Hvað er traust?

Traust í sambandi byggist á því að maki þinn uppfylli eftirfarandi:

  • Sé áreiðanlegur – Að hann geri það sem hann segist ætla að gera.
  • Sé tryggur – Þú veist að hann stendur með þér.
  • Sé sjálfum sér samkvæmur – Það eru ekki miklar sveiflur í því hvernig hann kemur fram við þig, nema af góðri ástæðu.
  • Sé þér trúr – Augljósasta staðhæfingin hér.  Þú treystir makanum til þess að vera ekki að skiptast á líkamsvessum við aðra (eða hvernig sem þið kjósið að skilgreina framhjáhald).

Traust er ekki bara einn hlutur, heldur óteljandi hlutir á borð við viðbrögð, framkomu og staðfestu. Það er mjög mikilvægt að ástarsambönd byggist á trausti.

Hvernig byggir maður upp traust í sambandi?

Þumalputtareglan er einfaldlega að gera það sem maður segist ætla að gera. Yfirleitt er traust til staðar frá byrjun sambands og það helst (og eykst) svo lengi sem hvorugur aðili gerir neitt til að skemma það.

Grundvöllur trausts er heiðarleiki og opin samskipti. Parið verður að eiga í opnum samskiptum og hlusta á hvort annað. Það er líka mikilvægt að taka tillit til maka síns og reyna að sjá hlutina frá sjónarhorni hins aðilans.

Hvað ef ég treysti ekki makanum mínum?

Ef þú treystir ekki makanum þínum, algerlega að ástæðulausu þarft þú að skoða vandlega hvað veldur því. Hafa fyrrverandi makar verið þér ótrúir, þannig að þú átt erfitt með að treysta? Gerðist eitthvað í barnæsku sem gerir það að verkum að þú átt erfitt með að treysta fólki, jafnvel þó að það sé þér náið?

Ef að þú treystir ekki maka þínum, þó ekkert bendi til annars en að hann sé traustsins verður þarft þú að vinna í sjálfum þér. Hægt er að leita hjálpar hjá sérfræðingum, svo sem sálfræðingum. Þú verður að græða sárið, því annars berðu það með þér alla tíð og það getur eyðilagt fyrir þér sambönd. Ef að maki þinn er traustsins verður en þú treystir honum samt ekki, liggur vandinn hjá þér og þú þarft að takast á við hann.

Maki minn treystir mér ekki og það er óþolandi!

Það getur verið ömurlegt þegar makinn er í sífelldu vantrausti vegna fortíðar sinnar. Mundu þá að þetta er vandamál maka þíns, ekki þitt.  Hins vegar er tilvalið að þið hjálpist að við að vinna í þessum vanda, svo lengi sem þið eruð bæði/báðir/báðar tilbúin til að leggja ykkar af mörkum. Ræðið saman um hvaðan vandinn við að treysta kemur og hvernig það sýnir sig í ykkar sambandi. Bara með því að hlusta á hvort annað og reyna að skilja hvaðan tilfinningarnar koma getur það aukið öryggistilfinningu beggja aðila.

Þið getið til dæmis byrjað samtalið á “Hvað þýðir orðið “traust” í þínum huga?” og séð hvað þið eruð sammála um og hvað þið eruð ósammála um.

En stjórnsemin er alveg að fara með mig!

Ef að skortur á trausti veldur því að maki þinn er með óheilbrigðar kröfur, – til dæmis með því að heimta að fá að skoða símann þinn, leyfir þér ekki að eiga vini af gagnstæðu kyni og vill fá að vita hvar þú ert hverju sinni, er það ofbeldi og þú þarft að skoða vel hvort að þetta samband eigi sér framtíð (sér í lagi ef að makinn neitar að sína upplifun þinni skilning og leita sér hjálpar).

Vertu heiðarlegur og treystu innsæinu. Ef að tilætlunarsemin skyggir á alla kosti sambandsins, vertu þá hreinskilinn við sjálfan þig: Á sambandið framtíð?

Hvernig byggir maður upp traust eftir framhjáhald?

Ef þér finnst virkilega að sambandið sé nógu mikils virði að því þurfi að bjarga, þá þýðir uppbygging traustsins að skoða þurfi punktana vel sem eru efst í greininni. Sá sem brýtur af sér þarf að vera áreiðanlegur, tryggur, sjálfum sér samkvæmur og trúr alla daga og allar nætur. Endurmetið stöðuna í hverri viku. Þið getið líka hugleitt að fara í sambandsráðgjöf, þar sem sérfræðingur hjálpar ykkur að takast á við tilfinningar ykkar.

Það er erfitt að endurskapa traust eftir framhjáhald, en það er samt hægt. Það tekur tíma og orku og þú þarft að vera viss um að það sé þess virði.

Ég hélt framhjá og maki minn hættir ekki að minnast á það

Það er alveg eðlilegt að maki þinn hafi margar spurningar. Reynið að setja mörk þannig að þetta taki ekki yfir allt sambandið. Þið getið til dæmis haft 30 mínútur á dag þar sem makinn má spyrja og þú munt svara. Þetta gerið þið á hverjum degi þar til ekki er þörf fyrir það lengur. Og svaraðu spurningunum hreinskilnislega! Það er skiljanlegt að þú viljir ekki særa maka þinn, en lygin getur undið upp á sig og ef að svörin stangast á brotnar traustið enn meira.

Heimildir:

Þýtt og staðfært af TheMix

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar