Hvernig nálgast maður hina manneskjuna?

Hafi maður augastað á manneskju þarf að láta áhugann í ljós, vilji maður að eitthvað gerist. Það þýðir lítið að bíða eftir að hann, hún eða hán geri það. Mikilvægast er að vera sjálfsöruggur, bera sig vel, vera opinn og vingjarnlegur. Að vera sjálfsöruggur þýðir ekki að vera hrokafullur eða góður með sig, því það er jafn fráhrindandi og eðlilegt sjálfsöryggi er aðlaðandi. Allir hrífast af glaðlyndi og húmor, en of mikill trúðsháttur og galsi getur líka verið fráhrindandi. Einnig er hrífandi þegar fólk er opinskátt og getur talað, en það getur verið mjög fráhrindandi þegar fólk talar of mikið og aðrir fá ekki að komast að. Best er að reyna að feta milliveginn; vera maður sjálfur en fara ekki of geyst. Sjálfsöryggi sést vel á líkamsburðinum. Því er best að ganga beinn í baki, horfa ekki niður í jörðina, horfa í augun á fólki og brosa.

Gott er að hafa í huga að…

 • Gott er að ganga beint upp að manneskjunni og spjalla hafi maður mögulega tækifæri til þess.
 • Sumum hefur þó orðið ágengt með því að byrja að fara aðrar leiðir, s.s. í gegnum sameiginlegan kunningja eða notast við samskiptatækni eins og Tinder, Facebook eða SMS.
 • Ekki vera of ágeng(ur)! Gott er að sýna áhuga en óþarfi að vera ýtinn.
 • Flestir verða upp með sér við að fá hrós eða jákvæða athygli. Enginn skaði er skeður með því að sýna áhuga, þótt manneskjan sé ekki reiðubúin í neitt meira.

Fyrsta deitið

Mörgum finnst erfitt að fara á stefnumót. Fólk veit ekki hvaða staður hentar best eða hvernig beri að hegða sér. Hér að neðan má finna nokkur góð ráð þegar kemur að fyrsta deitinu.

 • Best er að hittast á stað þar sem hægt er að spjalla saman. Bíó og leikhús eru illa til þess fallin og mun skynsamlegra er að fara á slíkar sýningar á öðru eða þriðja stefnumóti.
 • Hádegisverður getur verið sniðug hugmynd; þannig verður stefnumótið ekki of langt og tilefnið ekki of formlegt eða þvingað. Eftir mat er þá bæði hægt að fara saman í kaffi sé stemning fyrir slíku – nú eða hverfa á braut ef allt gekk á afturfótunum.
 • Velja skal þægilegan veitingastað eða kaffihús, þar sem ekki eru of mikil læti. Sennilega er þó best að forðast of fína staði þar sem andrúmsloftið gæti verið þvingað.
 • Aðrir skemmtilegir staðir geta vel komið til greina. Hægt er að fara í lautarferð, ísbíltúr, á bar eða kaffihús, eða bara í göngutúr. Þetta þarf að velja vel út frá manneskjunni sem á í hlut. Heimsókn á listasafn eða sýningu gæti verið fullkomið fyrir ákveðnar týpur af fólki, á meðan öðrum gæti fundist það hrein martröð.
 • Þegar maður mætir á stefnumótið er nauðsynlegt að vera hreinn og snyrtilegur til fara. Maður þarf ekkert að vera of fínn eða klæddur í föt sem manni líður illa í.
 • Það er um að gera að vanda framkomuna svolítið, án þess að vera tilgerðarlegur. Það er gott að vera opinn, en það getur virkað fælandi að deila of mörgu strax í upphafi. Gott er að finna umræðuefni þar sem báðir aðilar geta fundið sameiginlegan flöt. Þetta getur verið sameiginlegur vettvangur eða félagsskapur, áhugamál, smekkur eða jafnvel eitthvað í þjóðfélagsumræðunni.
 • Báðir aðilar verða að fá tækifæri til að tala. Varast skal að halda langar einræður og láta gamminn geysa og eins þarf að gæta þess að umræðan snúist ekki upp í yfirheyrslu.
 • Kossar og snertingar eru yfirleitt ekki vel liðnar á fyrsta stefnumóti. Vissulega geta verið undantekningar þar á, en mikilvægt er að lesa vel í aðstæðurnar og betra er að vera of varkár í þessum efnum en að fara of geyst. Það getur líka verið skemmtilegt fyrir báða aðila að byggja upp spennuna og láta sig hlakka til framhaldsins.
 • Sígild kynjahlutverk fortíðarinnar í sambandi við greiðslu á reikningnum eftir deitið finnast sumum úrelt og öðrum heillandi.  Það getur stundum verið pínu vandræðalegt þegar að kemur að reikningnum en ágæt þumalputtaregla er að sá sem býður á deitið borgar brúsann, óháð kyni einstaklingsins, enda ræður sú manneskja staðarvalinu og þar með verðbilinu sem staðurinn er á.  Parið getur líka að sjálfsögðu splittað reikningnum.  Ef að ekki er um kvöld- eða hádegisverð að ræða, heldur kannski bara drykki á bar er ágætt að skiptast á umferðum.

Vandræðalegar þagnir?

Margir eru stressaðir fyrir fyrsta stefnumótið einfaldlega vegna þess að þeir eru hræddir um að samræðurnar gangi illa eða mikið verði um vandræðalegar þagnir. Besta ráðið við því er hreinlega að undirbúa sig. Það er t.a.m. hægt að gera með því að útbúa lista heima fyrir með spurningum og umræðuefnum. Þannig er hægt að spyrja einhverjar spurningar ef það stefnir í hlé á samtölum eða langar þagnir. Þetta getur verið allt á milli himins og jarðar, s.s. um áhugamál, nám, vinnu, vini, framtíð, fortíð og nútíð.

Ef það myndast þagnir, þá þurfa þær ekki endilega að vera vandræðalegar. Þegar maður finnur að gott sé að þegja með einhverjum, þá er það góðs viti.

Næstu skref

Ef fyrsta stefnumótið gengur vel má alveg fara að huga að því næsta. Það er allt í lagi að gefa hinni manneskjunni smá svigrúm til að „melta“ í nokkra daga áður en henni er boðið út aftur. En rétt eins og í öðrum samskiptum er langbest að vera bara hreinskilinn: láta hina manneskjuna vita að áhuginn er enn til staðar.

Fyrir næstu stefnumót er gott að hafa eftirfarandi í huga…

 • Heimboð getur verið góð hugmynd. Það er snjallráð að elda góðan mat, kannski bjóða upp á góða vínflösku, og eiga svo skemmtilegt spjall undir þægilegri tónlist. Þetta hljómar ekki flókið en getur skapað skemmtilegustu minningarnar. Mikilvægt er að leggja vel upp úr því að hafa heimilið snyrtilegt og viðkunnanlegt. – Muna þarf líka að geta boðið upp á óáfengt, ef manneskjan afþakkar áfengið.
 • Þegar boðið er heim gildir áfram sama gullna reglan: Að lesa vel í aðstæðurnar og fara ekki of geyst. Geri fólk það er allt eins líklegt að þetta verði líka síðasta heimsóknin. Best er að halda áfram að daðra og byggja upp spennu og leyfa hlutunum svo að gerast áreynslulaust og af sjálfu sér þegar aðstæður leyfa.
 • Að horfa saman á mynd er skemmtilegra þegar búið er að hittast í nokkur skipti. Það getur verið hálf pínlegt að sitja yfir bíómynd heima í stofu með einhverjum sem maður þekkir lítið sem ekki neitt.
 • Á fyrstu stigum er ekki gott að bjóða manneskjunni upp á að hitta alla félaga manns á einu bretti. Einnig er mikilvægt að sýna félögum hinnar manneskjunnar jafnmikinn áhuga á móti. Sniðugra er að hitta kunningjafólkið á opinberum stað frekar en í heimahúsi, því þá verða aðstæður síður pínlegar og auðveldara er að stinga af saman og fara eitthvert annað.

 

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar