Fólk með heyrnarskerðingu er af öllu tagi.  Sumir heyra alls ekkert, á meðan aðrir heyra með hjálp heyrnartækja eða kuðungsígræðslu.  Sumir einstaklingar með heyrnarskerðingu lesa varir og skilja þig vel, en margir nota einnig táknmál til þess að tjá sig og skilja aðra.

Náðu athyglinni áður en þú byrjar að tala

Áður en þú byrjar að tala skaltu ná athyglinni með því að mynda augnsamband.  Ef með þarf getur þú veifað hóflega eða snert manneskjuna létt til að ná athyglinni.  Eins er hægt að banka í borð eða stappa fæti í gólf því höggbylgjan gerir einstaklingnum kleyft að finna hvaðan er verið að sækjast eftir athygli.  Það er ekki til siðs að pota í fólk, en þú getur bankað létt í öxlina á viðkomandi.

Ekki fara út fyrir sjónsvið hins heyrnarlausa

Það auðveldar manneskjunni að eiga samskipti við þig ef hún sér allar hreyfingar og svipbrigði.

  • Reyndu að vera í augnhæð við manneskjuna; sestu niður ef hún er sitjandi eða stattu upp ef hún er standandi.  Þetta á einnig við um heyrnarlaus börn, best er að fara á hækjur sér þegar maður talar við börn, þannig að maður sé í svipaðri hæð.
  • Vertu aðeins fjær heldur en þú ert vanur að vera þegar þú talar við fólk (1-2 metra).
  • Ef þið eruð innandyra, gakktu þá úr skugga um að nægileg birta sé í herberginu til þess að manneskjan sjái þig vel.  Ef þið eruð utandyra og sólin skín skært, snúðu þá andlitinu á móti sól svo ekki sé skuggi á andlitinu þínu og svo sólin skíni ekki í augun á hinum heyrnarlausa.
  • Ekki líta undan.  Margir heyrandi gleyma sér og líta í aðrar áttir.  Þá er erfitt fyrir hinn heyrnarlausa.

Notaðu venjulega talrödd

Talaðu bara eins og þú talar venjulega, ekki hvísla eða öskra, því það breytir hreyfingum varanna og gerir manneskjunni erfiðara fyrir að lesa varir.  Margt fólk með heyrnarskerðingu getur lesið varir upp að einhverju marki.  Ekki ýkja varahreyfingar þínar.  Ekki hækka róminn nema að manneskjan biðji um það.

  • Ef þú ert með mikið skegg getur verið erfiðara fyrir einstaklinginn að skilja þig.
  • Margir heyrnarskertir einstaklingar skilja þig fullkomlega í hljóðlátu herbergi en eiga mjög erfitt með að skilja þig í hávaða, svo sem á veitingastað eða þar sem bakrgrunnshljóð eða -tónlist eru mikil.
  • Ekki vera með tyggjó eða annað nálægt munni eða í honum.  Eins skaltu varast það að setja hendurnar fyrir munninn.

Gerðu það skýrt hvert umræðuefnið er

Ef að þú hefur máls á einhverju, vertu þá skýr með hvert aðalumræðuefnið er.  Jafnvel bestu varalesarar skilja aðeins 35% af því sem þú segir og þurfa að geta í eyðurnar.  Það er því erfitt að koma inn í mitt samtal.  Stoppaðu reglulega og spyrðu hvort manneskjan sé með á nótunum.

Myndaðu augnsamband

Þú gerir þér sennilega ekki grein fyrir hveru mikið af samtalinu fer fram í gegnum augun og svipbrigði.  Ef þú ert með sólgleraugu, taktu þau af.  Ef þú getur notað svipbrigði til að leggja áherslu á hvað þú ert að segja, notaðu þau þá (bros, ranghvelfa augunum, lyfta augnabrúnum).

Notaðu handahreyfingar

Bentu eða haltu á hlutum sem þú ert að tala um, en bíddu með að tala þar til að manneskjan horfir aftur á andlitið á þér.  Þú getur líka notað látbragð til að túlka orð þín.  Notaðu fingurna til að sýna tölustafi.

Vertu kurteis

Auðvitað gildir almenn kurteisi í samskiptum við heyrnarlaust fólk en hér eru nokkur atriði sem þú ættir líka að huga að:

  • Ef að einhver truflun á sér stað sem hinn heyrnarlausi tekur ekki eftir, svo sem sími sem hringir eða dyrabjalla sem glymur, útskýrðu þá afhverju þú þarft að stíga frá.
  • Ekki hætta snarlega samskiptunum (eins og með því að segja “skiptir engu”) þegar þú fattar að manneskjan er heyrnarlaus.
  • Ekki sýna pirring þegar þú þarft að endurtaka þig.
  • Þið þurfið ekki alltaf að vera sammála um allt, rétt eins og þú ert ekki sammála öðrum fullheyrandi vinum þínum um allt.  Heyrnarlaust fólk er alls konar, rétt eins og allir aðrir.  Sýndu bara almenna kurteisi og virðingu og þá ert þú í góðum málum.

Lærðu táknmál!

Til þess að geta átt í sem bestum samskiptum við heyrnarlaust fólk sem kýs fremur að nota táknmál heldur en að tala, lærðu þá táknmál.  Táknmál eru fullgild mál, rétt eins og tungumál, með sýnum eigin málfræðivenjum og orðaforða.  Táknmál eru mismunandi frá landi til lands, enda lifandi mál sem þróast eins og önnur mál.  Einnig er til alþjóðlegt táknmál og evrópskt táknmál sem notuð eru á alþjóðlegum viðburðum.  Táknmál eru fremur svæðisbundin og fylgja ekki endilega tungumálum.  Ameríska táknmálið er til að mynda mjög ólíkt því breska, þó þjóðirnar noti sama tungumál.

Gott er til dæmis að byrja á fingrastafrófinu, því þá getur þú stafað nafnið þitt og fleira:

Á vefnum Signwiki.is er að finna æfingar til að æfa sig á stafrófinu og myndbönd sem sýna hvern staf fyrir sig.  Prófaðu að æfa þig!  Þar er líka ýmis annar fróðleikur og kennsluefni fyrir áhugasama.

Heimildir:

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar