Hvað þarf að hafa í huga áður en ferðast er erlendis? Þetta er listi yfir það sem starfsmenn Áttavitans telja vera miklivægt að huga sérstaklega að áður en haldið er af stað í ferðalag erlendis. Auðvitað þarf að haga seglum eftir vindi, og meta aðstæður í hvert sinn sem farið er til útlanda, en hér eru helstu atriði sem þarf almennt að hafa í huga.

Þessi grein skiptist í eftirfarandi þætti:

 1. Vegabréfið alltaf meðferðis! 
 2. Landgönguleyfi, Vegabréfsáritanir – Vertu tímanlega! 
 3. Bólusetningar – Því lifrarbólga er slæmur ferðafélagi
 4. Ökuskírteini – Hver veit nema þú þurfir eða viljir keyra?  
 5. Peningar – Vertu með “backup” plan
 6. Farmiðar – Ekki viltu vera strandaglópur?
 7. Ferðatryggingar – Því farangur týnist og slys gerast 
 8. Lög, reglur og siðir í landinu sem á að heimsækja
 9. Ferðaviðvaranir – “Here be dragons!”
 10. Ertu að ferðast með barn? 
 11. Hvar er næsta Ísland? – Upplýsingar um næsta íslenska sendiráð eða ræðisskrifstofu
 12. Neyðarnúmer borgaraþjónustunnar – Svona ef allt fer í “fokk” 

1. Vegabréfið alltaf meðferðis!

Vegabréf er það allra mikilvægasta, því án þess er nánast ekki hægt að komast úr landi. Ferðast má beint til og frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð án þess að hafa í höndum vegabréf eða annað ferðaskilríki. Þú verður þó alltaf að sanna að þú sért þú. Því mælum við með því að þú takir einfaldlega með þér vegabréf.
Ísland er aðili að Schengen-samkomulaginu en kjarni þess er m.a. að tryggja frjálsa för einstaklinga um innri landamæri samstarfsríkjanna. Það þýðir að tæknilega má ferðast án vegabréfs um mestalla Evrópu en gerð er krafa um að hafa meðferðis gild persónuskilríki svo þú getir sannað hver og hvaðan þú ert, hvenær sem er. Íslenskt vegabréf er það eina sem er vottað sem slíkt og því ekki um raunverulegan vegabréfslausan munað að ræða fyrir íslendinga.
 • Flest lönd eru ekki í Schengen, og til þeirra þarf alltaf að taka með sér vegabréfið. Við ítrekum: Alltaf taka með sér vegabréfið og passa upp á það, hvort sem ferðast er innan eða utan Schengen.

Pro-tip: ljósritaðu vegabréfið þitt til að hafa afrit af því ef það týnist.

2. Landgönguleyfi, Vegabréfsáritanir – Vertu tímanlega!

Almennt séð er þess krafist í ferðalögum að þú þurfir vegabréfsáritun eða “visa” sem er einskonar landgönguleyfi. Án þess færðu ekki að komast inn í landið. Því er rétt að kynna sér tímanlega hvort þess sé þörf. Íslendingar þurfa ekki áritun til að ferðast um aðildarríki Schengen en þurfa áritun í flestum öðrum löndum.
Afgreiðsla áritana getur tekið einhvern tíma og því er mikilvægt að hefja undirbúning að umsókn tímanlega. Einnig er rétt að hafa í huga að yfirleitt þarf að greiða fyrir áritun. Þegar vegabréfsáritunnar er krafist þarf oftast að sækja um hana í sendiráðum eða ræðisskrifstofum viðkomandi ríkja. Ef ríkið hefur hvorki sendiráð né ræðisskrifstofu á Íslandi getur þurft að senda vegabréfið eða ljósrit þess til sendiráðs viðkomandi ríkis erlendis. Í sumum löndum er hægt að kaupa vegabréfsáritun við komu á landamærin eða á flugvöllinn. Athugið fyrirfram hvort það er möguleiki. Frekari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu borgaraþjónustunnar.
 • Það er alfarið á þinni ábyrgð að tryggja að þú hafir heimild til inngöngu í það land sem þú hyggst ferðast til. Það þýðir lítið að treysta á stjórnvöld um að redda þér.

Pro-tip: stundum færðu ekki áritun nema þú getir sýnt að einhver heimamaður hafi sérstaklega boðið þér til landsins. Þá koma pennavinir og útlenskir facebook-vinir sér vel.

3. Bólusetningar – Því lifrarbólga er slæmur ferðafélagi

Þegar ferðast er til fjarlægra landa þarf oft að huga að bólusetningum. Í sumum löndum eru landlægir sjúkdómar sem finnast ekki á Íslandi og íslensk börn eru því ekki bólusett gegn. Best er að byrja á því að fullvissa sig um það að hafa fengið allar barnabólusetningarnar. Það má gera hjá heimilislækninum þínum eða á island.is. Síðan þarf að komast að því hvaða bólusetningar eru skynsamlegar fyrir áfangastaðinn. Loks þarf að panta tíma í bólusetningu á næstu heilsugæslustöð með nægum fyrirvara. Passaðu þig að huga snemma að bólusetningu, því oft þarf að líða langur tími milli bólusetningar og ferðalags! Dæmi um bólusetningar sem er algengt að ferðalangar þurfi er lifrarbólga A og B, taugaveiki, japönsk heilabólga og endurnýjun á stífkrampa.

Pro-tip: heilsugæslan þín getur gefið út bólusetningakort. Það getur verið gott að hafa það meðferðis ef þú þarft að fara á spítala eða heilsugæslu erlendis.

4. Ökuskírteini – Hver veit nema þú þurfir eða viljir keyra?

Íslenska ökuskírteinið er tekið gilt á flestum stöðum. Þó er mikilvægt að kanna það fyrir brottför því í sumum löndum gildir það ekki, og ógilt ökuskírteini er einskis virði.
 • Við mælum með því að þú notir “alþjóðlega ökuskírteinið” erlendis, en það gildir í eitt ár frá útgáfudegi. Sjá nánari upplýsingar á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda, sem hefur heimild til að gefa út slík skírteini hérlendis.

Pro-tip: Það er vinsælt að leigja vespur í útlöndum. Íslenska ökuskírteinið (B-flokkur, sem flestir eru með) veitir heimild til að keyra 50 kúbika vélhjól. Það er ekki víst að vespuleigur erlendis samþykki það. Alþjóðlega ökuskírteinið hjálpar til þess.

5. Peningar – Vertu með “backup” plan

Það kostar að lifa og það gerir það einnig í útlöndum. Því er mikilvægt að að hafa með þér  nægilega fjármuni (reiðufé, ferðatékka og/eða kredit- eða debetkort) svo unnt sé að greiða fyrir allan ferðakostnað auk annars kostnaðar sem kann að leiða af ófyrirséðum atvikum, t.a.m. lækniskostnaði, útgáfu neyðarvegabréfa og þess háttar. Geymdu verðmæti ekki öll á einum stað, heldur dreifðu þeim um farangurinn og fatnað þinn, hafðu t.d. eitt kort í veskinu og annað í bakpokanum. Þá er öruggara að þú eigir einhvern pening ef annað týnist eða er stolið.
Einnig er rétt að huga að gildistíma kredit- eða debetkorta og hafa PIN-númer á hreinu.
 • Hafðu “backup plan” til að bregðast við ef þú verður rændur og/eða týnir veski.

Pro-tip:  Keyptu gjalderi fyrir ferðina. Það er ekki alltaf hægt að treysta á kort, og því er nauðsynlegt að vera alltaf með einhvern pening í seðlum. 

6. Farmiðar – Ekki viltu vera strandaglópur?

Kannski týnast eða glatast farmiðar, maður veit aldrei. Því er gott að skilja afrit af farmiða hjá einhverjum nákomnum á Íslandi. Ef miði var bókaður rafrænt er ágætt að hafa upplýsingar um bókunarnúmer á sama stað.
 • Einnig er gott að bóka farmiða tímanlega. Oft er uppselt í lestir eða flug. Í flestum tilfellum er það líka ódýrara að panta snemma.

Pro-tip: Skrifaðu hjá þér bókunarnúmerið, því stundum dugar það til þess að innrita sig í flug.

7. Ferðatryggingar – Því farangur týnist og slys gerast

Of margir fara af landinu án trygginga fyrir því tjóni sem orðið getur í útlöndum. Ekki vera sá einstaklingur. Almennar tryggingar tryggja þig yfirleitt ekki fyrir tjóni sem þú getur lent í þegar þú ert ekki á landinu. Því skaltu ekki halda af landi brott án viðunandi ferðatrygginga.
Æskilegt er að ferðatrygging taki til alls hugsanlegs tjóns sem mögulega getur komið upp erlendis, s.s. lækniskostnaðar, sjúkraflutnings heim, heimferðar vegna alvarlegra veikinda eða dauðsfalls í nánustu fjölskyldu, bætur vegna þjófnaðar og líkamsárásar, svo eitthvað sé nefnt.
Ef ætlunin er að taka þátt í áhættusömum athöfnum erlendis á borð við teygjustökk, fljótasiglingar og öðru þess háttar er ráðlagt að kanna sérstaklega hvort ferðatrygging taki til hugsanlegs tjóns af völdum þeirra.
Tvö sjúkratryggingakort eru gagnleg á ferðalögum:
 • Evrópska sjúkratrygginakortið gildir fyrir flestan sjúkrakostnað þegar ferðast er í Evrópu. Það kostar ekkert og hægt er að sækja um það á síðu Sjúkratrygginga Íslands. Þú getur meira að segja náð í app sem virkar eins og kortið!
 • SOS International sjúkratryggingakortið gildir um nær allan heim fyrir öllum helsta sjúkrakostnaði. SOS-kortið fylgir mörgum heimilistryggingum, og ef þú eða foreldrar þínir eru með slíka tryggingu skaltu spyrja um SOS-kortið. SOS-kortið fylgir einnig með mörgum kreditkortum, þannig að ef þú ert að sækja um kreditkort, spurðu þá hvort SOS-kortið fylgi með.

Pro-tip: Kannaðu ferðatryggingar á Kreditkortum.

8. Lög, reglur og siðir í landinu sem á að heimsækja

Kynntu þér lög, reglur og siði landsins sem þú ert að ferðast til. Það sem er löglegt og eðlilegt í einu landi getur verið ólöglegt og grafalvarlegt í öðru landi. Það þarf alltaf að fylgja lögum þess lands sem maður er í. Að brjóta lög í útlöndum getur haft mun flóknari og alvarlegri afleiðingar en heima á Íslandi.
 • Almenna reglan er sú að temja sér auðmýkt og virðingu fyrir menningu annarra þjóða. Það er ekki bara kurteist og skemmtilegt, heldur hreinlega nauðsynlegt.

Pro- tip: Áttavitinn mælir með síðunni Wikitravel. Þar er oft að finna gagnlegar upplýsingar um siði, venjur, kurteisi, vegabréfsáritanir og mikilvægustu lög í hverju landi.

9. Ferðaviðvaranir – “Here be dragons!”

Stundum gefa ríki út viðvaranir um að ferðast ekki til ákveðinna landa. Það getur til dæmis verið að í landinu geysi stríð eða náttúruhamfarir. Það er skynsamlegt að hlýða þeim viðvörunum. Utanríkisráðuneytið getur sagt þér meira um það.

Pro-tip: skoða ferðaviðvaranir á vef Utanríkisráðuneytisins áður en haldið er í för til annars ríkis.

10. Ertu að ferðast með barn?

Það geta fylgt vandkvæði því að ferðast með barn, þegar eingöngu annar forráðamaðurinn er með í för. Stundum krefjast erlend landamærayfirvöld þess að aðili sanni að honum sé heimilt að ferðast með barnið. Sé það ekki gert getur viðkomandi átt á hættu að vera ekki hleypt inn í landið.
Til þess að tryggja þig fyrir þessum harmleik þarf að gera eftirfarandi:
 • Þú færð skriflega heimild þar sem annar forsjáraðili heimilar hinum að ferðast með barn til eins eða fleiri landa á tilteknu tímabili. (Rétt er að heimildin sé á erlendu tungumáli svo landamærayfirvöld skilji efnislegt innihald hennar.)
 • Sá forsjáraðilli sem veitir heimildina fer með hana til sýslumanns og undirritar þar (þá stimplar sýslumaður skjalið, svo kölluð notarial vottun)
 • Svo er ferð haldið í utanríkisráðuneytið þar sem heimild er staðfest  af utanríkisráðuneytinu. Með þessu er leitast við að tryggja að íslenskt skjal verði tekið gilt af erlendu stjórnvaldi.
Framangreint á einnig við þegar aðrir en forsjáraðilar ferðast með barn. Í þeim tilvikum þarf að liggja fyrir umboð beggja forsjáraðila þar sem veitt er heimild til ferðalaga með barnið sem um ræðir.

Pro-tip: Ferðastu með alþjóðlega vottun um að þú megir ferðast með barnið.

11. Hvar er næsta Ísland? – Upplýsingar um næsta íslenska sendiráð eða ræðisskrifstofu

Verið meðvituð um hvar næsta íslenska sendiráð eða ræðisskrifstofu er að finna og hvernig má ná sambandi við það með skjótum hætti. Sendiráð gegna ýmsum hlutverkum, en eitt þeirra er að aðstoða Íslendinga sem eru á ferðalögum erlendis. Í sendiráðum má leita skjóls í neyð, fá framlengingu á vegabréfi, fá útgefin neyðarvegabréf, fá aðstoð við heimför, leita ráða vegna slysa og andláta erlendis o.fl.
Á vef utanríkisráðuneytis má sjá kort og upplýsingar um allar sendiskrifstofur íslands. Mælt er með því að símanúmer þeirra séu skráð sérstaklega.
 • Í þeim tilvikum sem hvorki íslenskt sendiráð né ræðisskrifstofa er í tilteknu landi getur Norrænt sendiráð veitt íslenskum ríkisborgurum ákveðna neyðaraðstoð. Nánari upplýsingar um það fást hjá borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins í síma 545-9900.

Pro-tip: Hafðu skráð símanúmer íslensk sendiráðs þess lands sem þú ferðast til.  

12. Neyðarnúmer borgaraþjónustunnar – Svona ef allt fer í “fokk”

(+354) 545 9900

Ef upp kemur alvarlegt neyðartilvik í útlöndum má hringja í neyðarsíma utanríkisráðuneytisins, öðru nafni borgaraþjónustuna. Neyðarþjónustan hjálpar þér ef þú ert erlendis og:
 • þú verður fyrir slysi eða alvarlegum veikindum og þarfnast læknisaðstoðar.
 • andlát ber að höndum.
 • þú glatar vegabréfinu þínu.
 • þú ert handtekin(n) eða fangelsaður(uð).
 • þú ert á svæði þar sem hættuástand ríkir (hryðjuverk, stríð, náttúruhamfarir o.fl).
 • þú ert í alvarlegum vandræðum og þarfnast opinberrar aðstoðar og leiðsagnar.
Allir ættu að hafa neyðarnúmer borgaraþjónustunnar við höndina á ferðalögum! Maður veit aldrei hvenær óhöppin bera að garði.

Pro-tip: Vistaðu númerið (+354) 545 9900 í símann þinn strax í dag.

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar