Fyrsti lýðskólinn á Íslandi!
Lýðskólinn á Flateyri er sá fyrsti sinnar gerðar á Íslandi. Þar er hægt að velja um tvær námsleiðir, annars vegar Hafið, fjöllin og þú og hins vegar Hugmyndir, heimurinn og þú. Hin fyrri einblínir á náttúruna og útivist en sú seinni snýr að sköpun. Öll námskeið við Lýðskólann á Flateyri eru kennd í 2ja vikna stuttum en hnitmiðuðum lotum.
Hvað eru lýðskólar?
Lýðskólar eru einskonar lífsleikniskólar. Þar er ekki lögð áhersla á próf heldur fremur þátttöku og að nemendur læri eitthvað gagnlegt og skemmtilegt. Nánari upplýsingar um lýðskóla almennt má finna hér.
Hvar er Flateyri?
Flateyri er staðsett í miðjum Önundarfirði og tilheyrir sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ. Það tekur 6 klukkustundir og 7 mínútur að keyra á Flateyri frá miðbæ Reykjavíkur. Þó er líklega betra að stoppa á leiðinni og taka rúmlega 7 tíma í ferðina. Þá eru eflaust mörg spennandi stopp á leiðinni sem hægt er að kynna sér áður en haldið er af stað.
Styrkir til námsins?
Enn sem komið er styrkir LÍN ekki nám við lýðskóla, hvort sem um ræðir skóla á Íslandi eða annarsstaðar á jörðinni. Það er hægt að leita til sveitarfélaganna með styrki og bankar bjóða stundum uppá sérstök lán fyrir námsmenn. Ef námsmenn viðhalda að minnsta kosti 80% mætingu á hverri önn geta þeir sótt um styrk í formi endurgreiðslu frá Ísafjarðarbæ að upphæð 100.000 króna sem er greitt til baka í lok hverrar annar. Það er líka hægt að kanna það hjá stéttarfélaginu hvort að þau veiti styrki fyrir lýðskóla.
Hefuru tök á því að safna þér fyrir náminu?
Afhverju ætti ég að íhuga nám við lýðskóla?
Lýðskólar haga kennslu sinni á allt annan hátt en aðrir skólar. Lærdómurinn og ávinningur þess að sækja slíkan skóla er því allt annar líka. Í lýðskólum ríkir mikið frelsi og þeir byggja á því að fólk sem sækir þá, komi með hugmyndir sem hafa áhrif á starfið. Nemendur og kennarar vinna náið saman og mynda sterka liðsheild. Á Flateyri er hægt að sækja um að vera í eina önn eða tvær. Allar nánari upplýsingar um Lýðskólann á Flateyri má finna á heima síðu þeirra, hér.
Meðfylgjandi myndir úr Lýðskólanum á Flateyri:





HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?