Fyrst og fremst: málfar
Ferilskrá með stafsetningar- og innsláttarvillum hefur vanalega ekki góð áhrif á vinnuveitanda. Því er gott að lesa textann vandlega yfir – og jafnvel fá fleiri til að gera slíkt hið sama. Auk þess skal forðast að nota sömu orðin oft og skrifa langar setningar.
Einfalt og smekklegt útlit
Eins er góð regla að hafa uppsetningu einfalda og smekklega.
Hvað segir netfangið um umsækjandann?
Það er ekki líklegt að vinnuveitendur hafi samband við Mr. Stud eða Crazygirl 69 @ eitthvad.com. Því er ráðlagt að fólk verði sér úti um netfang sem inniheldur nafn þess, er fagmannlegt og ber a.m.k. vott um þroska.
Forðast skal fjöldaframleiðslu
Varast skal að hafa ferilskrána of almenna. Betra er að endurskoða hana fyrir hvert starf sem sótt er um og stíla hana markvist inn á það. Það má gera með að draga fram reynslu sem gæti nýst í þessu tiltekna starfi, skipta út áhugamálum sem henta betur og tilgreina nánar nám sem tengist starfinu.
Ekki skrifa FERILSKRÁ á ferilskrána
Það fyrsta sem blasir við fólki þegar það les ferilskrána ætti að vera nafn umsækjanda efst á síðunni. Flestir átta sig á því að hér er ferilskrá á ferðinni.
Ekki skrifa of mikið – en ekki of lítið heldur
Ekki er gott að lista upp allri starfsreynslu í löngu máli. Betra er að hafa stutta og greinargóða lýsingu á starfinu og í hverju það fólst. Gott er að hafa á bak við eyrað að tilgreina einungis nánar hluti sem gagnast fyrirtækinu sem sótt er um hjá. Með þessum hætti er líka hægt að forðast að hafa ferilskrána of langa. Oft er talað um að tvær til þrjár blaðsíður sé hámarkslengd.
Forðast skal upplýsingar sem skipta ekki máli
Þó svo að gott sé að lista upp áhugamál þá skal gæta þess að áhugamálin tengist starfinu sem sótt er um. Til að mynda hefur gæludýraverslun kannski takmarkaðan áhuga á að vita að fólk hafi áhuga á kvikmyndum. Þó geta áhugamálin verið lýsandi fyrir persónu umsækjandans og varpað ljósi á hann sem manneskju. Þetta þarf dálítið að spila eftir eyranu og vega og meta í hvert sinn sem send er út ferilskrá.
Vissir þú að hægt er að fá ókeypis atvinnuráðgjöf í Hinu Húsinu?
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?