Hjónabönd eru algengt fjölskylduform um allan heim og brúðkaup og giftingarathafnir fyrirfinnast í flestum menningarheimum þó mikill munur geti verið á forminu. Hér ætlum við að stikla á stóru í ferlinu að hjónabandi. Nánari upplýsingar um réttindi og skyldur er að finna í greininni Trúlofun, gifting og kaupmáli.
1. Að finna rétta makann
Það mikilvægasta við brúðkaup er að makinn sé réttur. Blómamynstrið á brúðartertunni skiptir engu ef að manneskjan sem stendur þér við hlið er ekki sú sem þú vilt eyða ævinni með. Mörg hjónabönd endast ekki út ævina og auðvitað getur skilnaður verið af hinu góða og verið upphaf nýs kafla fyrir báða einstaklinga. Það ætla sér þó allir að hefja hjónaband sem endist út ævina. Grundvöllur góð hjónabands byggist á samskiptum og að parið hlusti á hvort annað og er því mikilvægt að hafa þetta í huga við upphaf hjónabands. Hér eru spurningar sem parið getur rætt, en listinn er auðvitað ekki tæmandi:
- Hvað þýðir hjónaband fyrir okkur? Leggjum við sama skilning í orðið? Af hverju viljum við giftast?
- Ætlum við að eignast börn? Erum við sammála um hvernig uppeldi þeirra á að vera háttað, m.t.t. trúmála, menntunar og uppeldisaðferða?
- Hvernig ætlum við að haga fjármálum? Í hjónabandi eru báðir einstaklingar með framfærsluskyldu og eignir eru sameiginlegar nema um kaupmála sé að ræða. Ætla báðir aðilar að leggja jafnmikið til, eða eru hagir svo mismunandi að þið ætlið að skipta með ykkur fjárframlögum öðruvísi?
- Hvernig eru samskipti við fjölskyldu og vini? Eiga báðir aðilar gott samband við tengdaforeldra sína og virða þá? Virða báðir aðilar vini hins aðilans?
- Getum við rætt allt sem viðkemur lífi okkar, atvinnu, kynlíf, hugmyndafræði, uppeldisaðferðir, skoðanir og hugmyndir, þannig að báðum einstaklingum finnist að á hann sé hlustað og mark á honum tekið?
- Hvað eru aðilarnir ekki til í að gefa eftir eða fórna fyrir hjónabandið?
- Hvar viljum við búa? Erum við sammála um staðsetningu og eru báðir aðilar sveigjanlegir í búsetu, ef að annar aðilinn fær t.d. atvinnutækifæri í annarri borg eða landi?
- Höfum við fulla trú á að þetta hjónaband muni ganga vel og standast áskoranir?
2. Trúlofun
Trúlofun hefur enga lagalega stöðu, en mörg pör kjósa að trúlofa sig áður en þau gifta sig. Trúlofunin getur verið með margs konar hætti; Stundum biður annar einstaklingurinn hinn um að gifta sig, stundum fylgir hringur sem táknræn tenging á milli einstaklinganna og stundum er þetta sameiginleg ákvörðun beggja aðila. Fyrr á tíðum var sá háttur hafður á að gifting fór fram um ári á eftir trúlofun. Nú til dags hefur parið þetta bara eins og það vill. Einnig var það yfirleitt þannig að karlkyns aðilinn í sambandinu (ef það var á annað borð karlkyns aðili í sambandinu) bað konunnar. Nú til dags er þetta einnig mun frjálslegra og margar konur biðja karla.
3. Pappírsvinna
Hjúskaparstöðuvottorð
Bæði hjónaefni þurfa að sækja um hjúskaparstöðuvottorð hjá Þjóðskrá. Það er ekkert mál, en getur tekið tíma. Vottorðið er einfaldlega staðfesting á að hjónaefnið sé ekki gift núþegar. Afgreiðslutíminn er fjórir virkir dagar. Vottorðið má ekki vera eldra en 8 vikna. Hægt er að fá það sent í pósti eða sækja það í Þjóðskrá þegar það er tilbúið. Fyrir vottorðið er tekið hóflegt gjald.
Fæðingarvottorð
Báðir einstaklingar þurfa að framvísa fæðingarvottorði. Vottorðið má vera gamalt, en einnig er hægt að sækja um nýtt þegar maður sækir um hjúskaparstöðuvottorðið. Fyrir vottorðið er tekið hóflegt gjald.
Könnunarvottorð
Prestur, athafnastjóri eða embættismaður getur skrifað undir könnunarvottorð á tilkynningu um hjónavígslu. Ef að annar aðilinn er erlendur ríkisborgari verður sýslumaður að skrifa undir. Könnunarvottorðið segir til um hvort aðilinn sé þegar giftur eða ekki. Það er að finna á blaðinu “Tilkynning um hjónavígslu”.
Gögn varðandi fyrra hjónaband
Ef fyrra hjónabandi lauk með skilnaði þarf að framvísa lögskilnaðarleyfi. Lögskilnaðarleyfi sem gefin voru út fyrir 1. júlí 1992 má nálgast í dómsmála – og mannréttindaráðuneytinu. Lögskilnaðarleyfi sem gefin voru út eftir 1. júlí 1992 fást hjá viðkomandi sýslumannsembætti. Ef hjónaefni er ekkill/ekkja þarf að leggja fram gögn er sýna að skiptum dánarbús sé lokið frá viðkomandi sýslumannsembætti.
Tilkynning um hjónavígslu
Prestur, athafnastjóri eða embættismaður skrifa undir tilkynningu um hjónavígslu, sem inniheldur könnunarvottorð og svaramannavottorð. Tveir svaramenn skrifa undir svaramannavottorðið og sem fyrr segir er athafnastjóri, prestur eða sýslumaður búinn að skrifa undir könnunarvottorðið fyrir hjónavígsluna. Hjónaefnin skrifa svo undir eftir athöfnina. Allir aðilar þurfa að hafa náð 18 ára aldri.
Hjónavígsluvottorð
Hjónavígsluvottorð er staðfesting á að hjónavígsla hafi farið fram með lögmætum hætti. Eftir að tilkynning um hjónavígslu hefur verið fullunnin og send til Þjóðskrár er hægt að fá útgefið hjúskaparvottorð, ef með þarf, t.d. til framvísunar erlendis.
Pappírsvinna fyrir erlenda ríkisborgara
Séu annar aðilinn eða báðir erlendir ríkisborgarar þurfa þeir að koma með hjúskaparstöðuvottorð, sem á ensku heitir Certificate of marital status eða Certificate of no impediments, gilt vegabréf, fæðingarvottorð, vera í það minnsta 18 ára og vera í landinu löglega (vera með gilda vegabréfsáritun ef að einstaklingurinn er af þjóðerni sem ekki getur ferðast til landsins án vegabréfsáritunar). Pappírsvinnan er aðeins flóknari fyrir fólk af erlendum uppruna, en best er að leita aðstoðar og ráðgjafar hjá presti, athafnastjóra, sýslumanni eða ferðaskrifstofu sem skipuleggur brúðkaup fyrir útlendinga, t.d. Pink Iceland.
4. Undirbúningur athafnar
Að mörgu þarf að hyggja þegar brúðkaup og brúðkaupsveisla eru skipulögð. Hér ætlum við bara rétt að fara í grunnatriðin.
Vill parið hafa margmenna athöfn og stóra veislu eða bara standa eitt og sér úti við foss ásamt prestinum/athafnarstjóranum? Er þetta sumarbrúðkaup eða vetrarbrúðkaup eða bara alveg sama? Þetta allt getur parið ákveðið í sameiningu, því að engar fastar reglur eru um brúðkaup önnur en sú að prestur/athafnastjóri/fulltrúi sýslumanns þarf að vera viðstaddur. Þá getur einnig verið gott að hafa tékklista við höndina í undirbúningnum.
Hver stýrir athöfninni?
Á Íslandi geta fulltrúar frá trú- eða lífskoðunarfélögum gefið hjón saman ef þeir hafa til þess hjónavígsluréttindi. Einnig getur fulltrúi frá sýslumanni gefið hjón saman.
Prestar
Prestar hjá Þjóðkirkjunni eða öðrum skráðum kristnum trúfélögum gefa hjón saman oft í kirkjum en líka utandyra eða á öðrum stöðum ef samkomulag um það næst. Hjá Þjóðkirkjunni geta allir fengið þjónustu prest, óháð trúfélagi hjónaefnanna, en hjá sumum öðrum kristnum trúfélögum verður í það minnsta annar aðilinn að vera skráður í trúfélagið. Hægt er að skoða lista yfir kirkjur á kirkjukortinu. Einnig þarf að velja prest, en það er ekki skilyrði að presturinn sé safnaðarprestur í kirkjunni sem valin er.
Trúarleiðtogi frá öðrum trúfélögum en kristnum
Öllum trúfélögum er skylt og heimilt að annast athafnir, líkt og hjónavígslur og útfarir. Til eru mörg trúfélög í Íslandi og kannski erfitt að gera þeim öllum skil, en mörg þeirra bjóða upp á hjónavígsluathafnir. Áttavitinn gat fengið upplýsingar um eftirfarandi trúfélög, en tekur fagnandi ábendingum um hjónavígsluathafnir annarra trúfélaga:
- Ásatrúarfélagið býður upp á alls kyns afhafnir, þar á meðal hjónavígsluathöfn.
Ef þú hefur áhuga á að láta annað trúfélag sjá um athöfnina er best að hafa samband beint við trúfélagið. Hér er listi yfir trúfélög.
Athafnir án trúarlegrar skírskotunar
Til eru tvenns konar hjónavígsluathafnir sem ekki innihalda trúarlega skírskotun. Sýslumenn bjóða upp á borgaralega athöfn til hjónavígslu. Lífsskoðunarfélagið Siðmennt býður upp á hjónavígslu án trúarlegra atriða, sem er jafnframt lögformleg vígsla til hjónabands.
Hvar fer athöfnin fram?
Brúðkaup geta farið fram hvar sem er, ef samkomulag næst um það á milli hjónaefna og pests/athafnarstjóra. Mörg brúðkaup fara fram í kirkju en mörg fara fram í náttúrunni. Þegar staður er valinn er gott að hafa í huga hversu margir gestir verða, á að standa eða sitja og hvernig umhverfi viljið þið, t.d. með tilliti til ljósmynda.
Allar hinar ákvarðanirnar!
Það þarf að taka margar ákvarðanir fyrir brúðkaupið: Í hvaða fötum hjónin verða, hvaða tónlistaratriði verða, ef einhver, ætlar einhver að segja eitthvað, annar en athafnarstjórinn og ætla hjónin að vera með eigin heit eða játa ást sína? Það er um að gera að byrja að plana tímanlega. Á vefsíðunni brúðkaup.is er að finna urmul af upplýsingum er varða skipulagningu og framkvæmd brúðkaups.
Heimildir:
- Onmogul
- Pink Iceland
- Brúðkaup.is
- Ljósmynd: Kristín María. Birt með leyfi Pink Iceland.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?