Meðvirkni er ekki bara eitthvað sem aðstandendur alkóhólista þurfa að kljást við. Meðvirkni er til dæmis algeng í vinasamböndum og oftar en ekki gerir fólk sér alls ekki grein fyrir því að það sé meðvirkt með vinum sínum. Ef maður á að geta verið góður vinur er nauðsynlegt að geta fyrst og fremst staðið með sjálfum sér. Þeir sem eiga erfitt með að setja öðru fólki mörk í samskiptum eru viðkvæmari fyrir því að annað fólk notfæri sér það á einn eða annan hátt og fari að ganga á lagið. Slík hegðun er ekki sönn vinátta.
Þegar öndunargrímurnar falla niður í flugvélunum skal fyrst setja grímuna á sig, en síðan á barnið. Þannig má einnig horfa á málin hvað vináttuna snertir. Á Áttavitanum má lesa meira um meðvirkni og hvernig bregðast má við henni.

Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga:

  • Maður á að halda sínu striki, standa með sjálfum sér og finna leiðir til að efla sjálfstraustið.
  • Hafi maður gert einhver plön á maður að halda sig við þau, þótt félagarnir reyni að telja manni hughvarf og fá mann til að gera eitthvað annað.
  • Þótt vinir manns leiðist út á ranga braut þarf maður ekki að elta þá þangað í blindni og gera sömu mistökin.
  • Þótt vinum manns líði illa er nauðsynlegt að geta sýnt þeim stuðning og verið til staðar fyrir þá. Það þýðir hinsvegar ekki að maður eigi að sökkva sér í vanlíðan með þeim.
  • Maður á að segja sína skoðun, jafnvel þótt aðrir séu ekki sammála.
  • Maður þarf að hafa kjark til að segja þaulsetnum gestum að fara, ef maður vill fá að vera í friði heima hjá sér.
  • Maður ætti ekki að lána fólki peninga eða hluti fyrr en það hefur sannað að það sé traustsins vert.
  • Þegar maður lánar eitthvað ætti maður að skrifa niður hvað var lánað hverjum og hvenær það var gert. Sama hvort um er að ræða hluti eða peninga. Síðan fylgja því eftir að fá það til baka það sem maður lánaði.
  • Aldrei ætti að lána vinum eða félögum háar peningaupphæðir í einu.
  • Maður á að vera staðfastur í að innheimta skuldir hjá vinum og hluti sem maður hefur lánað þeim.
  • Ekki skal lána vinum pening eða hluti ef eldri skuld hefur ekki verið gerð upp, eða hlut sem fenginn var að lána hefur ekki verið skilað til baka.
  • Maður á að segja fólki frá því ef eitthvað í framkomu þess veldur manni særindum eða vanlíðan.
  • Ef samskipti við einhvern félaga valda endurtekið vanlíðan ætti maður hiklaust að slíta samskiptunum. Á Áttavitanum má finna ráðleggingar um það hvernig maður slítur erfiðum vinasamböndum.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar