Hvað þýðir hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum?
Hægri og vinstri eru hugtök sem hafa verið notuð reglulega til þess að lýsa stjórnmálum, stefnum og flokkum frá því í frönsku lýðræðisbyltingunni árið 1789 (sjá grein um hægri og vinstri í stjórnmálum). En hvernig hafa hugtökin tengst íslenskum stjórnmálum og stjórnmálasögu?
Lengi vel einkenndust íslensk stjórnmál af mismunandi áherslum í sjálfstæðisbaráttunni, svo erfitt var að tala um hægri og vinstri á þeim tíma. Þó mætti segja að Heimastjórnarflokkurinn hafi verið nokkurs konar hægri flokkur í klassískum skilningi; þeir voru tengdir embættismannakerfinu og vildu fara sér hægar í breytingum en róttækari sjálfstæðissinnar sem töldust þá til vinstri. Á þessum tíma táknaði hægri enda fyrst og fremst íhaldssemi en vinstri breytingar, sbr. grein um hægri og vinstri í stjórnmálum.
Upp frá 1916 komu hins vegar upp flokkar sem börðust fyrir samfélagslegum jöfnuði og stjórnmálin urðu líkari svokölluðum stéttastjórnmálum; þar sem „alþýðan“ barðist fyrir jöfnuði á meðan „borgararnir“ börðust fyrir einstaklingsfrelsi.
Síðan þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið talinn langstærsti, og oftast eini, hægri-flokkurinn á Íslandi, Framsóknarflokkurinn „í miðjunni“ en Samfylkingin og Vinstrihreyfingin-Grænt framboð (áður Alþýðuflokkurinn og Alþýðubandalagið) til vinstri.
Fleiri minni flokkar hafa komið fram í íslenskum stjórnmálum og þó erfitt sé að staðsetja þá marga hafa þeir flestir þótt halla nokkuð til vinstri.
Hvað þýðir hægri og vinstri á Íslandi nú á dögum?
Framkvæmd hefur verið rannsókn á þýðingu hægri og vinstri í huga Íslendinga og niðurstaða hennar er sú að hugtökin hafi enn mikla þýðingu í íslenskum stjórnmálum, þó þýðing þeirra sé ekki jafn einföld og margir gætu ætlað.
Þar er hægri og vinstri fyrst og fremst talið tákna málefnaágreining um ríkisafskipti af efnahagnum, jöfnuði og umhverfismálum; þar sem vinstri táknar meiri afskipti en hægri minni. Segja má að það sé mikilvægasti „ás“ hægri og vinstri málefna.
„Ásarnir“, eða stjórnmálaskoðanir sem tengjast hægri og vinstri, eru samt fleiri. Hægri og vinstri tengjast t.d. líka afstöðu í garð leiða í kynjajafnréttismálum og til félagslegra málefna á borð við lögleiðingu fíkniefna, áfengissölu o.s.frv. Þar táknar hægri frjálslyndari afstöðu í þeim málum en vinstri meiri aðgerðir af hálfu hins opinbera eða samfélagsins.
Loks er þriðji ásinn nokkuð tengdur hægri og vinstri, en hann snýst um afstöðu í utanríkismálum, friðarmálum og umhverfismálum.
Sem sagt…?
Í raun má einfalda þetta með því að segja að hægri og vinstri tákni annars vegar afstöðu manna til ríkisafskipta af efnahagsmálum, en hins vegar afstöðu þeirra til ríkisafskipta af félagslegum málum. Loks má tengja hægri og vinstri við vissa heimspekistefnu um frið og náttúruvernd.
Það merkilega er að þó þessi málefni geti vissulega tengst, þá geta flokkar og fólk hæglega verið til vinstri í einu slíku viðfangsefni en til hægri í öðrum án þess að vera með ósamræmi í skoðunum eða órökréttar hugmyndir um stjórnmál. Því er erfitt að tala um að einhver sé almennt „til hægri“ eða „til vinstri“, án þess að skoða það og skýra nánar.
Merking hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum, sem og sögu alþjóðlegra stjórnmála, er því ekki einföld og hugtökin geta staðið fyrir mismunandi skoðanir á sama tíma og tekið breytingum milli samfélaga og tímabila.
„Ásarnir“, eða stjórnmálaskoðanir sem tengjast hægri og vinstri, eru samt fleiri. Hægri og vinstri tengjast t.d. sterklega afstöðu í garð leiða í kynjajafnréttismálum og til félagslegra málefna á borð við lögleiðingu fíkniefna, áfengissölu o.s.frv.
Sjá einnig:
- grein um hægri og vinstri í stjórnmálum;
- BA-ritgerð og rannsókn um hægri og vinstri í stjórnmálum: Íslenskir Áttavitar: Þýðing hægri og vinstri í íslenskum stjórnmálum;
- bókina „Íslenska stjórnkerfið“ eftir Gunnar Helga Kristinsson.
Myndin sem fylgir greininni er fengin af http://www.politicalcompass.org/ sem er umfjöllun um hægri og vinstri í stjórnmálum á alþjóðavísu. Sú greining er að sumu en ekki öllu leyti viðeigandi á Íslandi.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?