Hvað er trúlofun?

Trúlofun er yfirlýsing pars um að það hafi ákveðið að ganga í hjónaband. Í gamla daga fól trúlofunin oft í sér það viðmið að brúðkaup yrði innan árs, en nú til dags er fólk oft og tíðum trúlofað í mun lengri tíma áður en það giftir sig. Sumir láta svo aldrei af giftingunni verða og halda sig einungis við trúlofunina. Nú til dags trúlofar parið sig yfirleitt bara sjálft, með því að setja upp trúlofunarhringa, en í gamla daga fóru oft fram sérstakar trúlofunarathafnir í kirkjum.

Hvað er hjónaband?

Hjónaband er sáttmáli; siðferðislegur, trúarlegur og lagalegur, sem gerður er milli tveggja einstaklinga um samvistir og sameiginlega ábyrgð, t.d. varðandi fjármál, uppeldi barna og annað sem tilheyrir einkalífinu. Yfirleitt er haldin ákveðin athöfn þegar fólk gengur í hjónaband og nefnist hún gifting.  Í vestrænum samfélögum er hjónabandið yfirleitt aðeins löglegt á milli tveggja einstaklinga. Annarsstaðar í heiminum þekkist það þó að karlmenn gangi í hjúskap með fleiri en einni konu og nefnist það fjölkvæni. Á öðrum stöðum er konum heimilt að ganga í hjónaband með fleiri en einum karlmanni og nefnist það fjölveri. Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt á Vesturlöndum að leyfa hjónaband samkynhneigðra. Á Íslandi voru hjónabönd samkynhneigðra lögleidd árið 2010, þegar Alþingi samþykkti að ein hjúskaparlög skyldu gilda um alla.

Lestu um ferlið við að gifta sig hér á Áttavitanum.

Hvað er kaupmáli?

Kaupmáli er samningur sem hjón geta gert sín á milli, annað hvort þegar þau ganga í hjónaband eða síðar. Tilgangur samningsins er að einstaklingarnir tryggi sér lagalega ákveðna séreign, muni eða fjármuni, sem tilheyra þá ekki þeirra sameiginlega búi og kemur ekki til skipta við skilnað. Meginreglan er að við lögskilnað skiptist bú og allar eignir, sem orðið hafa til við hjónabandið og búskapinn, jafnt á milli fólksins, en með kaupmála er hægt að kveða á um annað varðandi ákveðnar eignir.

Hvernig gerir fólk kaupmála?

Kaupmálinn þarf að vera skriflegur og honum þarf að skila inn til sýslumanns. Eintak af honum þarf að liggja inni hjá sýslumanni í því umdæmi þar sem hann er undirritaður. Innanríkisráðuneytið heldur allsherjarskrá um alla kaupmála á landinu. Ráðlegt er að gera kaupmála með aðstoð lögmanna.

Hver eru réttindi og skyldur hjóna?

  • Réttarstaða gifts fólks er sú sama hvort sem brúðkaupið er kirkjulegt eða borgaralegt.
  • Fólk sem er gift hefur framfærsluskyldu gagnvart hvoru öðru og hefur gagnkvæman erfðarétt.
  • Öðrum einstaklingnum í hjónabandinu er óheimilt að ráðstafa íbúðarhúsnæði, eða húsnæði sem hjónin nota til atvinnustarfsemi, nema með samþykki hins aðilans.
  • Gift fólk ber ekki ábyrgð á skuldum maka síns, nema að skriflegt samþykki liggi fyrir. Undantekningar frá þessu eru skattaskuldir, skuldir vegna heimilishalds, þarfa barna eða húsaleigu.
  • Við skilnað gildir sú meginregla að eignum sé skipt jafnt á milli parsins, að frádregnum skuldum.
  • Gift fólk getur gert kaupmála þar sem kveðið er á um að ákveðin verðmæti séu séreign annars aðilans og komi ekki til skipta við skilnað.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar