Hvað eru útstrikanir í kosningum?

Í alþingiskosningum og flestum sveitarstjórnarkosningum velja kjósendur á milli framboðslista mismunandi flokka eða samtaka.

Á þessum framboðslistum er einstökum frambjóðendum raðað í forgangsröð, þannig að frambjóðandinn í 1. sæti á mesta möguleika á því að ná kjöri o.s.frv.

Ef kjósandi vill getur hann hins vegar breytt þessari röð innan þess framboðslista sem hann merkir við; það kallast endurröðun lista. Kjósandi getur einnig einfaldlega strikað einstaka frambjóðendur út af listanum til þess að minnka möguleika þeirra á því að ná kjöri; það kallast útstrikun.

Hvernig hafa útstrikanir og endurröðun lista áhrif á úrslit kosninga?

Útstrikanir og endurröðun hafa ekki sömu áhrif í sveitarstjórnarkosningum og í alþingiskosningum.

Í sveitarstjórnarkosningum þarf meira en helmingur kjósenda að færa frambjóðanda niður listann, til þess að hann færist niður. Ef meira en helmingur kjósenda strikar yfir frambjóðanda dettur hann hins vegar alveg af listanum.

Í alþingiskosningum er þetta nokkuð flóknara og er misjafnt hversu margir þurfa að strika yfir eða endurraða frambjóðanda til að hann færist neðar. Það fer eftir því í hvaða sæti frambjóðandinn er á listanum og hversu marga fulltrúa framboðslisti hans fær kjörna í kosningunum.

Eftirfarandi tafla er fengin af vef innanríkisráðuneytis og sýnir hversu hátt hlutfall kjósenda þarf að strika yfir frambjóðanda eða færa hann neðar á listanum í alþingiskosningum til þess að hann færist neðar á listann:

Hvers vegna er þetta ekki eins í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum?

Lengi vel giltu sömu reglur um útstrikanir í sveitarstjórnarkosningum og í alþingiskosningum. Árið 2000 voru hins vegar sett ný lög um alþingiskosningar sem þýddu að útstrikanir höfðu meira vægi þar. Lög um kosningar til sveitarstjórna eru hins vegar frá 1998 og hefur þeim ekki verið breytt á sama hátt.

Í báðum tilfellum er litið svo á að allir kjósendur sem ekki breyttu seðlinum sínum hafi kosið þann sem er í 1. sæti á listanum í 1. sæti o.s.frv. Kjósendur sem endurraða hins vegar listanum hafi kosið frambjóðendur í þau sæti sem þeir merkja við, en þeir sem strika frambjóðendur út hafa ekki kosið þá í neitt sæti.

Útkoman úr þessu er ekki reiknuð á sama hátt í sveitarstjórnarkosningum og í alþingiskosningum. Í stuttu máli er talið í sveitarstjórnarkosningum eins og í prófkjörum íslensku flokkanna. Í alþingiskosningum fær fyrsta sætið hins vegar 1 stig, 2. sætið ½ stig, 3. sætið ⅓ stig o.s.frv… stærðfræðilega hafa þessar ólíku reiknireglur áðurnefnd áhrif.

Sjá nánar:

Lög um alþingiskosningar,
lög um kosningar til sveitarstjórna.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar