1.  Gefðu blóð

Blóðbankinn tekur ekki við blóðgjöfum alla daga yfir hátíðirnar og því mikilvægt að hann komi sér upp góðum forða sem hægt er að nota yfir jólin.  Gefðu blóð, -þú gætir verið að bjarga lífi!  Nánari upplýsingar um blóðbankann og reglur um blóðgjöf eru á síðu blóðbankans.

2. Hrósaðu og vertu jákvæð(ur)

Það kannast allir við þá tilfinningu að vera hrósað. Það eitt að brosa til fólks og leggja uppúr því að benda á það sem þér þykir gott í fari fólks gleður.
Hér er smá listi um hvernig þú getur glatt:

  • Sendu yfirmanni einstaklings í þjónustustarfi hrós fyrir góða þjónustu og/eða aðstoð.
  • Vertu almennt kurteis, líka á netinu. Sendu hamingjuóskir eða samgleðstu því jákvæða sem fólk segir.
  • Brostu til 5 ókunnugra. Bros getur haft jákvæðar afleiðingar án þess að þú segir nokkuð, -þannig ert þú að láta viðkomandi vita að þú sjáir hann og hann skipti máli.
  • Vertu til staðar og aðstoðaðu aðra.  Hvernær fórst þú síðast út með ruslið? Eða bauðst til að passa fyrir nákominn?

3.  Farðu á elliheimili og syngdu jólasöngva með gamla fólkinu

Það er eitthvað endurnærandi við söng.  Heimsæktu elliheimili með gítar eða annað hljóðfæri og taktu nokkur jólalög með gamla liðinu.  Best er að gera boð á undan sér með því að hringja fyrst.

4.  Kauptu poka af jólamat og gefðu á facebook

Það er einhvernveginn samofið jólunum að gera vel við sig í mat og drykk.  Sumir hafa þó ekki efni á því að kaupa góðan jólamat og þú getur gert gæfumuninn með því að einfaldlega tína jólamat í aukapoka og gefa hann einhverjum sem þú veist að er í fjárhagsvandræðum, eða auglýsa hann á facebook, t.d. í grúppunni Gefins, allt gefins!  Hér eru hugmyndir af því sem þú gætir sett í pokann: Jólamatur, dós af grænum baunum, dós af rauðkáli, kassi af laufabrauði, ferskt grænmeti, kaka eða kökumix, malt og appelsín.

5. Borgaðu brúsann

Ef þú býrð svo vel að vera aflögfær um nokkra hundraðkalla, er um að gera að borga fyrir þann næsta í röðinni, t.d. er hægt að borga kaffið fyrir næsta mann þar sem þú stendur í röð á kaffihúsi eða biðja afgreiðslufólk um að gefa þeim næsta súkkulaði sem þeim finnst að eigi skilið.

6. Gefðu aukajólagjöf

Verslunarmiðstöðvar, í samstarfi við góðgerðarfélög, safna pökkum fyrir börn sem búa við bágan efnahag.  Kauptu aukagjöf og settu undir jólatrén í Kringlunni og Smáralind.

7.  Skrifaðu bréf til fanga

Það er sennilega sjaldan eins leiðinlegt að vera innilokaður í fangelsi og á sjálfum jólunum.  Skrifaðu fanga bréf og haltu uppi pennavinasambandi við hann.  Þú getur komist í samband við fanga í gegnum vefsíður eins og Write a prisoner.

8.  Mokaðu snjó fyrir nágrannann

Taktu þig til og mokaðu snjóinn af stéttum nágrannans.  Hann verður þér vísast mjög þakklátur og þú færð í ábæti talsverða hreyfingu, sem er gott þegar hátíð fer í hönd, með öllum sínum vellystingum.

9.  Taktu að þér kisu úr Kattholti

Kisur þurfa heimili. Þær eru líka vinsælasta áhorfsefni gjörvalls internetsins.  Og þær eru mjúkar og sætar.  Taktu að þér kisu sem er í heimilisleit, en einungis ef þú ert handviss um að þú munir standa við ábyrgðina sem fylgir því að eiga kött. Heimilislausar kisur er hægt að nálgast í Kattholti. Ef þú vilt ekki ábyrgðina sem fylgir dýrum, getur þú styrkt Kattholt í starfi sínu í staðinn.

10.  Stofnaðu lítinn sönghóp og syngdu fyrir gangandi vegfarendur

Stofnaðu lítinn sönghóp og æfðu nokkur jólalög.  Þið getið jafnvel haft hatt og safnað pening sem þið síðan gefið til góðgerðamála.

11. Sendu jólakort á einhvern sem þig grunar að fái ekki mörg

Það eru ekki allir vinamargir og sumir fá ekki nein jólakort, nema kannski frá vinnustaðnum sínum.  Taktu þig til og sendu viðkomandi jólagjöf.  Þú getur líka opnað símaskrána handahófskennt og sent jólakort á einhvern sem þú þekkir ekki neitt.  Passaðu þig bara að hljóma ekki eins og eltihrellir.

12.  Skafðu af öllum bílunum í götunni þinni

Það að skafa bíla er sennilega það alleiðinlegasta lúxusvandamál sem við lukkunar pamfílar þurfum að díla við.  Skafðu af bílunum hjá öllum í götunni þinni.

13.  Smávinir fagrir

Gefðu smáfuglunum að borða.  Það er einfaldlega hægt að gefa þeim margt af því sem þegar er til heima, til dæmis fræ og hnetur. Í frosthörkum þurfa fuglar mikla orku til að halda á sér hita og því er feitmeti, svo sem tólg, smjörlíki, flot og mör ein besta fæðan sem þeir fá. Einnig er hægt að kaupa fuglafóður og dreifa yfir snævi þakkta jörð, en það getur líka verið gaman að búa til sinn eiginn fuglafóðrara, –hér eru margar hugmyndir og á vísindavefnum getur þú lesið þér til fróðleiks um hvað á maður að gefa smáfuglum, skógarþröstum og öðrum, að éta úti í garði á veturna.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar