Það eru til ótal starfsstéttir í heiminum og það getur verið erfitt að velja hvað maður vill verða. Sumir fást aðeins við eitt starfssvið út ævina, á meðan aðrir flakka á milli starfsstétta og takast á við mörg mismunandi verkefni. Í greinaröðinni Hvernig verð ég […]? ætlum við að fara yfir leiðina að mismunandi störfum. Hér beinum við sjónum okkar að gullsmíði.
Hvað gerir gullsmiður?
Gullsmiðir vinna við hvers konar smámálmsmíði og skartgripagerð. Gullsmiðir gera meðal annars þetta:
- Hanna, smíða og gera við skartgripi og nytjahluti úr gulli, silfri og öðrum málmum.
- Grafa letur, setja steina í málm og gera málmmyndaskreytingar.
- Húða málm með mismunandi aðferðum.
- Þróa, hanna og smíða skartgripi og vinna út frá eigin hugmyndum og annarra.
- Þekkja íslenskar hefðir í gerð víravirkis.
- Steypa skartgripi og gera mót fyrir gerð flóknari gripa.
- Gera við skartgripi.
- Þekkja helstu tegundir eðalsteina, auk annarra steina, sem notaðir hafa verið í skartgripi, hérlendis og erlendis.
- Þjónusta viðskiptavini af lipurð, háttvísi og kunnáttu.
- Nota listrænt innsæi og verklega færni við vinnu sína.
Hvernig veit ég hvort gullsmíði sé eitthvað fyrir mig?
Ef þú hefur áhuga á skartgripum og hlutum úr gulli, silfri eða öðrum málmum, eðalsteinum, hugmyndaþróun, hönnun og framleiðslu gæti gullsmíði verið eitthvað fyrir þig. Þú þarft líka að hafa auga fyrir smáatriðum, góðar fínhreyfingar, listrænt innsæi og fegurðarmat.
Hvar lærir maður að verða gullsmiður?
Gull- og silfursmíði er löggilt iðngrein. Meðalnámstími er fjögur ár, samtals fimm annir í skóla og 72 vikna starfsþjálfun. Náminu lýkur með sveinsprófi sem veitir rétt til starfa við gullsmíði og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.
Tækniskólinn býður upp á nám í gull- og silfursmíði.
Hvar mun ég svo starfa sem gullsmiður?
Flestir gullsmiðir starfa við gullsmíði eða í verslunum sem selja (og kaupa) gull.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?