Hvað er átt við með utanaðkomandi þrýstingi, varðandi kynlíf?

Margt ungt fólk upplifir mikinn þrýsting frá umhverfinu varðandi kynlíf og kynhegðun. Þrýstingur getur verið frá bólfélögum um þátttöku í ákveðnum kynlífsathöfnum eða frá vinahópnum í þeim skilningi að maður vill ekki vera öðruvísi eða vera eftirbátur vina sinna. En þrýstingurinn getur líka verið sprottinn úr menningunni og samfélaginu í heild, með ímyndum úr fjölmiðlum og hegðunarmynstri sem birtist í bíómyndum og sjónvarpsþáttum. Fólki líður oft eins og það eigi að gera ákveðna hluti þar sem „allir aðrir séu að gera það“. Það eru síður en svo góðar ástæður fyrir því að gera hlutina.

Enginn ætti að láta þrýsting frá öðrum hafa áhrif á viðhorf sín til kynlífs

Láti fólk aðra stjórna tilfinningum sínum og gjörðum líður fólki yfirleitt illa að lokum. Fólk á ekki að stunda kynlíf fyrr en það er sjálft tilbúið til þess, sama hvaða aðstæður hafa skapast og það á aldrei að gera hluti sem það vill ekki. Nei þýðir alltaf nei og það á ekki að þurfa að rökstyðja það neitt frekar.

Vissulega getur verið erfitt að láta þrýsting ekki hafa áhrif á sig. En þá gilda nokkrar klassískar reglur:

  • að rækta heilbrigða sjálfsmynd,
  • að þekkja sjálfan sig og eigin tilfinningar,
  • að kunna að setja öðru fólki mörk,
  • að standa á skoðun sinni og bíða með ákveðna hluti þar til maður hefur gert það upp við sig hvort maður vill þá eða ekki.

Menningarlegur þrýstingur

Þrýstingur í átt að ákveðinni kynlífshegðun hefur aukist til muna undanfarin ár í takti við aukna klámvæðingu. Áhrifa hennar gætir víða í menningunni annarsstaðar en í kláminu sjálfu til að mynda í kvikmyndum, sjónvarpi, tískutímaritum, dægurlagatextum og tónlistarmyndböndum. Menningin varpar stöðugt fram þeirri hugmynd að lífið gangi nánast allt út á kynlíf. Hún er yfirfull af ímyndum af ungu og fallegu fólki sem virðist drifið áfram af kynferðislegri spennu og vera frekar tilkippilegt í alla staði.

Áhrif kláms á kynhegðun ungs fólks

Sterkasti áhrifavaldurinn er þó klámefni. Kynlíf í raunveruleikanum á yfirleitt ekkert skylt við það kynlíf sem birtist í klámmyndum. Klámnotkun hefur mjög mótandi áhrif á notendur þess; oftar en ekki brenglar það hugmyndir fólks um kynlíf, gerir því erfitt fyrir með að njóta eðlilegs kynlífs og eiga í eðlilegum kynferðislegum samskiptum við annað fólk. Rökin að „þetta sé gert í klámmynd“ eru því aldrei góð og gild. Klámnotkun getur líka verið afar ávanabindandi og leitt fólk inn í vítahring. Margir upplifa mikla skömm eftir klámnotkun þar sem framleiðsla klámefnis er oft náskyld mansali og vændi. Fólk upplifir sig því gjarnan sem þátttakanda í glæpsamlegu athæfi og líður sem það sé að misnota sér bága stöðu þeirra sem koma fram í klámmyndinni.

  • Þeir sem hafa áhyggjur af klámnotkun sinni, t.d. finnst hún of mikil eða finnst þeir vera orðnir háðir henni, geta haft samband við SLAA samtökin á Íslandi og fengið góð ráð frá þeim sem upplifað hafa eitthvað svipað.
  • Hafi fólk upplifað vanlíðan vegna kynferðislegs þrýstings, eða eftir að hafa tekið þátt í kynferðislegum athöfnum, getur fólk leitað til Stígamóta með sín mál, jafnvel þótt hlutirnir hafi verið gerðir með samþykki manns þegar þeir áttu sér stað.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar