp í þurran rassinn á konunni. Allar klámstjörnur virðast fíla það í stjörnuna, þurfa engan undirbúning og fá auðvitað brjálæðislega fullnægingu. Ómæ, þvílík nautn!

En sko… endaþarmsmök eru EKKI nærri því jafn algeng og í klámi. Auðvitað eru til margir sem njóta þeirra, og ef þú nýtur þeirra máttu að sjálfsögðu stunda þau eins og þú vilt og þarft ekki að skammast þín fyrir það. Staðreyndin er samt sú að flestar konur fíla ekki rassaríðingar og flestar eru ekki mjög spenntar fyrir því að prufa. Fyrir utan það eru endaþarmsmök mjög vandmeðfarin. Endaþarmurinn er einstefnugata og krefst mikillar nærgætni, trausts og þjálfunar ef endaþarmsmök eiga að vera ánægjuleg. Spyrjið, ræðið og undirbúið fyrst! Þar að auki eru sleipiefni algjörlega nauðsynleg ef út í það er farið. Í klámi virðast rassmök vera skítlétt (hehe), og allir eru til í að fá sér smá í rass fyrirvaralaust og ósmurt. Ekki láta þér detta í hug að það sé raunin.

Mýta 5: Brundur á að fara í andlitið…

… eða á bjóstin, eða í andlitið á vinkonu hennar, eða í kokið, eða bara út um allt. Hefur þú séð karlmann fá það í píkuna á konu í klámi? Það er lygilega sjaldgæft.

Raunveruleikinn er sá að sumar konur fíla brund á líkamann, aðrar ekki. Mörgum finnst það hreinlega ógeðslegt og niðurlægjandi. Þetta er iðja sem þú finnur í fæstum svefnherbergjum. Ímyndaðu þér Rómeó að glassúrhjúpa Júlíu. Það er ekki beint rómantískt, en þú veist… ef þið komist að því að ykkur þykir það báðum spennandi, gerið þá það sem þið eruð bæði sammála um. Brundið að vild.

Mýta 6: Smokkar eru ekki til

Það þarf varla að segja þér að smokkar eru besta getnaðarvörnin og sú eina sem veitir öryggi gegn kynsjúkdómum. Klámstjörnum virðist vera drullusama um það. Smokkar sjást ekki í klámi, því þeir þykja ekki nógu sexý. Þetta býður upp á mikla kynsjúkdómahættu og ótímabærar þunganir. Þess vegna eru í sumum löndum lög um það að klámstjörnur verði að fara í kynsjúkdómatékk í hverjum einasta mánuði og þar að auki eru þær nær allar á pillunni. Þrátt fyrir regluleg tékk eru kynsjúkdómar mjög algengir meðal klámstjarna.

Í stuttu máli eru kynsjúkdómar ömurlegir og ótímabærar barneignir erfiðar, þannig að endilega takið klámið ekki til fyrirmyndar, notið smokk og stundið öruggt kynlíf.

Mýta 7:  Konur eru undirgefnar og má koma fram við eins og húsgögn

Megnið af klámi er framleitt fyrir sama markhópinn: karla. Í klámi er karlinn því oftar en ekki ráðandi, sterkur og stjórnsamur en konan er undirgefin og þjónar öllum kynferðislegum þörfum karlsins. Það sér hver maður að í þessu felst kvenfyrirlitning.

Raunverulegt kynlíf byggir á gagnkvæmri virðingu og samþykki. Ef þú getur ekki litið á rekkjunaut þinn sem jafningja þinn með tilfinningar og vitsmuni, þá ættirðu að hugsa þinn gang. Kynlíf er partý fyrir tvo (já eða fleiri með samþykki allra) og ef annað ykkar nýtur sín ekki eða gerir þetta bara til þess að þóknast hinum aðilanum, þá er það mjög alvarlegt mál. Finnið takt hvort annars, talið saman, komist að því hvað hitt vil, hvað hinu finnst gott og stundið kynlífið í sameiningu.

Sá meðvitaði eða ómeðvitaði hugsunarháttur að konur séu undirlægjur eða kynlífsdúkkur er einn verstu fylgifiska klámvæðingarinnar.

Hvað höfum við lært af þessum lestri?

Kynlíf er gott. Nei, frábært. Flestir horfa eða hafa einhvern tímann horft á klám. Þú ert ekki slæm manneskja eða ógeð þó þú hafir horft á klám. Það er samt mikilvægt að þekkja muninn á því sem raunverulegt er og því sem er innantóm fantasía klámheima, því klám er sannarlega ekki neitt nema óraunhæf fantasía. Það er þó ekki þar með sagt að allar fantasíur séu fjarstæðukenndar. Hver veit nema þú og maki þinn hafi áhuga á að prufa sama hlutinn? Eina leiðin til þess að komast að því og njóta kynlífs til fulls er að ræða saman um kynlíf opinskátt og af virðingu. Ef þú þekkir muninn á klámi og kynlífi (eða bara sleppir klámglápi) muntu njóta kynlífs mun betur.

Og að lokum: Samþykki ofar öllu!

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar