Þú vaknar. Þú sendir inn atvinnuumsókn. Þú maular þurrt Seríós. Þú sækir um aðra vinnu. Þú færð enn eina höfnunina. Þú grætur, en sækir um aðra vinnu. Þú ferð í ræktina ef þú átt fyrir því. Þú færð aðra höfnun. Þú kýlir vegg og sofnar svo út frá einhverri síbylju í sjónvarpinu. Hljómar þetta eins og venjulegur dagur í lífi þínu?
Atvinnuleysi getur verið þreytandi, en það er hægt að komast í gegnum þetta og gera lífið bærilegt.

„Ég sótti um milljón vinnur en fæ ekki neitt!“

Ef til vill ertu búin/n að senda inn tugi atvinnuumsókna, en svörin sem þú færð eru endalausar hafnanir, ef vinnuveitandinn nennir yfir höfuð að svara þér. Kannski er efnahagnum að einhverju leiti um að kenna, og það er auðvitað ekki þér að kenna að atvinnumarkaðurinn er grimmur.
Aftur á móti gæti verið að þú þurfir að breyta um aðferð. Það að sækja um hvaða starf sem er, hvar sem er og hvenær sem er, gæti nefnilega skemmt fyrir þér. Í stað þess að sækja um hundrað störf á viku með hangandi hendi, gæti verið betra að sækja um kannski þrjú, fjögur störf á viku og vera búinn að vinna umsóknina mjög vel. Þegar atvinnuumsóknir eru annars vegar, skipta gæði miklu meira máli en magn.

Er ferilskráin slæm eða klúðrarðu atvinnuviðtölum?

Ef þér bjóðast engin atvinnuviðtöl, gætirðu þurft að endurskoða ferilskrána þína og kynningarbréfið. Þau þurfa að vera vel upp sett, gefa góða og sanna mynd af þér og málið vandað. Hér á Áttavitanum má lesa meira um hvernig semja á góða ferilskrá og kynningarbréf.
Ef þú færð af og til boð í atvinnuviðtöl, en nærð aldrei að landa vinnunni, gætirðu þurft að undirbúa þig betur fyrir viðtalið og leiða hugann að líkamstjáningunni. Hér á Áttavitanum má finna góða grein og myndband um atvinnuviðtöl.

„Ég er komin/n með leið á því að hafa ekkert að gera á daginn“

Það er mikilvægt að vera reglusamur/söm og halda lífi sínu í föstum skorðum í atvinnuleysinu. Það er auðvelt að detta í óreglu og slugsakap ef maður passar sig ekki. Að halda sér virkri/um er ekki bara nauðsylegt fyrir geðheilsuna, heldur einnig mikilvægt til þess að sýna vinnuveitendum að þú sért áreiðanlegur vinnukraftur.
Það versta sem þú getur gert í atvinnuleysinu er að kúra undir sæng til hádegis, horfa á sjónvarpið klukkutímum saman, eða spila Candy Crush Saga til 4 á nóttunni. Vinnuveitendur leita eftir fólki sem er virkt, samviskusamt og kann að vakna á morgnanna.
Reyndu að fylgja rútínu á daginn. Vaknaðu snemma, taktu smá tíma frá til þess að sækja um vinnu, hreyfðu þig, borðaðu reglulega, talaðu við vini þína, sinntu áhugamálum þínum eða finndu þér ný.
Það getur verið gríðarlega dýrmætt að stunda einhvers konar félagsstörf eða sjálfboðastörf þegar maður er atvinnulaus. Í félagsstarfi getur maður öðlast reynslu af ýmsum störfum, lært nýja hæfileika, eignast nýja vini og þannig stækkað tengslanetið sitt. Tengslanetið er ómetanlegt við atvinnuleit. Að sama skapi er sjálfboðavinna lærdómsrík og lítur mjög vel út á ferilskránni. Það að hafa unnið sjálfboðavinnu sýnir að þú ert áreiðanlegur, traustur og samviskusamur starfskraftur, og tilbúin/n til þess að leggja á þig vinnu. Hér á Áttavitanum má finna upplýsingar um sjálfboðastarf erlendis og hérlendis, og upplýsingar um ýmis félög og hópa sem gagn og gaman er að.

„Það er hundleiðinlegt að eiga aldrei pening“

Það geta fylgt því ýmis gróðatækifæri að eiga nægan frítíma.
Líttu í kringum þig og reyndu að átta þig á því hvað þú gætir gert fyrir nærsamfélagið. Hvaða þjónustu gætirðu veitt nágrönnum þínum og ættingjum til að halda þér vakandi og eignast smá aur? Gætirðu boðist til að fara út að ganga með hunda nágrannans? Treystirðu þér til að passa litla barn frænku þinnar? Nýttu öll tækifæri af þessum toga, og hver veit nema þau gætu litið vel út á ferilskránni.
Ungt fólk er oft mun flinkara á tölvur og tækni en eldra fólk. Þú gætir reynt að notfæra þér það, t.d. með því að bjóðast til að kenna eldra fólki að nota tölvur, versla á netinu o.fl. Svo gætirðu jafnvel boðist til að búa til og sjá um facebook og twitter síður lítilla fyrirtækja. Þá væri sniðugt að bjóðast til að gera fyrstu síðuna frítt til að fá meðmæli, en fara svo að gera það gegn gjaldi. Svona tækifæri gætu verið byrjunin á farsælum rekstri.
Talandi um rekstur: Ef þú færð góða viðskiptahugmynd, þá er um að gera að láta reyna á hana. Með góðum undirbúningi og skipulagningu gætir þú farið að græða og orðið eigin launagreiðandi innan tíðar. Hér á Áttavitanum má lesa meira um það að stofna til síns eigin reksturs, hvernig á að gera áhugamálið sitt að atvinnu, og hvernig þú getur orðið frumkvöðull.

„Ég held ég þjáist hreinlega af þunglyndi og hef ekki orku til að gera neitt!“

Langtíma atvinnuleysi er ömurlegt. Það getur verið erfitt að brosa og vera Pollýanna dag eftir dag.
Stundum er allt í lagi að gefast upp í smá stund, líða illa, slappa af, safna orku í viku eða svo og byrja svo upp á nýtt að leita sér að vinnu. Það er eðlilegt. Stundum þarf maður bara hlé. Það þarf hins vegar að passa sig að hléið verði ekki of langt og að maður geti endurheimt hressa skapið og viljastyrkinn aftur.
Ef þér líður stöðugt illa, ert orkulaus, máttvana og sjálfsmyndin er í molum, og ef það ástand er langt og viðvarandi, þá er sterkur leikur að tala við heimilislækninn þinn. Kannski þjáistu af klínísku þunglyndi, og þá þarf að taka til annarra ráða.
Gangi þér vel í atvinnuleitinni!

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar