Hvað er Vinfús?

Vinfús er hópastarf fyrir ungmenni á aldrinum 16-25 ára í Hinu Húsinu. Starfið er hugsað fyrir alla einstaklinga sem vilja kynnast nýju fólki og einnig þá sem hafa einangrast í skóla eða í öðrum félagslegum aðstæðum. Starfið gengur út á að skapa heilbrigðan grundvöll fyrir afþreyingu og skemmtanir.

Af hverju að taka þátt í Vinfús?

Margir sérfræðingar telja að félagsleg einangrun stafi af einhvers konar skorti á þjálfun í félagslegum samskiptum og því er einlífið oft vítahringur sem getur reynst mörgum erfitt að komast út úr. Þessum vítahring fylgir oft annars konar vandkvæði, s.s. þunglyndi og streita. Markmið Vinfúsar eru því að reyna að hjálpa einstaklingum að komast út úr þessum vítahring með því að skemmta sér saman og byggja upp innri vináttutengsl hvert við annað. Hópastarfið er því fyrst og fremst á léttum og jákvæðum nótum en slíkt starf hefur gefið jákvæða reynslu bæði hér heima og víðar.

Hvenær hittist Vinfús?

Hópurinn hittist vikulega í Hinu Húsinu og starfsemin fer bæði fram innan- og utanhúss. Dagskráin er skipulögð af starfsmönnum Vinfúsar í samstarfi við þátttakendur. Hópstjórar  hafa bæði mikla reynslu og þekkingu á því að starfa með ungu fólki.

Markmið Vinfúsar eru að:

  1. þjálfa upp félagsfærni og hæfni í mannlegum samskiptum með því að styrkja jákvæða hegðun og draga úr neikvæðri hegðun. Ýta undir sterkari sjálfsmynd og efla jákvæða sýn á lífið með leikjum og hrósi;
  2. stuðla að innri tengslum einstaklinga innan hópsins sem vonandi gefa af sér vináttubönd til framtíðar. Jafnframt að gefa ungmennum tækifæri og grundvöll til að umgangast hvort annað á jákvæðum nótum;
  3. veita ungmennum krydd í lífið og tilveruna, eitthvað til að hlakka til í hverri viku.

Hægt er að nálgast umsóknareyðublað fyrir Vinfús hér

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar