Það er algengt vandamál hjá einstaklingum að fá það of fljótt

Ótímabært sáðlát er algengt vandamál hjá einstaklingum. Oftast er það af sálrænum toga. Spenna, lítið sjálfstraust eða mikil löngun til að standa sig vel í kynlífinu getur spilað þar inn í. Einstaklingar lenda gjarnan í vítahring með að hugsa of mikið um þessi mál, stressast því upp og að fá það of fljótt. Besta ráðið er því að reyna að taka sjálfan sig ekki of alvarlega og hafa gaman af kynlífinu.

Hvað er til ráða?

Ýmislegt má reyna til að láta samfarir endast lengur.

  • Til að mynda getur ástarleikurinn varað lengur með því að nota smokk. Sumum finnst að þeir örvist þá ekki eins mikið og endist þar af leiðandi lengur.
  • Hjá sumum virkar það betur að rekkjunauturinn sé ofan á. Þá er örvun minni fyrir þann sem er fyrir neðan og gæti enst lengur.
  • Önnur hlið á þessu er að leggja meiri áherslu á forleikinn. Með því að gefa sér meiri tíma í að kyssast, strjúka hvort öðru og snertast byggist upp betri og skemmtilegri örvun. Þetta auðveldar fólki oft að fá meira út úr kynlífi.
  • Eins er sniðugt að fara hægt í kynlífið. Of mikill æsingur getur valdið því að einstaklingar endist í styttri stund.
  • Hægt er að gæla meira við rekkjunautinn í forleik. Þannig geta allir orðið sáttir þó að samfarirnar sjálfar standi ekki lengi yfir.

Ákveðnar æfingar geta hjálpað

Til að þjálfa upp þol er hægt að gera ákveðnar æfingar. Til að mynda er hægt að stunda sjálfsfróun en bíða með að fá fullnægingu. Þegar einstaklingurinn fróar sér og er alveg að fá fullnægingu, stoppar hann í smá stund og bíður. Stuttu síðar heldur hann áfram að fróa sér en endurtekur leikinn þegar hann er alveg að fá það aftur. Þetta er endurtekið í þrjú til fjögur skipti áður en einstaklingurinn leyfir sér að fá fullnægingu. Með þessu móti er ef til vill hægt að bæta úthaldið. Eins má gera þetta í samförunum sjálfum: Þegar einstaklingurinn er kominn að því að fá fullnægingu stoppar hann í smá stund og heldur síðan áfram eftir stutta hvíld. Oft reynist betra að rekkjunauturinn ráði ferðinni í þessu og einstaklingurinn lætur rekkjunautinn þá vita þegar hann finnur að hann er að fá fullnægingu.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar