Hvort er hagstæðara að kaupa eða leigja húsnæði?

Fólk hugsar gjarnan að með því að leigja húsnæði sé það að henda peningunum í leigusala þegar það gæti allt eins verið að borga upp í húsnæðislán. Hinsvegar er kostnaður við lán líka mikill og raunar fer langstærsti hluti lángreiðslnanna ekki upp í íbúðarkaupin sjálf – heldur í vexti og lántökukostnað. Einnig þarf að gera ráð fyrir viðhaldi, fasteignagjöldum og öðrum kostnaði við það að eiga húsnæði.

Mörg atriði hafa áhrif á svarið við spurningunni

Hvert mál er nefnilega einstakt og ýmsir utanaðkomandi þættir geta haft áhrif á niðurstöðuna. Til að mynda getur svarið að hluta til leynst í verðbólgu, lánsupphæð og tíma, hlutfalli láns og eigin fjár, tegund láns og viðhaldskostnaði hverju sinni.

Ef við gefum okkur að Jón og Gunna eigi bæði 5.000.000 krónur

Gunna leggur sínar 5.000.000 króna inn á verðtryggða sparibók sem ber 3,5% vexti. Jón kaupir sér hinsvegar íbúð á 25.000.000 króna og fær lán fyrir 20.000.000 til 30 ára. Gunna þarf að greiða 130.000 krónur í húsleigu. Jón þarf að greiða sömu upphæð þegar allt er tekið inn í reikninginn: afborganir af lánum og tryggingar, en hann fær vaxtabætur á móti.

Fjögur ár líða og verðbólga er að meðaltali 6%

Þá er staðan á reikningnum hennar Gunnu 7.000.000 króna. Lánið hans Jóns er hinsvegar komið upp í 24.000.000 króna en þar sem íbúðin hefur hækkað í verði í takt við verðbólgu er hún nú metin á 31.000.000 króna. Tæknilega séð hefur Jón ekki eignast neina peninga – og lánið hefur hækkað – en hinsvegar hefur hann fjárfest þeim og gæti nú mögulega selt íbúðina með smávegis hagnaði.

Því verður að meta aðstöðuna hverju sinni

Fólki sem getur borgað háar upphæðir inn á húsnæði og tekið tiltöluleg lág lán hentar oft betur að kaupa heldur en að leigja. Fólki sem þarf að taka há lán fyrir íbúðarhúsnæði gæti hinsvegar hentað betur að safna áfram og ávaxta peningana á öruggum stað.

 

  • Var efnið hjálplegt?
  •    Nei

Ert þú með spurningu?

Öflugt ráðgjafarteymi sérfræðinga svarar spurningum þínum; um kynlíf, námið, sjálfsmyndina, þunglyndi, fíkn, sambönd eða hvað annað sem þér liggur á hjarta. Full nafnleynd og 100% trúnaður.

Spyrja spurningar