Hvað er gott að hafa með sér á útihátíð?

Þegar kemur að útihátíðum er um auðugan garð að gresja. Hvort sem það er erlendis eða hér heima þá eru nokkrir hlutir sem gott er að hafa í huga þegar kemur að úti- og tónlistarhátíðum. Ef þú þarft að ferðast með mikið á bakinu til að komast að hátíðarsvæðinu er betra að taka sem minnst með sér. Fyrir utan hluti eins og tjald, svefnpoka og útilegustóla þá eru hér nokkrir hlutir sem er gott að hafa með sér:

 • Límband: Það gæti verið útilegustóllinn, tjaldið eða skór sem rifnar/dettur í sundur. Hvað sem það er, það er gott að hafa þykkt límband við höndina sem skyndilausn.
 • Ruslapokar: Til þess að setja í botninn á tjaldi og hafa með til að setja yfir t.d. bakpoka ef það rignir. Ruslapoki og límband saman geta líka lagað ólíklegustu hluti.
 • Klósettpappírsrúllu: Af augljósum ástæðum.
 • Blautþurrkur: Til að þurrka af þér ryk, drullu og svita þegar þú nennir ekki í sturturöð.
 • Smokka: Því að stunda öruggt kynlíf er best fyrir alla. Hér er grein um öruggt kynlíf á útihátíðum.
 • Föt til skiptana: Þú munt bæði þurfa föt fyrir ólíkt veðurfar en einnig vera mjög þakklát/-ur með hrein föt til að vera í á leiðinni heim, sérstaklega ef ferðin er löng. Þess vegna er líka gott að geyma hreinu aukafötin í plastpoka til að vera viss um að þau blotni ekki.
 • Regnheld föt og stígvél: Jafnvel þó þér finnst regnstakkurinn þinn ljótur. Ef það rignir mikið munu allir vera í regnjökkum og stígvélum. Þau sem ákveða að sleppa því munu líklegast enda á því að fara fyrr heim í tjald en þau ætluðu sér.
 • Sokka: Nóg af hreinum sokkum: Jafnvel fleiri en dagarnir sem hátíðin stendur yfir. Það er vel mögulegt að þig muni langa til að skipta um sokka einhvern tímann um daginn þegar þeir eru orðnir blautir af annað hvort rigningu eða svita.
 • Fatateygjur: Þessar sem hægt er að finna t.d. í saumadeildinni í Hagkaup. Ef stefnan er á að reisa partýtjald er gott að festa teygjur í allavega tvö horn á tjaldinu sem eru ská á móti hvort öðru. Festið svo hinn endann á teygjunum í jörðina með tjaldhæl. Þetta mun halda partýtjaldinu standandi í gegnum nánast hvaða óveður sem er.
 • Reiðufé: Pening í lausu sem er geymdur annarsstaðar en kortin þín. Þetta mun koma sér mjög vel ef þú týnir kortinu þínu.
 • Síma: Farsíma og ferðahleðslutæki. Mögulega gamlan síma sem er í lagi að týna.
 • Skyndibita: Próteinstykki, ávextir eða annar matur sem auðvelt er að grípa í.
 • Eyrnatappa: Sérstaklega ef þú átt erfitt með að sofa í hávaða.
 • Ýmislegt annað: Sólarvörn, handspritt, þurrsjampó og varasalvi með SPF vörn. Hælsærisplástra, vasaljós, verkjalyf og vatnsbrúsa

Að tjalda

Hafðu meðferðis fána eða annað skraut til þess að skreyta tjaldið þitt. Þá verður auðveldara að finna það um miðja nótt þegar það er komið myrkur og öll tjöld líta eins út. Ef þú ert með hóp sem er með partýtjald er einnig hægt að merkja það.

Betra er að tjalda ofar en neðar. Þá eru minni líkur á að það flæði inn í tjaldið ef það rignir mikið. Einnig er betra að tjalda í hæfilegri fjarlægð frá bæði ferðaklósettum og öllum grindverkum eða skurðum sem afmarka hátíðarsvæðið. Þvaglyktin þar getur verið alveg jafn slæm og við klósettin.

Þó að það sé freistandi að tjalda eins nálægt tónleikasvæðinu og mögulegt er eru margir kostir við það að tjalda lengra í burtu. Lætin eru minni og það er ólíklegra að einstaklingar sem eiga leið framhjá detti á tjaldið þitt, brjóti það eða ákveða að það sé fínn náttstaður. Það er líka gott að setja sem mest inn í tjald á meðan farið er á tónleika, útilegustóla líka. Ef drykkir eru skildir eftir út er nánast bókað að þeir muni hverfa.

Þegar búið er að tjalda og koma sér fyrir er ekkert eftir nema að skemmta sér. Hér er grein með nokkrum ráðum sem gott er að fylgja til að njóta sín sem best á útihátíðum.

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar