Hvað er sjálfsfróun?
Sjálfsfróun er eðlilegur þáttur af kynhegðun fólks. Hún er kynferðisleg athöfn og flokkast því sem kynlíf. Hún felst í því að einstaklingur örvar sjálfan sig kynferðislega, oftast með snertingu við kynfærin, og leitar leiða til að fullnægja sér. Sjálfsfróun erhægt að stunda einn en hún er einnig eðlilegur hluti af samförum og öðru kynlífi milli tveggja einstaklinga.
Er eðlilegt að fróa sér?
Já. Sjálfsfróun er eðlilegur hlutur og stuðlar að kynheilbrigði. Með aukinni sjálfsþekkingu lærir fólk fyrr hvað það vill, hvað því líkar og hvað því líkar ekki. Sjálfsfróun getur leitt til betra kynlífs með maka, því ef fólk þekkir eigin líkama vel getur það betur leiðbeint kynlífsfélaga sínum og notið betra kynlífs.
Sjálfsfróun getur jafnvel verið gagnleg af fleiri ástæðum…
Við fullnægingu losnar um ýmis efni í heilanum sem valda vellíðan. Þau geta til dæmis linað ýmsa verki, á borð við túrverki og hausverk, svo eitthvað sé nefnt. Oft má notast við sjálfsfróun í stað þess að taka inn verkjalyf og er það í raun mun heilbrigðari og náttúrulegri aðferð.
Er sjálfsfróun hættuleg?
Nei, sjálfsfróun er alls ekki hættuleg. Neikvæð viðhorf gagnvart sjálfsfróun hafa þó lengi verið ríkjandi, sérstaklega innan kirkjunnar. Það fylgdi því skömm að stunda sjálfsfróun og það var jafnvel talið geta leitt fólk til ævilangrar geðveiki. Gömul viðhorf eru lífsseig og hafa jafnvel áhrif á það hvernig fólki líður í dag. Þess vegna er það vel þekkt að fólk upplifi skömm og viðbjóðstilfinningu gagnvart sjálfsfróun. Nýjustu kenningar um kynheilbrigði fjalla þó almennt á mjög jákvæðan hátt um sjálfsfróun og leggja áherslu á kosti hennar.
- Á Vísindavefnum má finna ýmsan fróðleik um sjálfsfróun.
- Hér geturðu lesið um mýtur um sjálfsfróun.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?