Hvað er einelti?
Einelti er endurtekin áreitni gagnvart einstaklingi, hvort sem það er framkvæmt af einhverjum einum aðila eða hópi fólks.
- Eineltið getur verið líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt.
- Einelti getur tekið ýmsar birtingarmyndir, allt frá ofbeldi yfir í það að sniðganga einstaklinginn, hunsa hann eða útskúfa.
- Einelti getur haft gríðarlega alvarlegar afleiðingar í för með sér, jafnvel þótt gerandanum líði sem hann sé ekki að gera neitt alvarlegt. Eitthvað sem var jafnvel meint sem góðlátleg stríðni getur haft gríðarlegar kvalir í för með sér fyrir þann sem fyrir því verður.
Hvar getur fólk orðið fyrir einelti?
Einelti getur þrifist hvar sem er innan samfélagsins, í skólum, á vinnustöðum og jafnvel í kunningjahópum og innan fjölskyldna og ástarsambanda. Einelti getur allt eins átt sér stað á Netinu eins og í beinum samskiptum milli fólks.
Hverjar eru afleiðingar eineltis?
Afleiðingar eineltis eru alltaf slæmar. Í verstu tilfellunum getur einelti leitt til dauða. Þótt gerendur telji sig oft einungis vera með góðlátlega stríðni geta áhrifin verið mjög slæm fyrir þann sem fyrir því verður og sett mark sitt á allt líf hans til frambúðar.
- Einelti getur haft líkamlegar afleiðingar, þar sem það inniheldur oft á tíðum ofbeldi, en andleg og félagsleg áhrif geta verið ekki síður alvarleg.
- Einelti getur valdið miklum sálrænum og félagslegum erfiðleikum og leitt þann sem fyrir því verður út á erfiða braut.
- Margir þeirra sem lenda í neyslu, leiðast út í glæpi eða ofbeldi, eða þróa með sér geðsjúkdóma eiga sögu um að hafa verið fórnarlömb eineltis.
- Í verstu tilfellunum leiðir einelti til alvarlegs þunglyndis og sjálfsvíga. Til eru dæmi þess að börn undir táningsaldri hafi tekið eigið líf eftir að hafa orðið fyrir einelti.
Hvað á að gera ef maður verður fyrir einelti?
- Mikilvægt er að muna að enginn á skilið að verða fyrir einelti, hvorki maður sjálfur né nokkur annar.
- Ábyrgðin liggur alltaf hjá gerandanum, en aldrei undir neinum kringumstæðum hjá þolandanum. Sama á við um allt annað ofbeldi.
- Nauðsynlegt er að ræða málið við einhvern sem maður treystir. Gott er að punkta hjá sér atriði sem varða eineltið í stað þess að reyna að horfa framhjá þeim eða reyna að gleyma þeim.
- Nauðsynlegt er að bera höfuðið hátt, halda ró sinni og vinna í málinu á yfirvegaðan hátt, í samvinnu við einhvern sem maður treystir.
- Ef eineltið á sér stað í skóla getur verið gott að leita til dæmis til kennara, skólastjóra, námsráðgjafa eða foreldra.
- Eigi eineltið sér stað á vinnustað er best að leita til yfirmanns, trúnaðarmanns, starfsmannastjóra eða góðs samstarfsfélaga.
Hvað á að gera ef maður horfir upp á einelti?
Öllum finnst erfitt að horfa upp á ofbeldi og ranglæti og margir bregðast við með því að líta undan. Fólk telur sig oft ekkert geta gert í stöðunni eða veit ekki hvernig það á að bregðast við. Sumir óttast líka að standi þeir með fórnarlambinu verði þeir sjálfir fyrir barðinu á gerandanum. Að horfa upp á einelti án þess að koma viðkomandi til hjálpar er hinsvegar grafalvarlegt mál, því áhorfandinn er oft fórnarlambsins eina von.
- Horfi maður upp á einelti ber manni skylda til að sýna fórnarlambinu stuðning og segja frá því sem er í gangi.
- Hægt er að ræða málið við foreldra, kennara eða annað starfsfólk innan skóla, eða yfirmann eða aðra, ef eineltið á sér stað í vinnunni.
- Þegar einelti á sér stað innan fjölskyldna og vinahópa getur málið oft verið mjög viðkvæmt. Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að ræða málin af stillingu og jafnvel undir leiðsögn fagaðila, til dæmis prests eða sálfræðings.
Illska nær að þrífast þegar gott fólk gerir ekki neitt.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?