Orðið “polyamory” er samsett úr orðunum “poly” sem þýðir “margir” eða “fjöl-” og “amory”, ást. Fjölásta sambönd, fjölsambönd, eru ástarsambönd þar sem fleiri en tveir einstaklingar eru í spilinu. Fjölástir eru ekki það sama og “swing”, en algengasta birtingarmynd þess er þegar pör skiptast á mökum eina kvöldstund fyrir sjóðheitt kynlíf, heldur þegar einstaklingar hafa frelsi til að skapa sín eigin sambönd utan rammans “tveir einstaklingar og ekkert meira.” Undir það falla t.d. lokuð sambönd þriggja aðila, sambönd para þar sem annar eða báðir aðilar eiga einnig aðra maka eða opin sambönd. Fólk sem aðhyllist fjölástir telur ást ekki vera takmarkaða auðlind sem aðeins er hægt að beina að einum aðila. Foreldri sem á fyrir tvö börn, elskar ekki börnin sín minna hlutfallslega þegar það eignast eitt barn í viðbót. Ástin margfaldast.
Fjölsambönd eru alls kyns
Fjölsambönd eru alls konar og hvert samband er ólíkt öðrum. Fjölsambönd geta verið ástarsambönd þriggja eða fleiri aðila þar sem allir aðilar elska hver annan, en þau geta líka verið þannig að einstaklingur er í sambandi við tvo eða fleiri aðila sem tengjast ekki hver öðrum ástarböndum. Grunnskilyrðið er að allir aðilar séu uppýstir um og samþykkir fyrirkomulaginu. Á þessari mynd má sjá nokkrar útgáfur af fjölsamböndum, en útgáfurnar eru náttúrulega mun fleiri.
Athugið að myndin sýnir aðeins tvö kyn til að einfalda uppsetningu en Áttavitinn er að sjálfsögðu meðvitaður um að kynin eru fleiri og að ekki allar konur ganga í rauðum kjólum og karlar í bláum buxum.
Fjölásta sambönd byggjast á trausti
Rétt eins og í hefðbundnum samböndum þá þurfa einstaklingar í fjölsamböndum að leggja mikla vinnu í sambandið eða samböndin til að þau gangi upp. Ræða þarf mörk og tilfinningar í þaula svo afbrýðisemi grasseri ekki. Afbrýðisemi skapar togstreitu í öllum samböndum, bæði fjölsamböndum og algengari samböndum. Aðalatriðið er að vinna úr þeirri togstreitu í sameiningu á jákvæðan hátt. Mörg fjölsambönd setja sér reglur um hvað má og hvað má ekki og hvenær þarf að ræða við aðra aðila. Eins þarf að skipta tíma á milli allra aðila á sanngjarnan máta þannig að engum aðila finnist hann vanræktur af maka sínum eða mökum.
Hvernig reglur eru í fjölsamböndum?
Reglur í fjölsamböndum geta verið af ýmsum toga. Sum sambönd eru algerlega opin og einstaklingar innan þess mega deila tilfinningum og stunda kynlíf með þeim sem þeir vilja, á meðan í öðrum eru reglur um að fjölsambandið ákveði í sameiningu hvort að einn einstaklingur megi fara á stefnumót með eða sofa hjá tilteknum aðila utan sambandsins. Önnur fjölsambönd eru svo lokuð, þannig að kynlíf er aðeins í boði á milli sumra eða allra aðila innan sambandsins en ekki utan þess. Svo geta verið alls konar aðrar reglur eða viðmið sem ekki lúta að kynlífi, eins og reglur varðandi tíma, hegðun fyrir framan börn eða aðra og svo framvegis.
Þurfa allir að elska alla hina í sambandinu?
Nei, eins og fyrr segir geta fjölásta sambönd verið af ýmsum toga. Stundum elska allir í sambandinu hina jafn mikið og allir stunda kynlíf hver með öðrum. Í sumum fjölsamböndum eiga allir þátttakendur í ástarsambandi við eina manneskju innan þess, en ekki endilega með hver öðrum. Þeir líta þá kannski á aðra maka þessarar manneskju sem nána vini, eða eiga bara ekki í neinu sérstöku sambandi við þá.
Hvað finnst samfélaginu um pólýsambönd?
Samfélagið hefur nokkuð staðlaðar hugmyndir þegar kemur að samböndum og fordómar fyrir fjölsamböndum eru talsverðir. Fjölkvæni er ekki leyfilegt á Íslandi, en í 11. grein hjúskaparlaga segir: „Eigi má vígja mann sem er í hjúskap.“ Samfélagið gengur út frá því að fólk sé annað hvort einstætt eða í sambandi við eina manneskju. Umræðan er þó að aukast og fjölsambönd eru að styrkja stöðu sína í umræðunni sem heilbrigð og falleg sambönd ef að allir aðilar eru á sömu síðu og eiga í opnum samskiptum sín á milli.
Heimildir:
Frétt um fjölástir á Stundinni
Sigga Dögg: Opin sambönd
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?