Að líða illa í ástarsambandi

Ef fólk upplifir vanlíðan í ástarsambandi er nauðsynlegt að taka eigið tilfinningalíf til rækilegrar skoðunar og reyna að komast að því hvað veldur. Oft á vanlíðanin rætur að rekja til einhvers allt annars en sambandsins sjálfs en samt grípur fólk til þess að kenna sambandinu eða makanum um. Ef til vill er það einfaldlega vegna þess að það er hentugt eða nærtækasta skýringin. Til að vita hvort ástæðuna megi í raun rekja til sambandsins eða makans er gott að spyrja sjálfan sig fáeinna spurninga.

Er ofbeldi í sambandinu?

Ofbeldi getur verið af mörgum toga og oft getur það verið dulið, jafnvel svo að maður geri sér ekki grein fyrir því. Ofbeldi getur verið líkamlegt, andlegt og kynferðislegt. Ef maki manns á það til að hæðast að manni fyrir framan aðra, á í hótunum við mann,  eða neyðir mann til kynferðisathafna sem maður kærir sig ekki um, telst það allt til ofbeldis. Eins gæti margt annað mögulega flokkast undir ofbeldi, s.s. þegar annar aðili niðurlægir hinn, talar illa til hans eða beitir þrýstingi til að fá hinn til að gera eitthvað.  Eins gæti verið nauðsynlegt að skoða hvort maður sjálfur beiti hinn aðilann ofbeldi án þess að gera sér grein fyrir því. Ef það eru hlutir sem parið gerir hvort öðru, eitthvað sem er vont, er nauðsynlegt að ræða málin og vinna í að breyta þeim. Að vera í sambandi á að snúast um að styðja hvort annað og láta sér líða vel saman.

Nánari upplýsingar um heilbrigð og óheilbrigð sambönd má finna á heimasíðu Sjúk Ást.

Er ójafnvægi í sambandinu?

Ójafnvægi getur verið á fjölmörgum sviðum sambandsins og getur það myndað togstreitu á milli fólks. Oft er sagt að andstæður laðist hvor að annarri og að ólíkt fólk bæti hvort annað upp. En mikið ójafnvægi leiðir yfirleitt til sundrungar. Ójafnvægi getur orðið vegna félagslegrar stöðu, ólíkra væntinga og drauma, ólíkra markmiða eða lífshátta. Þegar annar aðilinn gerir miklar lífsstílsbreytingar hjá sjálfum sér, en hinn fylgir ekki á eftir, skapast gjarnan ójafnvægi og fólk upplifir sig ekki lengur á sömu blaðsíðunni. Framtíðardraumar og markmið geta líka þróast í ólíkar áttir, svo fólk á ekki samleið lengur. Oftast má finna hlutunum jafnvægi á nýjan leik, en það getur krafist dálítillar vinnu og samstillingar. Mikilvægt er að ræða hlutina og athuga hvort báðir aðilar séu á leið í sömu átt og hvort þeir eigi sameiginlega drauma og markmið sem hægt er að sameina á einhvern hátt.

Er utanaðkomandi fólk að trufla?

Upp geta komið ólíklegustu hlutir í lífinu sem trufla sambandið. Nýtt fólk getur sett strik í reikninginn, bæði einhver sem maður sjálfur hefur nýlega kynnst eða makinn verður upptekinn af. Þetta getur auðvitað verið rómantísk hrifning, en líka bara félagi eða kunningi sem rænir tíma og athygli. Vinir og fjölskylda geta svo farið að hafa truflandi áhrif, og jafnvel börnin manns eða börn makans frá fyrra sambandi. Eins geta skotið upp kollinum gömul kynni sem hrista upp í lífinu. Það ætti enginn að láta annað fólk eyðileggja fyrir sér ástarsambandið. Því er nauðsynlegt að skilgreina vel hvað þarna er í gangi og vinna bug á því. Stundum er þetta þó ábending um að sambandið sé ekki alveg að gera sig og taka þurfi hlutina til endurskoðunar.

Eru aðrir utanaðkomandi þættir að trufla?

Allir þættir lífsins geta haft truflandi áhrif á sambandið. Það geta verið vinnan, fjármálin, þjóðfélagsástandið, ýmsar breytingar; bæði góðar og slæmar. Nýir erfiðleikar og áskoranir geta tekið athygli og orku frá manni og það reynir oftar en ekki á sambandið. Stundum þarf bara að átta sig á því hvað þetta er og einbeita sér að því að leggja smá rækt við sambandið til að bjarga því. Þetta er hægt að gera með einföldum leiðum eins og að tileinka einu kvöldi vikunnar algjörlega sambandinu: Þá slekkur fólk á símunum og nýtur þess að vera saman án truflana frá utanaðkomandi þáttum. Það getur farið saman út eða verið heima og spjallað. Þetta er oft nauðsynlegt fyrir sambönd, bæði ung og gömul.

Er kominn leiði í sambandið?

Stöðnun og leiði getur allt eins haft slæm áhrif, eins og nýjar aðstæður og áskoranir. Stundum fær fólk bara einfaldlega leiða á makanum og lífinu með honum, þótt því þyki jafnvel ennþá afskaplega vænt um hann. Sumir orða það þannig að sambandið hafi bara „þróast út í vinasamband“. Þá er átt við að spennan og neistinn sé farinn, en kærleikurinn sitji einn eftir. Þetta er gríðarlega algengt og í raun afar eðlileg þróun. Mörgum pörum tekst þó með sameiginlegu átaki að vinna bug á þessu og finna neistann á ný. En það krefst vinnu. Oft dugir smá krydd í kynlífið eða gera reglulega einhverja rómantíska hluti saman.

Er grasið grænna hinum megin?

Margir upplifa það skyndilega að þeir séu á einhvern hátt að „missa af lífinu“. Hlutirnir eru kannski ekki nákvæmlega eins og þeir höfðu séð þá fyrir sér og þeim líður sem þeir þurfi að rjúka til, gera drastískar breytingar, slíta sambandinu og róa á ný mið. Þetta gerist gjarnan um miðjan aldur hjá fólki og er þá kallað „grár fiðringur“. En svona tilfinningar geta þó gert vart við sig á öllum æviskeiðum. Mjög varasamt er að fylgja þessari tilfinningu í blindni. Margir sem það gera enda á verri stað, fátækari og einmana og sakna gamla sambandsins. Áður en sambandið er látið fara út um gluggann af ástæðum sem þessum þarf að vega og meta allt vandlega. Gott er að hafa í huga kosti sambandsins – og af hverju fólk hóf það til að byrja með. Leiði röksemdirnar hinsvegar að því, eftir ítarlega og yfirvegaða skoðun, að maður verði í raun bættari ef maður slítur sambandinu, – þá er að öllum líkindum best að slíta því.

Langar fólki að vera einhleypt?

Getur það verið málið? Allsstaðar í menningunni er þrýst á fólk um að para sig saman og margir leiðast inn í samband án þess að hugsa sig um, því þeim finnst sem þeir eigi að vera í pari með öðrum. Hinsvegar er það ekkert fyrir alla. Sumum líður einfaldlega betur með að vera einhleypir á ákveðnum æviskeiðum og þá eiga þeir fyrir alla muni bara að vera það. Maður á að hlusta á sína innri rödd, en ekki á raddir markaðsaflanna eða annarra mótandi afla innan samfélagsins. Fyrir 100 árum þótti það sjálfsagður hlutur að fólk hefði fundið sinn lífstíðarmaka fyrir tvítugt – en þannig er það alls ekki í dag.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar