Forseti Íslands er þjóðhöfðingi landsins og er kosinn af öllum Íslendingum, eldri en 18 ára, á fjögurra ára fresti. Hann býr á Bessastöðum og gegnir ýmsum hlutverkum, en ekki hafa allir sömu skoðun á því nákvæmlega hvað hann á að gera.
Stjórnarskrá Íslands og venjur í stjórnmálum hafa samt sem áður mótað vissan ramma utan um störf forsetans.
Stjórnarskráin og stjórnmálin
Samkvæmt stjórnarskrá Íslands fer forsetinn með ýmis formleg völd en hefðir við túlkun á henni þýða að völd hans hafa verið nokkuð öðruvísi í raun og veru:
- Hann fer með löggjafarvaldið ásamt Alþingi. Meirihluti alþingismanna verður samt alltaf að samþykkja lög.
- Hlutverk forsetans er því að skrifa undir lög frá Alþingi. Ef hann ákveður að gera það ekki ræður þjóðin því hvort lögin taka gildi og kosið er um þau í almennri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi réttur forsetans til að hafna lögum er oftast kallaður „málskotsréttur“ hans, en áður var talað um synjunarvald.
- Forsetinn fer samkvæmt stjórnarskrá með framkvæmdavaldið en er ábyrgðarlaus af því og lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Þetta er skilið sem svo að í raun fara ráðherrarnir með þetta vald en ekki forsetinn sjálfur. Forsetinn þarf þó að skrifa undir athafnir ríkisstjórnarinnar til þess að þær öðlist gildi.
- Forsetinn skipar ráðherra en þingið þarf að samþykkja þá. Forsetinn ræður samt hver fær fyrst að reyna að skipa ráðherra í ríkisstjórn sem þingið styður. Ef engum á þingi tekst það getur forsetinn sjálfur myndað ríkisstjórn, svokallaða utanþingsstjórn.
Fulltrúi þjóðarinnar
Forsetinn er eini einstaki valdhafinn sem kosinn er sérstaklega af öllum Íslendingum og því er hann oft talinn bera sérstaka ábyrgð gagnvart allri þjóðinni. Sem þjóðkjörinn þjóðarleiðtogi sinnir hann ýmsum hlutverkum fyrir hönd hennar:
- Sumir segja að forsetinn eigi að vera „sameiningartákn“ þjóðarinnar. Hann eigi að tákna alla Íslendinga og ýta undir samstöðu þeirra með því sem hann gerir og segir.
- Forsetinn tekur á móti leiðtogum og embættismönnum annarra þjóða, ræðir við þá og sækir viðburði fyrir hönd Íslendinga erlendis.
- Forsetinn veitir nokkrum Íslendingum (og stundum útlendingum) fálkaorðuna á hverju ári, sem er sérstök heiðursviðurkenning embættisins.
- Forsetinn heldur ýmsar ræður fyrir bæði Íslendinga og aðra við fjölmörg tilefni; m.a. með nýársávarpi sínu til þjóðarinnar við hver áramót. Forsetinn getur með þeim orðum sínum haft ýmis áhrif á stefnu, hugarfar og ímynd þjóðarinnar og umheimsins frá degi til dags.
- Forsetinn getur bætt ímynd landsins í augum útlendinga og hjálpað Íslendingum og íslenskum fyrirtækjum erlendis, þó skiptar skoðanir séu um hversu mikið hann eigi að beita sér í þeim efnum.
Í myndbandinu með greininni má sjá núverandi forseta Íslands, sagnfræðinginn Guðna Th. útskýra hlutverk og sögu forsetaembættisins. Áhugavert er að Guðni Th. var ekki orðinn forseti Íslands þegar myndbandið var tekið.
Sjá einnig umfjöllun á Vísindavefnum.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?