Langt flug að baki og enn lengri bið að næsta flugi framundan. Það er oft sem maður neyðist til að dvelja nótt á milli fluga og þá eru góð ráð dýr. Hér eru tekin saman nokkur ráð til að láta fara vel um sig.
1. Settu öryggið á oddinn
Það er auðvitað best að vera með ferðafélaga, enda fellst mikið öryggi í því að ferðast tvö eða fleiri saman. Það auðveldar einnig ýmislegt, enda hundleiðinlegt að þurfa að troða sér inn á þrönga klósettbása með allt sitt hafurtask.
Hafðu eftirfarandi í huga, sér í lagi ef þú ert ein(n) á ferðalagi:
- Sofðu þar sem aðrir ferðalangar eru, en ekki á afviknum stað þar sem fáir sjá til þín.
- Líttu í kring um þig og athugaðu hvort þú sérð öryggismyndavélar. Þær fæla frá sér þá sem hafa eitthvað óhreint í pokahorninu og geta borið vitni um hvers kyns glæpi.
- Það getur verið gott að liggja á farangrinum sínum, læsa rennilásum með hengilás eða vefja ólunum um hendur eða fætur.
- Ef þú vilt loka út hávaðann frá flugvellinum með tónlist skaltu stinga tónhlöðunni vel inn á þig, en ekki halda á henni í höndunum.
- Ekki skilja farangur eftir án þess að hafa auga með honum, því flugvallareglur eru mjög stífar þegar að kemur að einmana farangri. Það væri leiðinlegt að koma af klósettinu og uppgötva að búið er að sprengja stuttbuxurnar þínar í tætlur!
2. Finndu besta staðinn
Flugvellir á háannatíma geta verið eins mannmargir og meðal-Menningarnótt í Reykjavík. Það er því ekki úr vegi að reyna að finna sér stað sem fyrst og vera búin(n) að gera heimavinnuna sína varðandi hvaða staðir eru hentugastir til svefns á þeim velli sem þú ætlar að sofa á.
Ekki eru allir flugvellir hannaðir með svefn í huga. Því getur verið að á flestum sófum séu sætishandföng á milli sæta, sem þýðir að ekki er hægt að leggja sig á þremur samliggjandi bekkjum. Ef ekkert gott sæti er í augnsýn þar sem þú er staddur/stödd á flugvellinum þá gætu þessi ráð hjálpað:
- Kannaðu hvort betri sæti sé að finna í öðrum flugvallarsvæðum (e. Terminal). Flakkaðu um mismunandi svæði og reyndu að finna hentugasta staðinn með tilliti til hávaða, hitastigs, fólksfjölda og sætismöguleika.
- Vertu búin(n) að kynna þér flugvöllinn áður en þú mætir.Til eru vefir sem gefa þér gott yfirlit yfir það sem er í boði á flugvöllum um allan heim, t.d. hvar bestu svefnstaðirnir eru, hvar ódýrasti maturinn er og þannig ráð. Góð síða er t.d.: sleepinginairports.net
- Flestir flugvellir bjóða upp á kapellu, sem er kannski ekki hentug til svefns (af virðingu við aðra), en þar er hægt að fá ró og næði og hvíla sig aðeins á amstrinu sem ferðalögum fylgir.
3. Þvoðu þér
Eftir nótt á flugvallarsófa langar þig vafalaust að snyrta þig aðeins. Sumir flugvellir bjóða upp á sturtuaðstöðu fyrir lágt gjald. Ennfremur eru mörg flugvallarhótel með líkamsræktarstöð með sturtuaðstöðu og jafnvel sundlaug. Oft er hægt að fá aðgang að slíkri aðstöðu fyrir hóflegt gjald. Einnig eru allflestir flugvellir með einkastofu (e. lounge) og þar er stundum sturtuaðstaða (og oft hlaðborð, vínveitingar, nudd og fleira). Stundum er hægt að greiða gjald fyrir stakan aðgang ef þú ert ekki með einhvers konar aðgangskort eða kreditkort sem veitir þér aðgang. Hafðu bara í huga að margar einkastofur eru með reglur um klæðaburð og gætu meinað þér aðgang ef þú lítur ræfilslega út.
4. Vertu vel búin(n)
Það er gott að vera vel búin(n). Hér er listi yfir helstu hluti sem gott er að vera með, en hann er ekki tæmandi:
- Það er allra ódýrast að koma með mat að heiman, enda flugvallamatur oft mjög dýr. Ef þú hefur ekki kost á að taka með þér nesti skaltu hafa í huga að margir matsölustaðir á flugvöllum loka á þeim tímum sem lítið er að gera og þá er slæmt að vera matarlaus. Stundum hendir starfsfólk afgangsmat fyrir lokun og þá geturðu reynt að blikka það til að gefa þér bita.
- Eitthvað til að liggja/sitja á. Sætin eru oft hörð og óþægileg, þá getur verið gott að vera með tjalddýnu, svefnpoka, handklæði eða eitthvað til að mýkja undirlagið. Hafðu það samt í huga að á sumum flugvöllum er alveg bannað liggja í svefnpoka.
- Augngríma og eyrnatappar. Augljóslega.
- Sólgleraugu. Í sumum flugvöllum er bannað að liggja fyrir eða loka augunum, þannig það getur virkað að sofa uppréttur með sólgleraugu.
- Bækur/blöð/dagbók til að stytta sér stundir.
- Tónhlaða. Eins og áður segir; geymdu símann eða tónlistarspilarann þinn inn á þér, annars er hætta á að þú vaknir með ekkert nema heyrnartólin.
- Vekjaraklukka. Ef að þú ert ekki með vekjaraklukku geturðu líka verið með post-it miða og sett á þig og stólana í kring um þig. Ef þú skrifar “Vekið mig klukkan 5” þá mun einhver gera það. Grínlaust.
- Sótthreinsiklúta.
- Fjöltengi. Þú getur eignast góða vini með því að bjóða öðrum að deila með þér fjöltenginu þínu, en á mörgum flugvöllum er erfitt að komast í innstungur. Á innritunarsvæðinu á London Stansted er til dæmis bara hægt að stinga tölvunni sinni í samband í reyksvæðinu og undir fótboltaskjánum á írska pöbbnum.
5. Geturðu ekki sofið? Finndu þér eitthvað að gera
Það er hægt að hafast ýmislegt að á flugvöllum ef maður getur ekki sofið eða er einfaldlega ekkert þreyttur. Hér eru nokkrar hugmyndir:
- Gerðu lista yfir öll þjóðerni sem þú sérð eða heyrir í. Hleraðu samtöl fólks sem þú skilur ekki og reyndu að finna út hvaðan fólkið kemur.
- Horfðu á heila seríu af sjónvarpsefni. Eru ekki einhverjir þættir sem allir eru að tala um en þú hefur aldrei haft tíma til að horfa á? Komdu þér vel fyrir með tölvuna þína (sennilega þarftu að fara í innstunguleit fyrst) og renndu í gegnum alla þættina.
- Búðu til myndband á símann þinn eins og þessi hérna. Þú gætir fengið milljón áhorf á YouTube!
- Farðu í kerrukappakstur. Passaðu bara að meiða engan og komast ekki í kast við öryggisverðina.
- Taktu til á desktoppinu þínu. Ekkert net þýðir ekkert Facebook og ekkert Facebook þýðir meiri agi. Loksins tekst þér að einbeita þér að því að taka til í öllum möppunum á tölvunni þinni!
- Lærðu tungumálið sem talað er í landinu sem þú ert á leið til. Sniðug öpp og vefir eru til dæmis memrise.com og duolingo.com.
- Skipulagðu flashmob. Fáðu fleiri ferðalanga í lið með þér og standið fyrir gjörningi.
Ráð eru bæði frá reynsluheimi höfundar og frá www.sleepinginairports.net.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?