Hvað á að gera ef maður á í vinasambandi sem maður vill ekki vera í?
Sambönd við fólk geta verið misgóð, og rétt eins og með ástarsambönd geta sambönd við vini og kunningja verið slæm fyrir mann og valdið manni vanlíðan. Við slíkar kringumstæður er réttast að slíta samskiptunum, rétt eins og ef um vont ástarsamband væri að ræða.
Hvernig slítur maður sambandi við erfiðan vin eða kunningja?
Áður en tekin er ákvörðun um að slíta sambandi við vin eða kunningja er gott að vera búinn að ræða málin á yfirvegaðan hátt og láta í ljós það sem manni mislíkar. Stundum er gott að gefa viðkomandi færi á að bæta sig, áður en tekin er ákvörðun um að slíta sambandinu. Stundum áttar fólk sig ekki á því að það hafi komið illa fram, eða það býr eitthvað annað að baki. Ákveðnir erfiðleikar geta hrjáð viðkomandi og valdið neikvæðri hegðun, en það afsakar ekki að hann komi illa fram við aðra. Stundum er fólk þó viljugt til að bæta sig þegar það gerir sér grein fyrir hvernig málin standa. Ef vinurinn er tilbúinn til að vinna í sínum málum er kannski þess virði að gefa honum tækifæri. Þegar slíkt tekst vel upp getur vináttan jafnvel orðið enn ríkari fyrir vikið.
Svikin loforð
Ef engin breyting verður hinsvegar á hegðun viðkomandi er hægt að beita því til rökstuðnings um að maður treysti sér ekki til að eiga í samskiptum við hann meir. Þá er nauðsynlegt að gera honum það ljóst og standa við það. Maður ber ekki ábyrgð á vinum sínum og þeirra vandamálum. Ef viðkomandi ákveður síðar að vinna í sínum málum mun hann örugglega eiga betri daga og eiga í gæfuríkum samskiptum við annað fólk. Þá kannski eru líka komnar forsendur til að taka upp þráðinn að nýju, en fram að því verður hann að finna sína eigin leið sjálfur.
Það þurfa ekki að vera erfiðleikar í samskiptum til að maður vilji slíta sambandi við fólk.
Stundum á fólk einfaldlega ekki samleið. Þá er nauðsynlegt að virða það. Enginn getur neytt annan til samskipta. Heilbrigð samskipti, hvort sem það eru ástar- eða vinasambönd, eiga að byggja á gagnkvæmum áhuga, virðingu og trausti. Sé það ekki til staðar er til ógrynni af fólki þarna úti, sem á samleið með manni og býður upp á gefandi og skemmtileg samskipti.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?