Hvað eru leigutryggingar?
Leigusalar geta krafið fólk um tryggingar við upphaf leigutíma. Þær eru hugsaðar sem öryggi fyrir leigusala ef leigjendur greiða ekki leigu á tilsettum tíma eða tjón verður á íbúðinni. Upphæð og fyrirkomulag þessara trygginga getur verið misjafnt.
Algengustu formin af tryggingum eru:
- tryggingafé lagt inn á lokaða bankabók;
- fyrirframgreidd leiga, þá oft 1 til 3 mánuðir í senn;
- bankatrygging;
- tryggingarvíxill.
Þarf alltaf að borga tryggingar?
Nei, tryggingagreiðslur á milli leigjenda og leigusala eru samningsatriði. Þó er algengt að leigusalar krefjist þess að fólk greiði einhvers konar tryggingu.
Bankarnir bjóða upp á svokallaða ábyrgðaryfirlýsingu
Þær virka þannig að ef tjón verður á íbúðinni eða leigjandi greiðir ekki leigu getur leigusalinn innheimt þá upphæð frá bankanum. Bankinn sér þá um að innheimta peninginn frá leigjandanum. Þessu fylgir þó ákveðinn kostnaður á ári, en það er mismunandi eftir samningum hverju sinni. Þetta fyrirkomulag getur hentað þeim vel sem ekki hafa efni á að borga tryggingu inn á bankabók eða fyrirframgreidda leigu.
Algengast er að tryggingafé sé lagt inn á lokaða bankabók
Þá hafa bæði leigusali og leigjandi aðgang að bankabókinni. Verði tjón á íbúð eða leiga er ekki greidd getur leigusali tekið út pening af bankabókinni. Sé allt með felldu við lok leigutíma fær leigjandi upphæðina greidda til baka að fullu.
Fyrirframgreidd leiga
Fyrirframgreidd leiga er annað algengt fyrirkomulag. Leigjandi greiðir þá leigusala ákveðinn fjölda mánaða fyrirfram – oft 1 til 3 mánuði í senn. Leigusali getur þá haldið upphæðinni eftir sé leiga ekki greidd eða ef tjón verður á eigninni. Við lok leigutíma gengur svo upphæðin annað hvort upp í leigu síðustu mánuðina eða leigjandi fær hana greidda til baka að fullu.
Ekki er algengt að gerður sé tryggingarvíxill
Með því fyrirkomulagi ábyrgist þriðji aðili trygginguna, t.a.m. fjölskyldumeðlimur leigjanda eða vinur. Þá virkar tryggingin þannig að þessi þriðji aðili greiðir leigu, standi leigjandi ekki í skilum, eða borgi ekki tjón sem hann veldur á íbúðinni. Þetta fyrirkomulag getur hentað þeim sem eru efnalitlir en eiga góða að.
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?