Að útvega sér tjald
- Að kaupa tjald: Það er ekki sérlega dýrt að kaupa sér tjald í Rúmfatalagernum, en ódýrustu tveggja manna tjöldin kosta rétt yfir þrjú þúsund krónur. Þau duga svo sem alveg fyrir helgarferð í góðu veðri, en ef að von er á regni og vindi er einna víst að allt fari á flot. Ef að ferðin á að vara lengur eða ef þið eruð fleiri er líka ráðlegt að kaupa stærra og betra tjald, því að meiri farangur kallar á meira pláss. Síðan er líka sniðugt að samnýta hluti eins og tjöld. Þá kostar það mögulega 0 krónur.
- Að leigja tjald: Þú getur leigt tjald í sumum útivistarbúðum, til dæmis Iceland Camping Equipment og Fjallakofanum. Það getur kostað meira en að kaupa ódýrasta tjaldið, en leigutjöldin eru miklu betri tjöld.
Tjaldsvæði
Heimilt er að tjalda til einnar nætur á óræktuðu landi. Landeigendur þurfa að gefa til kynna undantekningar á þeirri reglu með merkingum. Af tillitssemi við landið og eigendur þess ættu menn þó að nýta sér merkt tjaldsvæði verði því við komið og ekki tjalda nærri bæjum án leyfis. Hópum ber undantekningarlaust að ráðfæra sig við rétthafa lands ef þeir hyggjast slá upp tjaldbúð utan merktra tjaldsvæða.
Á Tjalda.is er frábær listi yfir öll tjaldsvæði á landinu. Þar er líka yfirlitskort.
Svo er hægt að leigja tjaldvagna og fellihýsi en það er dýrt. Ef þú hefur áhuga á svoleiðis lúxus, gúglaðu þá bara “tjaldvagnaleigu”.
Útbúnaðarlisti
- Tjald, dýnur eða vindsængur, svefnpoki og koddi.
- Teppi. Helst köflótt, því það er topp í útilegutískunni.
- Útilegudiskar, glös og hnífapör. Helst margnota, en úr plasti sem brotnar illa.
- Eldhúsáhöld, skurðarbretti, góða hnífa. Það er glatað að skera grillgrænmetið með plasthnífum.
- Allt til kaffiuppáhellingar. Auðveldast er að vera með pressukönnu.
- Dósa- og flöskuopnara.
- Prímus og pottasett og/eða grill og grillkol. Grilltangir.
- Salt og pipar eða annað krydd.
- Eldspýtur og grillvökvi.
- Sjúkrakassi með plástri, sótthreinsandi efnum, augnskoli, flísatöng og fleiru.
- Plastkassi til þess að geyma þurrmat í. Hann er líka góður sem borð.
- Kælibox fyrir mat sem þarf að haldast kaldur.
- Lítinn kúst og fægiskóflu til að sópa tjaldið.
- Ruslapoka og klósettpappír.
- Uppþvottalögur, uppþvottabursti og viskastykki.
- Útihúsgögn, tjaldstóla og tjaldborð.
- Gítar, úkúlele eða annað þægilegt hljóðfæri til fjöldasöngs. Söngtexta.
- Leikjadót, svo sem kubb, fótbolta eða frisbí.
- Myndavél og hleðslutæki.
- Vasaljós ef það verður dimmt á kvöldin.
- Þvottasnúra og klemmur til að þurrka blaut föt og handklæði.
- Snyrtidót, blautþurrkur, þvottapoki, tannbursti, tannkrem.
- Sundföt og handklæði.
- Föt til skiptanna.
- Ullarnærföt.
- Buxur, sem helst eru ekki úr gallaefni (sem dregur í sig kulda).
- Ullarpeysa.
- Regnstakkur.
- Ullarsokkar.
- Nærföt.
Nokkur tips frá Áttavitanum:
- Ekki sofa í fullt af fötum, því þá klæðirðu af þér hitann. Vertu bara nakin(n) og í mesta lagi með húfu.
- Frystu ávaxtasafa og settu í kæliboxið. Þá kæla fernurnar boxið og ávaxtasafinn helst ferskur og kaldur á heitum sumardegi.
- Eltu veðrið! Þó þú sért búin(n) að plana að fara í Húsafell í mánuð, þá er ekki úr vegi að tékka á veðrinu daginn áður og skipta kannski bara um skoðun!
- Snakk er vandræðalega gott tundur (uppkveikiefni fyrir eld), þannig að ef þér gengur brösuglega að kveikja varðeldinn, kveiktu þá bara í smá snakki við hliðina á litlum þurrum spýtum.
- Tjaldaðu ofarlega ef að halli er á tjaldsvæðinu. Þá verður tjaldið þitt þurrt ef að það rignir á meðan aðrir eru í mýri.
- Gakktu vel um svæðið, týndu allt rusl upp og reyndu að afmá öll ummerki um að þú hafir verið þarna. Þú og félagarnir getið myndað ruslalínu og farið í keppni um hver finnur mest rusl.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?