Tvær gerðir húsnæðistrygginga er skylt að hafa
Þær eru brunatrygging og viðlagatrygging. Auk þess þurfa húseigendur að greiða gjald í ofanflóðasjóð. Aðrar tryggingar eru valfrjálsar. Hér að neðan má glöggva sig á helstu gerðum húsnæðistrygginga.
Hvað er brunatrygging?
Allir húseigendur verða að greiða svokallaða brunatryggingu hjá einhverju af tryggingafélögunum. Brunatryggingin tryggir húsið ef kviknar í – en hún nær einungis til hússins en ekki innbúsins. Upphæð brunatryggingar er byggð á brunabótamati, en brunabótamat er áætlaður kostnaður við að endurbyggja húsið ef það brennur.
Það getur skipt sköpum að vera með innbústryggingu líka, ef það kviknar í hjá manni.
Hvað er viðlagatrygging?
Viðlagatrygging bætir tjón sem verður af náttúruhamförum: snjóflóðum, jarðskjálftum, eldgosum, vatnsflóðum og skriðuföllum. Ofanflóðasjóður stendur svo straum af kostnaði við gerð snjóflóðagarða. Gjöldin eru miðuð við brunabótamat hússins og innheimt af tryggingafélagi.
Hvað kostar að tryggja?
Eins og áður sagði er upphæð bruna- og viðlagatryggingar byggð á brunabótamati, en það er áætlaður kostnaður við að endurbyggja fasteign.
Iðgjöld annarra trygginga geta verið mjög mishá. Það fer m.a. eftir því:
- hvað er tryggt,
- hvað húseign og innbú er metið á mikinn pening,
- hvað einstaklingur hefur verið lengi í viðskiptum við tryggingafélagið,
- hversu mörg tjón einstaklingur hefur lent í, og fleira í þeim dúr.
Besta leiðin til að halda iðgjöldum í lágmarki er að leita reglulega tilboða í tryggingar sínar hjá öllum tryggingarfélögunum. Það getur verið mikill munur á iðgjöldunum á milli tryggingafélaga og því hægt að spara háar fjárhæðir.
Hvaða fleiri húsnæðistryggingar eru í boði?
Tryggingafélögin bjóða upp fjölda annarra trygginga sem bæta tjón sem getur orðið á heimilum. Sem dæmi mætti nefna fasteignatryggingu, innbrotatryggingu og innbústryggingu. Hér að neðan verður farið yfir helstu tryggingar sem fólk hefur val um að kaupa.
Fasteignatrygging
Fasteigntryggingar bæta venjulega það tjón sem verður á fasteigninni sjálfri í óveðrum og innbrotum. Þær eru í raun hugsaðar sem viðbót við þær tryggingar sem eru lögbundnar.
Tjón vegna eftirfarandi eru yfirleitt bætt af fasteignatryggingu:
- tjón vegna vatns, s.s. leka og flóða;
- tjón vegna innbrota eða tilrauna til innbrota;
- tjón vegna óveðurs og snjóþunga;
- tjón vegna sóts, frosts og skýfalls.
Innbústrygging
Innbústryggingar bæta tjón sem verða á húsgögnum og innanstokksmunum. Þær eru viðbótartrygging við fasteignatryggingu og snúa að öllu því sem ekki telst til hússins sjálfs. Innbústryggingum fylgja oft ábyrgðartryggingar en þær bæta tjón sem fólk veldur öðrum og ber ábyrgð á.
Tjón að völdum eftirfarandi eru yfirleitt bætt af innbústryggingum:
- tjón vegna bruna, sprengingar eða eldsvoða;
- tjón vegna vatns, s.s. leka og flóða;
- tjón vegna þjófnaðar úr íbúð og bifreið;
- tjón vegna skemmdarverka;
- tjón á matvælum vegna bilunar í ísskáp eða frystikistu;
- tjón vegna innbrota;
- tjón vegna óveðurs;
- tjón á innbúi sem skemmist í bílslysum;
- tjón á þvotti vegna bilunar í þvottavél;
- tjón á innanstokksmunum sem brotna án utanaðkomandi áhrifa.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?