Kostir við kynlíf á útihátíð:

 • Líkurnar á því að skora eru skrambi miklar.  Þú ert umkringd(ur) nautnaseggjum sem eru mögulega til í hvað sem er (og jafnvel hvern sem er, til dæmis þig).
 • Þegar þú ert að heiman er auðvelt að vera bara hvaða manneskja sem þú vilt.  Hverjum er ekki sama þó að vinir þínir hafi séð þig grenja yfir makaleysi í bænum. Innan tjaldsvæðisgirðingarinnar getur þú verið daðurdrottningin og engin mun vita betur.
 • Kynlíf er skemmtilegt -svo lengi sem þú mundir eftir að pakka rétt í bakpokann (pakkaðu smokkum!) og báðir/allir aðilar eru meðvitaðir og samþykkir því sem er að fara að gerast næst.
 • Að hömpast undir segldúk (eða stjörnuhimninum) er klárlega tilbreyting frá svefnherbergisloftinu.  Það er líka ólíklegra að mamma þín labbi inn á ykkur.
 • Það eru engin lök sem þarf að setja í þvott eftir á.

Gallar kynlífs á útihátíð:

 • Hafðu í huga að það getur verið erfitt að komast í sturtu eftir ástarleikinn.  Það gæti þýtt að þú verðir með kynlífshnakka og svita bólfélagans á þér út hátíðina.  Næs…
 • Að hoppa ofan í svefnpoka með einhverjum sem þú þekkir ekki getur verið áhættusamt.  Þú veist ekkert um kynlífssögu viðkomandi eða hvernig samskipti ykkar verða eftir fjörið.  Vertu því á varðbergi; aldrei stunda kynlíf án smokks við þessar aðstæður og vertu opin með áætlanir þínar og væntingar áður en mökin hefjast.
 • Ríðingar í tjaldi með lampa inn í breytir tjaldinu í erótískt skuggaleikhús fyrir aðra.  Fólk getur séð skuggamyndir af mökunum og þið gætuð því umkringt tjaldið áhorfendum (sem að sumir gætu séð sem bónus, sérstaklega áhorfendurnir).  Þetta er kannski ekki áhyggjuefni í hinni íslensku sumarnótt, því þá er jafnbjart úti, en hafðu þetta í huga þegar að skyggja fer í ágúst.
 • Sömuleiðis eru tjöld mjög hljóðbær.  Næfurþunnur nælondúkur gerir lítið til að loka inni stunur og brak í vindsæng.
 • Svefnpokamök geta gert leikinn mun innilegri, en ertu viss um að þig langi svo að leggjast til svefns í svefnpokanum seinna um kvöldið?  Þetta kalda, klístraða í bómullinni… það er sko ekki leðja frá dansgólfinu.  Lausnin er klárlega innanundirsvefnpoki.  Frábæra silki innanundirsvefnpoka er hægt að kaupa í útivistarbúðum en svo má líka bara stökkva í Rúmfatalagerinn og kaupa risastórt lak, sem þú saumar saman á hliðunum.  Pokann getur þú svo þrifið á milli útihátíða, nú eða bara tekið hann með þér í sturtuna ef þú ætlar að hafa marga maka á meðan hátíðinni stendur.

Smokkar á útihátíðum

Ef það er einhver séns að þú sért að fara að finna þér nýjan bólfélaga, taktu þá með þér smokka á útihátíðina.  Það sparar þér tíma, stress og pening.  Og krakkar, -að vera með smokka í veskinu gerir ykkur ekki að druslum, það þýðir bara að ykkur er annt um heilsuna.  Jafnvel þó þú dettir ekki sjálf(ur) í lukkupottinn þá gætir þú verið hin góðhjartaði vinur sem lánar þakklátum félaga verjur á ögurstundu.

Smokkar eru besta vörnin gegn kynsjúkdómum.  Ef þú kaupir þá áður en þú heldur af stað eru þeir nú þegar í bakpokanum, sem gerir það ólíklegra að þú takir einhverja heimskulega, áhættusama ákvörðun þegar á hólminn er komið.  Passið að geyma smokkana ekki í hita og beinu sólarljósi.  Vökvar eða smyrsl með olíu geta skemmt smokka, svo ekki nota vaselín eða rakakrem sem sleipiefni.

Ef þú þarft smokka á hátíðinni fást þeir pottþétt í sölutjöldunum.  Oft eru líka samtök að dreifa þeim um svæðið, en ekki treysta á það.

Pillan

Konur sem taka pilluna verða að muna að taka með sér nóg af pillum.  Útihátíðir fokka upp daglegri rútínu, svo stilltu símann þinn þannig að þú takir pilluna á réttum tíma hvern dag.  Ef þú kastar upp eða færð niðurgang, sem er ekki óalgengt í þessum aðstæðum, notaðu þá smokk næstu daga, því það gæti verið að virkni pillunar hafi minnkað.  Enn og aftur minnum við á að pillan er bara getnaðarvörn, en ekki vörn gegn kynsjúkdómum og er því einvörðu viðeigandi í föstu sambandi með einhverjum sem þú þekkir og treystir.  Smokkar eru nauðsynlegir til að varna því að þú fáir kynsjúkdóma.

Neyðarpillan – daginn eftir pillan

Ef að svo vill til að þrátt fyrir öll varnaðarorð okkar, þá stundir þú óvarin mök, þá er mikilvægt að muna eftir neyðarpilluni.  Neyðarpillan getur varnað gegn þungun í 72 tíma eftir kynlíf, en því fyrr því betra.
Ekki krossa bara fingur og vona það besta.  Farðu í apótekið og fjárfestu í neyðarpillu.  Þú þarft ekki lyfseðil á Íslandi, en í sumum löndum gilda aðrar reglur og því gætir þú þurft að fara á læknavaktina.  Hafðu í huga að neyðarpillan er ekki ódýr, hún kostar tæpan 3000 kall og því er miklu ódýrara að nota smokka eða aðrar getnaðarvarnir.

Heimildir:

Greinin er þýdd og staðfærð af The Mix.

 • Var efnið hjálplegt?
 •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar