Hvað er sónar?

Ómskoðun, eða sónar, er mikilvægur liður í mæðravernd en getur líka verið skemmtilegur þáttur meðgöngunnar. Fóstrið er skoðað með ómskoðunartæki og athugað hvort allt sé eins og það á að vera. Í ómskoðun er þroski fóstursins skoðaður, athugað hvort öll líffæri myndist með eðlilegum hætti og fylgst með því hvernig fóstrið vex og dafnar. Hægt er að kaupa myndir af fóstrinu og taka með heim. Engin líkamleg óþægindi fylgja ómskoðun.

Hvenær á meðgöngunni er farið í ómskoðun?

Ómskoðanir eru gerðar nokkrum sinnum á meðgöngu. Á 6. – 12. viku er hægt að fara í snemmsónar. Á 11. – 14. viku er oft farið í fyrstu ómskoðun, því á þeim tíma tekur fóstrið út mikinn þroska og breytist ört. Á 19. – 20. viku er svo aftur farið í sónar, sem oft er kallaður 20 vikna sónar. Þá er hægt að komast að kyni barnsins. Einnig er boðið upp á þrívíddarsónar kjósi fólk að fara í slíkt.

Í 6 til 12 vikna sónar er . . .

 • þungun staðfest og kannað hversu langt er gengið á meðgönguna;
 • fóstursekkur skoðaður;
 • leitað eftir fósturhjartslætti;
 • magn legvatns kannað;
 • leitað af vöðvahnútum, blæðingum í legi, blöðrueggjum og blöðrum á eggjastokkum.

Í 11 til 14 vikna sónar er . . .

 • meðgöngulengd metin;
 • leitað að litningagöllum, s.s. með mælingu á hnakkaþykkt, skoðun á nefbeini og blóðtöku;
 • líkamsgerð fósturs könnuð, skimað eftir líffærum og fleira.

Í 19 til 20 vikna sónar er . . .

 • mögulega hægt að komast að kyni;
 • fylgja staðsett;
 • legvatnsmagn metið;
 • reynt að greina fósturgalla séu þeir til staðar;
 • líkamsgerð fósturs könnuð, skannað eftir líffærum og ákveðnum útlitseinkennum.

Hvað kostar að fara í sónar?

Fyrir 12 vikna sónar þarf að greiða 10.484 kr, en ekki þarf að greiða fyrir 20 vikna sónarinn. Hinsvegar þarf að greiða fyrir myndir af fóstrinu kjósi fólk að fá slíkt með sér heim. Hver mynd kostar 350 krónur.

Hvar eru ómskoðanir framkvæmdar?

Ómskoðanir eru framkvæmdar á fósturgreiningardeild kvennasviðs Landspítalans. Inngangur er til hægri við aðalinngang kvenndadeildar. Hægt er að hafa samband í síma 543-3256.

Á heimasíðu fósturgreiningardeildar má finna ítarlegar upplýsingar um ómskoðanir.

 

Mynd í eigu Andrew Malone.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar