Hvað er Evrópuráð?

Evrópuráð (e. council of Europe) eru evrópsk samtök sem voru stofnuð árið 1949 í þeim tilgangi að stuðla að friði í heiminum, efla lýðræði og vernda mannréttindi. Ísland er með aðild að Evrópuráði og hefur verið frá árinu 1950.
Alls eru 47 evrópsk lönd meðlimir í ráðinu en öll eiga þau það sameiginlegt að hafa skrifað undir Mannréttindasáttmála Evrópu. Með sáttmálanum er m.a lagt bann á dauðarefsingar, pyntingar, þrælahald og mismunun. Þá er einnig lagt áherslu á lýðræði, tjáningarfrelsi, jafnrétti og réttindi barna. Evrópuráðið stofnaði Mannréttindadómstól Evrópu til að fylgja sáttmálanum eftir.

Evrópuráðið hvetur til samtals og samvinnu evrópulanda.

Í Evrópuráðinu koma aðildarríkin (löndin) saman og leitast við að samræma stefnur sínar og aðgerðir. Þar er rætt um stjórnmál, efnahagsmál, menningar- og menntamál, félagsmál, mannréttindamál, umhverfismál og vísindi.

Er Evrópuráðið og Evrópusambandið ekki sami hluturinn?

Evrópuráðið er ekki það sama og Evrópusambandið.  Í Evrópusambandinu eru 28 lönd og þau eru öll skyldug til þess að fylgja þeim löggjöfum sem sambandið setur fram. Í Evrópuráðinu hins vegar þurfa aðildarríkin einungis að fylgja mannréttindasáttmálanum. Vinna Evrópuráðsins einkennist meira af því að leggja línurnar í vissum málum, það er svo undir hverju og einu landi fyrir sig að velja hvort þau fari eftir því eða ekki.

Hér má finna nánari upplýsingar um Evrópusambandið.

Fáni Evrópu

Evrópuráðið einkennist af bláum fána með 12 gull-lituðum stjörnum sem mynda hring. Fáninn var vígður árið 1955 og notaður fyrst og fremst sem tákn Evrópuráðsins. Í dag er fáninn þó einnig þekktur sem sameiningartákn Evrópu. Hann stendur fyrir ákveðnum gildum; lýðræði, mannréttindum, réttarríki og fjölbreytni. Fánann má finna hjá ýmsum stofnunum en Evrópusambandið einkennir sig líka með honum. Því er kannski ekki furða að fólk eigi það til að rugla saman Evrópuráði og Evrópusambandinu.

Hvaða lönd geta fengið aðild að Evrópuráðinu?

Ýmsar kröfur þarf að uppfylla til þess að land fái aðild að Evrópuráðinu. Löndin þurfa meðal annars að vera í Evrópu, lögleiða mannréttindasáttmálann og teljast réttarríki (ríki sem byggir á lögum og reglum, og virðir grundvallarmannréttindi og frelsi borgara sinna).

Viltu vita meira? Hér má finna heimildir og nánari upplýsingar.

Síða Evrópuráðsins
Nánar um Evrópuráðið á ensku
Á Evrópuvefnum má finna allskyns upplýsingar um Evrópumál og Evrópusambandið. 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar