Átt þú vin eða vinkonu sem þig langar að ganga lengra með? Ertu kannski ekki tilbúin(n) í alvarlegt ástarsamband en langar samt að hafa gaman og stunda kynlíf með einhverjum sem þú treystir? Sambönd vina með fríðindi eru að auka vinsældir sínar og sífellt að verða algengari.
Hvað eru vinir með meiru?
Fríðindafélagar eru ákveðin sambandsgerð. Einstaklingar í þess konar sambandi eru þá vinir eða félagar en stunda líka kynlíf saman. Þessi sambandsgerð er því einhversstaðar mitt á milli alvarlegra ástarsambanda og þess að eiga eingöngu í kynlífssambandi við einhvern.
Í svona samböndum er tilfinningaleg nánd ekki jafn mikil og í föstum samböndum en þó meiri en í skyndikynnum. Einstaklingarnir hafa þá annað hvort verið vinir áður en þeir ákváðu að byrja að sofa saman eða bólfélagar sem hafa þróað með sér vináttu. Hvort heldur sem er, þá er það vináttan sem einkennir þessa gerð sambanda. Aðilar sambandsins hittast þá líka stundum með vinahópnum utan þess sem þeir eru í svefnherberginu (nú eða hvar svo sem þeir kjósa að stunda kynlíf), en fara ekki á stefnumót og hegða sér ekki eins og par. Yfirleitt reynir fólk líka að halda sambandinu leyndu frá vinum og fjölskyldu.
Hverjir eru kostir þess að vera vinir með fríðindi?
Fyrir utan spennuna sem svona sambandsgerðir hafa í för með sér (bæði kynferðislega og í kringum feluleikinn frá vinum og fjölskyldu), þá henta þessi sambönd til dæmis fólki sem ekki er tilbúið í þær skuldbindingar sem fast samband krefst en langar samt að stunda reglulegt kynlíf. Mörgum er líka ábyggilega létt við að sleppa við þær vandræðalegu viðreynslur sem einnar nætur gaman krefst, það er að segja svona áður en gamanið hefst. Sambönd fríðindafélaga geta líka verið ágætist grundvöllur til þess að prófa sig áfram í kynlífi með einhverjum sem þú treystir. Hafið bara hugfast að allir aðilar séu til í það sem fara skal fram.
Hvað með gallana?
Þegar tvær manneskjur sem fíla og virða hvor aðra ákveða að vera eitthvað aðeins meira en bara vinir getur það verið stórfínt fyrirkomulag. Hins vegar getur það komið fyrir að önnur manneskjan byrjar að þróa með sér tilfinningar sem ekki endilega eru endurgoldnar og það getur valdið hjartasári; sérstaklega ef manneskjan talar ekki um það. Svona sambönd geta líka stundum orðið einhliða og eigingjörn, þar sem annar aðilinn (eða báðir) vilja koma fram sínum vilja án þess að taka tillit til hins. Þess vegna er mikilvægt að vera vakandi fyrir þeim tilfinningum sem maður hefur og taka eftir ef manni fer að líða óþægilega. Annað sem hafa verður í huga er hvað verður um vinasambandið eftir að kynlífið er hætt að vera spennandi. Verður það vandræðalegt og óþægilegt eða verðið þið ef til vill nánari?
Gott að hafa í huga
Við tókum saman nokkur atriði sem gott er að hafa í huga:
- Finndu þér vin sem þú laðast að líkamlega en myndir jafnframt nenna að hitta reglulega. Stundum getur þetta verið einhver úr vinahópnum, en hafðu hugfast að það gæti orðið óþægilegt (sérstaklega ef þið ætlið að halda því leyndu).
- Er þetta vinátta sem þú vilt halda í til frambúðar eða finnst þér í lagi að fórna henni fyrir kynlífið? Það kemur nefnilega fyrir að vináttan endist ekki eftir að kynlífið hættir að heilla.
- Talið saman og verið opin um það að hverju þið eruð að leita. Hér skiptir mestu máli að vera heiðarleg(ur), ekki segja að þú berir ekki tilfinningar til manneskjunnar ef þú gerir það.
- Hugsanlega þurfið þið að leggja einhverjar reglur til grundvallar . Kannski þurfið þið að ákveða hvenær þið hittist, undir hvaða kringumstæðum og hvað sambandið skuli vara lengi. Komið ykkur saman um hvernig þið viljið haga sambandinu.
- Notið getnaðarvarnir. Jafnvel þó þú sért að stunda kynlíf með sama aðilanum reglulega og þú treystir viðkomandi þá er alltaf mikilvægt að nota verjur. Það væri leiðinlegt að eyðileggja þetta annars ágæta fyrirkomulag með kynsjúkdómum – nú eða óvelkominni þungun.
- Það má alltaf segja nei. Alltaf. Sama hvert fyrirkomulagið er þá hafa einstaklingar alltaf rétt á að ákveða fyrir sjálfan sig hvenær, hvort eða hvernig þeir stunda kynlíf.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?