Líðan föður á meðgöngu

Miklar líkamlegar breytingar eiga sér stað hjá verðandi móður á meðgöngu en faðirinn verður ekki var við neitt. Því getur þetta allt verið hálf óraunverulegt fyrir honum til að byrja með. En þegar á líður á meðgönguna fer hann að átta sig á þessu, t.a.m. þegar hann heyrir hjartslátt í fyrsta sinn eða sér barnið í sónar. Þessu geta fylgt allskyns tilfinningar. Tilhlökkun og spenna er oft mikil en einnig getur ábyrgðin sem fylgir litlu barni verið yfirþyrmandi. Verðandi feður hafa oft áhyggjur af praktískum hlutum eins og húsnæði, bíl, vinnu og fjárhag. Þeir fyllast oft meiri ábyrgðartilfinningu gagnvart heimilinu, konunni og stækkandi fjölskyldu.  Svefntruflanir gera vart við sig og kannski áhyggjur og stress vegna barnsins sem er væntanlegt. Þetta er auðvitað allt saman eðlilegt og gott getur verið fyrir föðurinn að hugsa með sér að hann sé ekki fyrsti karlmaðurinn sem gengur í gegnum þetta.

Kynlíf á meðgöngu

Kynlíf getur breyst töluvert á meðgöngu. Löngunin getur minnkað eða aukist bæði hjá konum og körlum en það er mjög einstaklingsbundið. Oft minnkar áhugi konunnar fyrstu þrjá mánuðina vegna þreytu, deyfðar, ógleði, uppkasta, hræðslu við fósturlát eða eymsla í brjóstum. Þetta getur breyst með tímanum. Eins getur áhugi föðurins minnkað e.t.v. vegna vitneskjunnar um að barnið sé þarna inni eða vegna breytinga sem verða á líkama konunnar.

Gott er að hafa í huga að . . .

  • ræða þarf vel öll þessi mál og á nærgætinn hátt,
  • engar rannsóknir benda til að þess að kynlíf á meðgöngu geti valdið fósturláti,
  • engar líkamlegar ástæður ættu undir venjulegum kringumstæðum að hamla fólki að stunda kynlíf á meðgöngu.

Að vera til staðar

Eitt helsta hlutverk verðandi föður er að vera til staðar fyrir konuna sína. Konur eru oft óvenju tilfinningasamar á meðgöngu, enda getur stöðug þreyta og ógleði hrjáð þær og hormónastarfssemin breytist þar að auki. Því er mikilvægt að faðirinn sé þolinmóður, hlusti á konuna, reyni að koma til móts við hana og hjálpi henni. Því betur sem foreldrar styðja hvort annað á meðgöngunni því sterkara verður sambandið eftir að barnið er fætt.

Báðir aðilar þurfa að fórna einhverju

Þó svo að lítið barn sé iðulega mikill gleðigjafi fylgja því og meðgöngunni líka ákveðnar fórnir. Til að mynda er mælst til þess að konur hætti að reykja eða drekka áfengi á meðgöngunni. Tilvonandi feður ættu því að velta fyrir sér að gera slíkt sama til að styðja við barnsmóður sína. Meðgangan hefur líka mikil áhrif á líkama konunnar, orku hennar og heilsu og því ætti faðirinn að leggja sig allan fram við að gera þennan tíma sem auðveldastan fyrir konuna. Þetta getur þýtt að sjá alfarið um matseld á meðan konan á við morgunógleði að stríða og sjá um að skúra og ryksuga þegar bakið á konunni er orðið þreytt og aumt. Rétt eins og í uppeldinu sjálfu, er ávallt farsælla að tilvonandi foreldrar séu samstíga þegar kemur að meðgöngunni. Þannig verður tíminn ánægjulegri fyrir alla.

Mikilvægt er að faðirinn . . .

  • taki virkan þátt í heimilisstörfunum til að koma í veg fyrir of mikið álag á líkama konunnar;
  • eldi matinn, sérstaklega fyrstu mánuðina þegar ógleðin hjá konunni er mikil. Hún þarf að nærast vel og matur eldaður af öðrum er oft lystugri en sá sem maður hefur eldað sjálfur;
  • fari með í mæðraskoðun og sónar. Ef eitthvað skyldi koma uppá er mikilvægt að vera til staðar.

Á heimasíðunni Ljósmóðir.is má finna mikið af upplýsingum sem snýr að meðgöngu og fæðingu, fjölskyldu og barni.

Margar fróðlegar bækur hafa verið skrifaðar um meðgönguna og ættu feður kannski að verða sér úti um eintak að góðri bók til að fræðast um það sem búast má við á þessum 9 mánuðum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar