Það eru til margar leiðir til þess að komast frá A til B. Þú getur flogið, keyrt, tekið rútu eða lest, notað samferða.is, hjólað, gengið og húkkað. Leiðirnar eru misdýrar og hafa sína kosti og galla. Puttaferðalög eru góð leið til þess að kynnast fólki, ódýr og ævintýraleg, en aftur á móti eru þau mjög óáreiðanleg leið til þess að komast á milli staða; þú getur illa séð fyrir hversu langan tíma það tekur að komast á milli staða, þarft oft að leggja lykkjur á leið þína og gætir þurft að standa út í vegkannti í hellidembu. Hér eru nokkur ráð til að hjálpa þér að húkka hvort heldur á Íslandi eða í útlöndum.
Öryggi á puttaferðalögum
Það er algengt að fólk sé hrætt við að húkka, kannski aðallega af því að ófáar hryllingsmyndir hafa skartað húkksenum þar sem einhver endar með hausinn í poka. Raunveruleikinn er þó ekki í takt við þetta og flestar manneskjur vilja þér frekar gott en illt. Það þarf þó að gæta fyllsta öryggis eins og annarsstaðar í lífinu.
Staðsetning
Aldrei húkka á hraðbraut. Þar getur enginn stoppað og ef einhver ákveður að reyna það getur það skapað mikla hættu fyrir önnur ökutæki. Húkkaðu frekar við vegasjoppur eða á gatnamótum þar sem miklar hraðatakmarkanir eru. Það er í lagi að húkka á sveitavegum (sem að hringvegur 1 á Íslandi flokkast nú sennilega undir) en reyndu að vera í námunda við gatnamót því að þar keyrir fólk hægar og vertu vel til hliðar á vegaröxlinni.
Ekki húkka eftir sólarlag
Reyndu að komast hjá því að húkka eftir sólarlag, eða reyndu í það minnsta að vera komin(n) með far fyrir myrkur, þó þú keyrir svo áfram inn í nóttina. Reyndu að komast hjá því að sofa í bílnum nema þú sért með vin sem vakir á meðan. Margir bílstjórar taka upp puttaferðalanga á kvöldin til þess að halda sjálfum sér vakandi, svo það er talsverð ábyrgð á þér að reyna að halda uppi samræðum. Gerðu þitt besta til þess. Ef að ökumaðurinn virðist þreyttur getur þú boðist til að keyra fyrir hann ef þú ert með bílpróf.
Klæðnaður
Vertu í skærlitum fötum og með endurskinsmerki. Jafnvel þótt þú hafir ekki ætlað þér að húkka í myrkri getur ýmislegt gerst og allur er varinn góður. Skærlit föt sjást betur í dagsbirtu og það er aðalatriði að ökumenn sjái þig með góðum fyrirvara, bæði til að auka líkurnar á að þeir stoppi og til þess að ganga úr skugga um að þeir hafi tíma til að sveigja frá þér ef þeir ætla sér ekki að stoppa.
Vertu meðvitaður um ökumanninn
Áður en þú sest inn í bílinn skaltu virða fyrir þér ástand ökutækisins og ökumannsins. Alls ekki setjast inn í bílinn ef þú hefur grun um að ökumaður sé undir áhrifum áfengis (þvoglumæltur, myndar ekki augnsamband). Komdu því á hreint hvert viðkomandi er að fara og hvert þú ert að fara og hvar leiðir skiljast. Fylgdu innsæinu. Ef þú hefur á tilfinningunni að eitthvað sé að, slepptu því þá að setjast upp í bílinn.
Veldu þér ökumann: Það er best ef þú getur fundið bílstjóra á bensínstöðvum með því að spjalla við þá. Þá færðu betri tilfinningu fyrir því hvernig manneskja þetta er, þó útlit og viðmót geti náttúrulega ekki tryggt öryggi. Þá hafa líka mögulega fleiri séð þig tala við manneskjuna ef eitthvað kemur upp á.
Hafðu verðmætin á þér
Hafðu öll nauðsynleg verðmæti, svo sem síma, veski og vegabréf á þér öllum stundum ef svo vill til að bílstjórinn aki af stað með bakpokann þinn á meðan þú ferðt á klósettið.
Vertu með símann í lagi
Passaðu að síminn sé ennþá með næga hleðslu, því síminn er vissulega neyðartæki. Ef þú ert með snjallsíma skaltu hlaða hann vel í stoppum. Helst skaltu vera með síma af gömlu gerðinni, því að þá ertu örugg(ur) um að hann verði ekki batterílaus á næstunni, enda endist batteríið á þeim oft í viku.
Sendu lit, gerð og bílnúmer á vin
Sendu skilaboð til trausts aðila eða taktu jafnvel mynd af bílnum (gott að spyrja um leyfi fyrst).
Að yfirgefa bíl
Fáðu bílstjórann til að stoppa á öruggum stað, svo sem vegasjoppu. Þannig eru meiri líkur á því að þú fáir næsta far. Ef að svo ólíklega vill til að bílstjórinn er ekki á því að stoppa eða er með hegðun sem þér þykir óþægileg og þú vilt losna úr aðstæðunum sem fyrst getur þú borið fyrir þig bílveiki.
Hugaðu að samferðalöngum
Það er vissulega hægt að húkka einn, en það er alltaf gott að vera með félaga upp á aukið öryggi. Því miður þarf að huga að kynjum í svona samsetningum, en það er langt um ólíklegra að tveir karlmenn fái far heldur en tvær konur. Karl og kona eða tvær konur er því heppilegri samsetning. Ef þú hefur engan til að húkka með eru til síður þar sem húkkarar rotta sig saman. Þú getur líka oft fundið húkkfélaga sem eru á sömu leið og þú á bensínstöðvum
Að komast leiðar sinnar á puttanum
Að húkka tekur yfirleitt mun lengri tíma en að taka lest eða rútu, því þú þarft oft að bíða eftir fari til lengri eða skemmri tíma. Sem þumalputtaregla er hægt að gera ráð fyrir að komast um 500 km á dag en það getur þó verið mjög mismunandi. Stundum er maður heppinn með far og stundum stendur maður úti í steikjandi sól í 5 tíma.
Aðalmálið er að velja rétta staðinn
Ökumennirnir verða að sjá þig og þeir verða að geta stoppað á öruggan hátt. Vegasjoppur og vegaslaufur (rampar) eru bestar.
Notaðu viðeigandi handamerki
Þumalputtinn er ekki endilega húkkmerkið í því landi sem þú ert að húkka, -stundum er það putti sem hallar niður á við og stundum er það útrétt hönd.
Kynntu þér landsvæðið
Lestu upplýsingar um svæðið sem þú ert á eða að fara til, sem dæmi á Hitchwiki. Oft eru mikilvægar upplýsingar þar, t.d. um stopp þar sem er nánast ómögulegt að fá far og svo staði sem eru góðir til að húkka á.
Talaðu við fólk
Til dæmis á bensínstöðvum og í sjoppum og reyndu að fá far með þeim.
Vertu með kort
svo þú hafir góða yfirsýn yfir allar borgir og vegi. Yfirleitt kemst maður ekki leiðar sinnar með einu fari, svo þú þarft að pússla saman löngum og stuttum förum. Stundum kemst maður ekki hjá því að taka á sig krók því að enginn er að fara nákvæmlega í áttina sem þú vilt fara, en reyndu þá að setja þig inn í akstursvenjur fólks og ímynda þér góða leið. Það er til dæmis meiri umferðarþungi að höfuðborgum og stórum borgum og því gott að húkka í átt að þeim.
Hvað með vörubílstjóra?
Að fá far með vörubílstjórum er oft frekar auðvelt og þeir eru yfirleitt að keyra langar vegalengdir sem getur hentað þér. Hins vegar fylgir sá böggull skammrifi að þeir keyra mjög hægt (80-90 km hraða á vegum þar sem aðrir eru kannski á 160 km hraða) og því kemstu hægar yfir. Vörubílar eru hins vegar mjög öruggir enda stórir og stöðugir og flestir búnir GPS-tækjum þannig að ef að eitthvað kemur upp á, þá veit fyrirtækið sem á vörubílinn alltaf hvar þú ert. Hins vegar er yfirleitt bara eitt farþegasæti þannig að ef þið eruð tvö þá þarf annar aðilinn að sitja á rúmi bílstjórans (sem getur verið misgeðslegt).
Vertu með skilti
Til dæmis úr pappa og skrifaðu stórum stöfum nafn á borg eða skammstöfun á landi. Stundum er gott að skrifa bara átt, t.d. “Norður” því að þá er líklegra að fólk samsami sig með því og pikki þig upp. Ekki skrifa áfangastaðinn ef þú ert 2000 km frá honum. Skrifaðu nafn á borg sem er nær, t.d. 200 km frá því þar sem þú ert núna. Skammstafanir með stórum stöfum virka betur en löng borgarnöfn í smáu letri.
Taktu eftir bílnúmerum
Í mörgum löndum gefa fyrstu stafirnir í bílnúmerum til kynna hvar bíllinn er skráður og því er gott að vera meðvitaður um númerin því þau segja oft til um hvert fólk er að fara; það er að fara heim. Þú getur gengið upp að bílum á bílastæðum og spurt fólk hvort það sé að fara til Hamburgar ef að bíllinn er merktur HH.
Skerðu þig úr
Ef þú ert eftirtektarverður eru meiri líkur á að fólk gefi þér far. Fólk er meira tilbúið að taka upp puttaferðalang sem stendur úti í kanti og spilar á ukulele heldur en sveittan ferðalang í goretex-jakka með bakpokann á bakinu.
Haltu þig við einn bakpoka á mann
Það er hluti af húkkara-etikettinu að halda sig við einn farangur.
Hvert ertu að fara?
Ekki húkka inn í borgir sem þú ætlar ekki að dvelja í. Það er mjög erfitt að húkka innanbæjar. Ef þú ert inni í borg, taktu þá strætó út að borgarmörkum og húkkaðu þar.
Kynntu þér tungumálið
Talaðu tungumálið í því landi sem þú ert. Reyndu að læra aðeins í því áður en þú byrjar að húkka ef þú talar það ekki fyrir. Þú getur jafnvel skrifað á skiltið að þú talir þetta tungumál, því þá eru heimamenn líklegri til að pikka þig upp.
Brostu!
Það hjálpar almennt öllum 🙂 og sérstaklega þeim sem eru að húkka sér far. Brostu líka til þeirra sem hafna þér fari, sér í lagi ef þeir gefa þér bendingar um ástæðuna. Vertu kátur og hress.
Vertu alltaf meðvitaður um hvar handklæðið þitt er.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?