Atvinnumáladeild Hins Hússins veitir ókeypis atvinnuráðgjöf fyrir fólk á aldrinum 16-25 ára.  Deildin gefur hér 7 góð ráð til þess að finna góða vinnu.

1. Hvar á að byrja?

Þeir fiska sem róa og því er bráðnauðsynlegt vera með alla anga úti. Á Alfreð.is og Storf.is er yfirlit yfir nánast öll auglýst störf á landinu en á Starfatorg.is, Reykjavik.is, Kopavogur.is, Gardabaer.is osfrv. finnur þú auglýst störf hjá ríki og sveitarfélögum. Auk þess eru ráðningaþjónustur eins og Hagvangur með yfirlit yfir laus störf á mínum síðum, en þar má líka skrá ferilskrá og upplýsingar í gagnagrunn fyrir fólk í atvinnuleit. Ekki eru öll störf auglýst sérstaklega en inn á vefsíðum stærri fyrirtækja er oft síða fyrir laus störf og hnappur til að senda inn almenna umsókn. Inni á vefsíðu Mbl.is og annarra fréttamiðla birtast daglega auglýsingar um ný störf.

2. Tengslanetið klikkar seint!

Mörg fá sína fyrstu vinnu í gegnum vini eða ættingja. Það er ekkert að því. Láttu fólk í kringum þig vita að þú sért að leita þér að starfi, hver veit hvað það gæti leitt af sér. Mörg fyrirtæki auglýsa ekki laus störf heldur láta orðróm götunnar sjá um að fólk viti að þau séu að leita að fólki.

3. Ferilskráin!

Ferilskráin er undirstöðuatriði sem má ekki klikka. Ferilskráin er mikilvægasta tækið í atvinnuleitinni og fyrstu kynni mögulegra atvinnuveitenda af þér. Ferilskráin á að vera stutt, snyrtileg og skilmerkileg, 1-2 bls. að lengd. Með einfaldri google-leit má finna leiðbeiningar og dæmi um góða ferilskrá. Ekki gleyma að raða störfum og menntun í tímaröð þannig að nýjasta reynslan sé efst og ekki klikka á stafsetningu og uppsetningu. Fáðu vin til að lesa yfir.

4. Kynningarbréfið!

Ferilskráin segir aðeins takmarkaða sögu. Með kynningarbréfinu færðu tækifæri til þess að gefa skýrari mynd af þér, af hverju þú hefur áhuga á viðkomandi starfi og af hverju þú ert hæf(ur) í starfið. Kynningarbréfið á að vera stutt og lýsandi, – ekki mikið meira en ½ blaðsíða. Dæmi um kynningarbréf finnur þú líka á veraldarvefnum.

5. Atvinnuviðtalið!

Það getur verið taugatrekkjandi að mæta í atvinnuviðtal, en með góðum undirbúningi má slá á titringinn. Þú þarft að kunna ferilskrána þína utan að og geta skýrt frá því hvaða verkefnum þú hefur sinnt í fyrri störfum og eins geta útskýrt hvernig menntun eða reynsla gæti nýst í viðkomandi starfi. Gott er að undirbúa svör við líklegum spurningum fyrirfram s.s. spurningum um styrkleika og veikleika þína og spurningum um áskoranir og hindranir og hvernig þú leystir úr þeim. Ekki gleyma að mæta tímanlega og vera snyrtileg(t/ur) til fara!

6. Ekki gefast upp!

Atvinnuleitin getur verið niðurdrepandi og margir atvinnurekendur svara ekki umsóknum. Þú gætir lent í því að senda 10 umsóknir en færð jafnvel bara 2 svör til baka og hvorugt jákvætt. Ekki láta það stoppa þig, sýndu frumkvæði og taktu stjórnina með því að fylgja umsóknum eftir. Hringdu í ráðningaraðilann og athugaðu hvar þau eru stödd í ferlinu. Helst fljótlega eftir að umsóknarfresturinn rennur út. Það sýnir áhuga og áræðni og getur fært þig ofar í umsóknabunkanum.

7. Komdu í Hitt Húsið!

Í Hinu Húsinu er öflug deild sem sérhæfir sig í atvinnumálum ungs fólks. Þú getur hringt, sent tölvupóst, fundið okkur á Facebook eða einfaldlega komið í heimsókn. Við getum aðstoðað þig við atvinnuleitina með góðum ráðum, gerð ferilskráar og kynningarbréfs og undirbúning fyrir atvinnuviðtal. Ráðgjöfin er ókeypis.

Það er alltaf heitt á könnunni!

Þú finnur okkur á Facebook!

Heimildir

Greinin birtist fyrst í Hitt Magazín. Hún er unnin af starfsfólki Hins Hússins.

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar