Af hverju að gera húsaleigusamning?
Með því að gera húsaleigusamning við leigusala og þinglýsa honum öðlast leigjandi rétt til að sækja um húsaleigubætur. Húsaleigubætur geta komið sér vel fyrir ungt fólk sem ekki hefur mikið á milli handanna. Auk þess fylgir gerð leigusamnings ákveðið öryggi, bæði fyrir leigjanda og leigusala. Þar er kveðið á um lengd leigutímans, leiguupphæðin er bundin, þær reglur sem gilda í húsnæðinu eru kynntar og gerð grein fyrir fyrirkomulagi trygginga. Þessu fylgir vissulega meira öryggi fyrir báða aðila en ef ekki væri skrifað undir neitt.
Hvað á að koma fram í leigusamningi?
Gæta þarf þess að allar mikilvægar upplýsingar og ákvæði séu til staðar í leigusamningnum áður en hann er undirritaður. Sem dæmi um mikilvæg ákvæði mætti nefna:
- upplýsingar um þá sem koma að samningnum;
- lengd samnings og uppsagnarfrestur;
- leiguverð – og hvað er innifalið í því (hiti, rafmagn, Netið, hússjóður, o.fl.);
- tryggingar, s.s. ef eitthvað skemmist;
- greiðslufyrirkomulag og endurgreiðsla tryggingar;
- lof leigusala um viðgerðir og viðhald, hafi slíkt verið rætt í upphafi leigutíma;
- áform um málningu veggja. Ef svo er, hver greiðir fyrir það?;
- skilgreining á sérstökum húsreglum, ef þær eru í gildi, t.d. hvað varðar gæludýr og nýtingar á sameign.
Á síðu velferðarráðuneytis má nálgast hefðbundinn leigusamning með öllum helstu ákvæðum. 13. ákvæði samningsins eru svo sérákvæði sem leigjandi eða leigusali getur fyllt inn í.
Neytendasamtökin reka sérstaka leigjendaaðstoð fyrir leigjendur íbúðarhúsnæðis. Þar getur þú nálgast upplýsingar um réttindi leigjenda
HVAÐ SEGIR ÞÚ UM ÞETTA EFNI?