Hvað er best að gera ef maður verður hrifinn af vini sínum?

Það er gott að eiga góða vini, en auðvitað getur komið fyrir að tilfinningarnar þróist út í að verða eitthvað sterkara og meira en vinátta. Hinsvegar má vinna sig út úr þessum tilfinningum án þess að missa vináttuna og hætta að tala við viðkomandi. Hér að neðan má finna nokkur gagnleg ráð.

Ræða tilfinningarnar við viðkomandi

Ef þær eru ekki gagnkvæmar getur það verið pínulítið pínlegt, en það er samt betra en að burðast með þetta í einrúmi. Ef vináttan er sterk er hægt að vinna sig út úr ástandinu í sameiningu. –En ef tilfinningarnar eru gagnkvæmar gæti vináttan þróast út í eitthvað annað og meira, út frá traustum vináttugrunni. Mikilvægt er aftur á móti að búa sig undir þann möguleika að svo sé ekki og taka því þá ekki illa.

Ekki bíða og vona

Ekki bíða og vona að dag einn muni tilfinningarnar kvikna hinum megin og ástin verði gagnkvæm. Ef tilfinningarnar eru ekki þegar til staðar, þá mun það að öllum líkindum ekki breytast.

Ekki forðast viðkomandi – heldur dreifa huganum

Gott er þó að víkka aðeins sjóndeildarhringinn og kannski hitta annað fólk um sinn, á meðan tilfinningarnar eru að róast. Sniðugt getur verið að dreifa huganum með öðrum hætti: sinna áhugamálum, öðrum vinum og fjölskyldu. Hreyfa sig, lesa góðar bækur, horfa á gamanmyndir eða hugsa um eitthvað annað og gera eitthvað skemmtilegt.

Ekki velta sér upp úr tilfinningum og hugsunum

Ekki er gott velta sér upp úr tilfinningunum og hugsununum um þann sem maður er skotinn í. Best er að reyna að forðast dagdrauma og fantasíur, þá jafnar maður sig fyrr. Eins getur verið gott að forgangsraða. Hvaða hluti í lífinu er mikilvægara að hugsa um?

Þolinmæði og raunsæi

Best er að forðast reiði og vondar tilfinningar. Best er að vera á varðbergi gagnvart þeim og taka markvisst á þeim þegar þær koma upp á heilbrigðan hátt. Eins er gott að vera raunsær. Sannfæra sig um að það séu fleiri fiskar í sjónum. Þótt maður eigi ekki framtíð með þessum tiltekna einstaklingi, þá kemur að því að maður fellur fyrir einhverjum nýjum. Sama þótt sú tilhugsun virðist alveg ómöguleg nú.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar