Er sambandið eins og það á að vera?

Samfélagið er mjög iðið við að gefa okkur hugmyndir um hvernig sambönd eigi að vera, s.s. í gegnum kvikmyndir, sjónvarpsþætti, blöð og Netmiðla. Þessum skilaboðum ber að taka með ákveðnum fyrirvara. Fólk er mismunandi og hamingjan er ekki eins fyrir alla. Ástarsambönd geta verið af ólíkum toga og átt fullkominn rétt á sér. Sum hjón kjósa til að mynda að búa ekki saman, þar sem fjarbúðin gefur einstaklingnum meira svigrúm og fjarlægðin blæs oftar en ekki lífi í ástarglóðina. Önnur sambönd fólks geta til dæmis byggst á kynlífi og vináttu eingöngu, sem á ensku er oft kallað „friends with benefits“, eða bólfélagar á íslensku. Í slíkum samböndum skilgreinir fólk sig ekki endilega sem par og væntir jafnvel ekki tryggðar af hinum aðilanum. Sum hjón lifa svo jafnvel mjög hefðbundnu fjölskyldulífi, en eiga svo í makaskiptum og opnum kynlífssamböndum við annað fólk utan hjónabandsins. Svona mætti lengja telja.

Hvað er heilbrigt samband?

Í raun er ekki hægt að tala um að eitthvað eitt form sambanda sé heilbrigt og annað óheilbrigt. Hinsvegar eru fáeinar reglur sem ættu undantekningarlaust að gilda í öllum samböndum:

  • Báðir aðilar verða að vera sáttir við eðli sambandsins og fyrirkomulagið.
  • Báðir aðilar verða að bera sömu væntingar til sambandsins.
  • Það er í lagi að gera hluti, svo lengi sem þeir skaða hvorki mann sjálfan né aðra.
  • Vinátta, virðing, heiðarleiki og traust verður að vera til staðar í sambandinu og báðir aðilar verða að geta tjáð tilfinningar sínar opinskátt við hinn.

Stundum gerir fólk hluti sem það telur sig vera fyllilega sátt við, en sér eftir síðar meir. Því er mikilvægt að ígrunda málin vel og vera vakandi fyrir eigin tilfinningum og líðan.

Hvaða hætta fylgir óhefðbundnum samböndum?

Í óhefðbundnum samböndum er stundum hætta á að fólk láti leiða sig út í einhverja hluti sem því líkar ekki. Það getur átt erfitt með að setja hinum aðilanum mörk eða tjá sig um raunverulegar tilfinningar sínar. Þetta gerist oft ef hrifningin er mjög mikil og fólk á erfitt með að standa fyllilega með sjálfu sér. Það kallast meðvirkni og henni ber að bregðast við sem fyrst. Sambönd þar sem meðvirkni fær að þrífast verða alltaf bara verri með tímanum.

Á Áttavitanum má finna grein um meðvirkni.

Hvað á að gera ef sambandið er ekki eins og maður vill að það sé?

Ef eitthvað er að í sambandinu getur parið oftast unnið bug á því í sameiningu, annað hvort undir handleiðslu ráðgjafa eða með sameiginlegu átaki. Sé hinsvegar ekki vilji til að úrbóta hjá hinum aðilanum er ávallt best að enda sambandið, jafnvel þótt ástin sé sterk og aðskilnaðurinn sár. Þegar öllu er á botninn hvolft er alltaf betra að vera einhleypur en í slæmu ástarsambandi.

 

Nánari upplýsingar:

Nánari upplýsingar um sambönd má finna á vef Stígamóta, Sjúkást.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar